Bónus opnar nýja matvöruverslun í Holtagörðum á morgun, laugardaginn 22. júlí klukkan 10.00. Nýja verslunin er um 2.500 fm að stærð eða 40% stærri en gamla verslunin sem nú hefur verið lokað. Verslun Bónus hefur verið í Holtagörðum frá árinu 1994. Nýja verslunin verður á sömu hæð en í hinum enda hússins, á móti tveggja hæða bílastæðahúsi og því eru næg bílastæði að finna.
Mikil áhersla er lögð á að verslunin sjálf skilji eftir sig eins lítið kolefnisfótspor og hægt er. Til að mynda eru kælar og frystar lokaðir og keyrðir áfram af íslenskum umhverfisvænum kælimiðlum í stað freons. Verslunin er lýst upp með LED ljósum sem nota allt af 50% minna rafmagn en hefðbundin ljós og endast líka mun betur. Eins má geta þess að hillur verslunarinnar eru að mestu leyti smíðaðar á Íslandi eða endurnýttar úr öðrum verslunum Bónus.
„Við kveðjum gömlu Bónus-verslunina með söknuði en hún hefur þjónað okkur og okkar viðskiptavinum vel til margra ára. Nýja verslunin er búin öllu því nýjasta sem verslanir Bónus hafa upp á að bjóða eins og t.d. Gripið & Greitt, sjálfsafgreiðslu í bland við hefðbundna afgreiðslukassa, umhverfisvænum kæli og frystibúnaði ásamt orkusparandi lýsingu og betri sorpflokkunaraðstöðu til þess að hægt sé að endurnýta sem mest af þeim umbúðum sem falla til í okkar rekstri,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.