Dýrkar að skemmta fólki og borða humar

Margrét Erla Maack fjöllistakona og skemmtikraftur hefur afar gaman að …
Margrét Erla Maack fjöllistakona og skemmtikraftur hefur afar gaman að mat og sviptir hér hulunni af skemmtilegum matarvenjum sínum. mbl.is/Árni Sæberg

Margrét Erla Maack fjöllistakona og skemmtikraftur hefur afar gaman að mat og þegar hún ferðast ákveður hún fyrst hvar hún ætlar að borða og svo hitt sem hún ætlar að gera. Hún hvetur matvöruverslanir til að bjóða upp á minni skammta fyrir einhleypa. Það er engin lognmolla hjá Margréti sem mun hafa nóg að gera í sumar milli þess hún fær sér gott að borða. Hún og kabarettvinir hennar verða til að mynda með sýningu á Humarhátíð á Höfn 22. júní og hlakkar Margréti mikið til að gera tvennt sem hún dýrkar, að skemmta fólki og borða humar. Hún sviptir hér hulunni af nokkrum skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ef ég fæ mér morgunmat fæ ég mér beyglu með avókadó, sítrónu og sesamfræjum. Annars er ég að njóta sumartempósins míns sem er að vakna helst á þeim tíma að fyrsti málsverður dagsins heitir meira bröns en morgunmatur. Vefja með agúrku, avókadó, stundum beikoni og salsa mikið tekið, og núna er ég að vinna í að klára engifer- og gulrótardressingu sem ég gerði í fyrradag, svo fyrsta máltíð dagsins er afar frískandi salat,“ segir Margrét.

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er mikill nartari og þar sem ég vinn mikið heima er það poppkorn eða lítill dúllu-ostabakki með Feyki, parmaskinku og vínberjum sem gleður mig þegar blóðsykurinn er að detta.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Já, að vera svöng fer í skapið á mér og hádegisverður er fullkomin leið til að brjóta upp daginn. Tala nú ekki um ef hægt er að hitta góða vini í leiðinni og fá smá jarðtengingu og gleði.“

Seljið salat í minni skömmtum fyrir einhleypa

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Salat, mis vel á sig komið. Plís, seljið salat í minni skömmtum fyrir okkur einhleypa fólkið og minnkum matarsóun. Góður parmesanlegur ostur getur komið mér ansi langt þegar ég geri bullpasta. Í frystinum á ég alltaf dumplings og frosið carpaccio og þegar ég hef tíma til að elda þá geri ég gjarnan mat sem frystist vel. Munar öllu að geta bara hitað upp afganga. Þegar ég finn góðan humardíl kaupi ég líka.“

Uppáhalds grillmaturinn þinn?

„Ég gæti borðað grillaðan maís í öll mál yfir sumartímann.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Þegar ég ætla að gera allra best við mig gef ég mér tíma til að elda fyrir þau sem mér þykir vænt um. Ég er svo oft að vinna á kvöldin eða í einhverjum hasar að þegar tími gefst þá er það lúxusmatur heima með mínu besta fólki. Ég er mjög hrifin af Kastrup, Hnoss, Skreið, 10 sopum, Brút og Skál. Sushi Social, Tres Locos og Fjallkonan líka. Allra bestir eru hinir klassísku Tapasbar og Austur-Indíafjelagið. Svo langar mig að nefna sérstaklega Eldofninn. Þau sem segja að ungt fólk kunni ekki að vinna, farið þangað að borða. Algjör unun á að horfa á metnaðinn, eljuna og vinnusiðferðið þar.“

Æskudraumar sem rætast hjá Margréti. Það gerðist þegar gripið var …
Æskudraumar sem rætast hjá Margréti. Það gerðist þegar gripið var í áleggshnífinn á 10 sopum með Ragnari Eiríkssyni. Ljósmynd/Aðsend

Á biðlista á Dirt Candy

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á óskalistanum þú verður að heimsækja?

„Ég er búin að vera í mörg ár á biðlista hjá Dirt Candy í New York, virðist aldrei ná að panta flugmiða og borð í réttum takti. Við Bjössi vinur minn erum líka með draum um að fara á French Laundry. En ef ég má mæla með veitingastöðum þá vil ég mæla með DimSumGoGo, Yuca Bar, Raoul's og Barrio Chino í New York.“

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Árið 2007 fór ég fyrst á Raoul's í New York, þar sem við þurftum að spjalla svo mikið að við höfðum ekki skoðað seðilinn þegar þjónninn kom. „Við ætlum bara að fá alla forréttina og freyðivínsflösku," sagði vinur minn og ég hef notað þetta æ síðan. Árið 2016 fór ég með sama vini á Aegern sem Gunnar Karl Gíslason rak í sömu borg, ótrúleg upplifun. Að borða á Tjöruhúsinu í fyrsta sinn 2011 var stórt augnablik, systir mín grét yfir góðum mat þar. Fyrst af því maturinn var svo góður, og síðan því hún var orðin södd og gat ekki borðað meira. Annars er það ekki maturinn sjálfur endilega alltaf, heldur félagsskapurinn og augnablikið.“

Margrét með basilplöntu eftir kabarettsýningu á Friðheimum með Helenu Hermundardóttur.
Margrét með basilplöntu eftir kabarettsýningu á Friðheimum með Helenu Hermundardóttur. Ljósmynd/Aðsend

Geitaostur fer öfugt ofan í mig

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Ég hef alltaf verið matvönd og kreðsin svo ég veit hvað ég fíla og hvað ég fíla ekki en ég get verið mjög ævintýragjörn samt. Ég er einstaklega matseðlaheppin. Hins vegar fer geitaostur alvel öfugt ofan í mig.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Mamma mín og systir. Af fagfólki: Fanney á Hnoss, Gunnar Karl á Dill, Gísli á Skál, Raggi á Brút, Snædís Xyza Mae Jónsdóttir Ocampo á er líka ótrúleg.“ 

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Ég er algjör „basic bitch“ Aperol Spritz. Svo elska ég gamla sódavatnið, sangría, margaríta og cactus berry eru líka gjarnan pantaðir. Plís einhver að bjóða upp á cactus berry á Íslandi.“

Ertu góður kokkur?

„Já, ég er það. Allavega er systir mín búin að fá mig til að elda fyrir brúðkaupið sitt. Eru það ekki ágæt meðmæli?Fólk sem skilur ekki að gera vel við sig í mat er fólk sem ég á litla samleið með.“

Margrét elskar að elda fyrir þá sem henni finnst vænst …
Margrét elskar að elda fyrir þá sem henni finnst vænst um. Ljósmynd/Aðsend
Drottning í ríki sínu. Ragnheiður Ólafs, mamma Margrétar í útieldhúsinu …
Drottning í ríki sínu. Ragnheiður Ólafs, mamma Margrétar í útieldhúsinu í sumó. Ljósmynd/Aðsend
Margrét með foreldra sína í folaldasteik.
Margrét með foreldra sína í folaldasteik. Ljósmynd/Aðsend
Margréti finnst allra skemmtilegast að borða með systur sinni Vigdísi …
Margréti finnst allra skemmtilegast að borða með systur sinni Vigdísi Perlu. Systurnar reyna að fara sem oftast í ferðalög sem snúast um mat. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert