Íslendingar taka yfir veitingastað í Noregi og halda pop-up

Félagarnir Andreas P. Williams Gunnarsson, Jakob Alf Arnarson og Róbert …
Félagarnir Andreas P. Williams Gunnarsson, Jakob Alf Arnarson og Róbert Demirev standa pop-up viðburði á veitingastaðnum Majorens Kro & Stue sem er staðsettur í Fredrikstad í Noregi. Samsett mynd

Dagana 14. til 17. júní næstkomandi ætla félagarnir, Andreas P. Williams Gunnarsson, Jakob Alf Arnarson og Róbert Demirev að halda pop-up á veitingastaðnum Majorens Kro & Stue sem er staðsettur í Fredrikstad í Noregi. Hér er um að ræða einstakan viðburður sem haldinn er í matargeiranum. Mikael Hólm yfirkokkurinn á veitingastaðnum hefur ákveðið að sleppa taumunum á íslensku drengjunum. Mikeal og Andreas kynntust þegar þeir voru nemar á Dill og útskrifuðust saman árið 2019. Það hefur verið sameiginlegur draumur þeirra að skapa eitthvað nýtt og spennandi og loks verður draumurinn þeirra að veruleika, þegar þetta pop-up mun eiga sér stað í vikunni.

Róbert og Andreas verða í eldhúsinu að matreiða 8 rétta matseðil á meðan Jakob hristir fram glæsilegan kokteilaseðil fyrir matargesti. „Að undirbúa svona viðburð er gríðarlega mikilvægt fyrir fólk, eins okkur, sem höfum metnað og ástríðu fyrir faginu okkar. Þetta er ekki einungis gríðarlega skemmtilegt og lærdómsríkt ferli heldur einnig fær þetta verkefni okkur til að þroskast sem einstaklinga með því að stíga út fyrir þægindarammann prófa nýja hluti. Matseðillinn verður ekki sérsniðinn  ákveðninni matreiðslustefnu heldur tekur á helstu áherslum frá norrænni og franskri matargerð,“ segir Andreas.

 Ástríða fyrir matargerð frá barnsaldri

Andreas er souschef á veitingastaðnum Monkeys og hefur ávallt haft ástríðu fyrir matargerð. „Ég var duglegur að elda með mömmu þegar ég var ungur drengur og byrjaði svo að vinna í eldhúsi 15 ára gamall og hef unnið í eldhúsi síðan þá,“ segir Andreas og er spenntur fyrir komandi verkefni í Noregi.

Róbert hefur starfað sem kokkur síðastliðin 6 ár. „Ég hef unnið á mörgum stöðum en lærði á Vox. Þetta er annað pop-upið sem ég tek þátt í en ég fór til Parísar síðasta sumar og lærði helling af þeirri reynslu. Ég hef gríðarlega mikla ástríðu fyrir mat og matargerð og myndi segja að það sé bara orðinn hluti af persónuleikanum mínum,“ segir Róbert.

Alltaf gaman að blanda saman vökva

Jakob hefur mikla ástríðu fyrir kokteilagerð og byrjaði fyrir 6 árum að láta ljós sitt skína. „Mér hefur alltaf fundist gaman að blanda vökvum saman, sú ástríða hefur verið til staðar síðan ég var lítill krakki. Áhersla mín þessa dagana á drykkjum er að notast við gamlar íslenskar geymsluaðferðir í takt við Zero Waste concept. Þar sem öll hráefnin eru notuð því sem allra minnstu hent,“ segir Jakob. Gaman að fá að taka yfir staði úti í heimi og sjá hvernig þau taka í okkar brögð. Það er klárlega eitthvað sem við munum halda áfram að gera, Ísland hefur alltaf legið nokkrum árum eftirá kokteilmenningu heimsins. Ástæða þess eru auðvitað nokkrar, en það er gaman að reyna finna gullna meðalveginn sem virkar hérna heima og þeirra kokteilamenningu sem ríkir úti í hinum stóra heimi,“ segir Jakob og hlakkar til að hrista kokteila fyrir Norðmenn.

Dýrindis þorskur með mysu og hunangssósu með íslensku yfirbragðið.
Dýrindis þorskur með mysu og hunangssósu með íslensku yfirbragðið. Ljósmynd/Aðsend
Girnilegur grillaður skötuselur með vínberjum og kerfil velouté.
Girnilegur grillaður skötuselur með vínberjum og kerfil velouté. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is