Heimagert granóla, grísk jógúrt og fersk ber í sveitinni

Hrefna Laufey Ingólfsdóttir matgæðingur og fagurkeri á og rekur gistiheimilið …
Hrefna Laufey Ingólfsdóttir matgæðingur og fagurkeri á og rekur gistiheimilið Ása ásamt manni sínum og elskar að framreiða heimagerðan morgunverð fyrir gestina. Samsett mynd

Hrefna Laufey Ingólfsdóttir matgæðingur og fagurkeri elskar að framreiða ljúffengan morgunverð. Hrefna býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni sínum þar sem þau eiga og reka gistiheimilið Ása. Þar fær helsta sérstaða Hrefnu að njóta sín, morgunverðurinn hennar sem hún leggur mikinn metnað í og vill helst hafa allt heimagert.

„Mín helsta sérstaða er morgunverðurinn. Mér finnst gaman að hafa hann fallegan, góðan og sem mest heimagerðan. Minn uppáhaldstími dagsins er snemma morguns þegar ég er að undirbúa morgunverðinn. Það er svo einstaklega mikil ró yfir öllu og mér finnst svo gaman að dekra við gestina okkar.“

Elskar að gera morgunverð fyrir gestina

Hrefna segist ekki alltaf borða morgunverð. „Ég borða stundum morgunverð, ekki alltaf. Ég elska að gera morgunverð fyrir gestina mína og dekra við þá, en borða oft ekki fyrr en um hádegi sjálf.Mér finnst, hins vegar, dásamlegt að njóta morgunverðar með góðu fólki þegar ég er í fríi. Uppáhalds morgunverðurinn minn er jógúrt með granóla og gott kaffi. Svo er samveran við morgunverðarborðið svo einstaklega notaleg. Allir afslappaðir og tilbúnir í daginn. Ró og friður einkennir morgunverðina hjá okkur.“

Grískt jógúrt með heimagerðu granóla og ferskum berjum er í …
Grískt jógúrt með heimagerðu granóla og ferskum berjum er í uppáhaldi hjá Hrefnu. Ljósmynd/Hrefna Laufey Ingólfsdóttir

Grísk jógúrt með heimagerðu granóla

 • Heimagert granóla 
 • 1 lítil dós hrein grísk jógúrt frá Örnu
 • Hlynsíróp
 • Bláber og jarðarber eftir smekk

Heimagert granóla

 • 4 bollar grófir hafrar
 • 3 bollar blandað hnetu, fræmix (hakkaðar pecanhnetur, valhnetur, heslihnetur, möndlur, fræblanda)
 • 4 tsk. kanill
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 1 bolli góð olía
 • 1 bolli hlynsíróp
 • Kókosflögur eftir smekk
 • Þurrkuð trönuber eftir smekk

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C.
 2. Blandið öllu hráefnunum saman nema kókosflögum og þurrkuðum trönuberjum og setjið á bökunarplötu klædd bökunarpappír.
 3. Bakað í ofninum í um að bil 40 mínútur.
 4. Hrærið í nokkrum sinnum í blöndunni.
 5. Bætið við kókosflögum og þurrkuðum trönuberjum síðustu 10 mínútur.

Samsetning:

 1. Byrjið á því að setja heimagerða granóla í botninn á fallegri skál.
 2. Setjið næst hrein grísk jógúrt frá Örnu ofan á eftir smekk.
 3. Hellið smá hlynsírópi yfir á fallegan hátt.
 4. Setjið smá meira granóla ofan á.
 5. Skreytið með ferskum bláberjum og jarðarberjum efst og berið fallega fram.
Heimagert granóla úr smiðju Hrefnu.
Heimagert granóla úr smiðju Hrefnu. Ljósmynd/Hrefna Laufey Ingólfsdóttir
mbl.is