Hakkrétturinn sem börnin munu borða upp til agna

Þessi hakkréttur á eftir að slá í gegn.
Þessi hakkréttur á eftir að slá í gegn. Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

Hér er kominn réttur sem Helena Gunnarsdóttir matarbloggari með meiru segist næstum geta lofað að börn muni borða upp til agna og fullorðnir líklega líka. Við getum vel tekið undir að þetta sé notalegheitamatur eins og hann gerist bestur. Þetta er dásamlegur hakkréttur með gratíneruðu gnocchi og ostasósu. Það má auðvitað nota hvaða pasta sem er í þennan rétt en að mati Helenu taka litlir ferskir dúnmjúkir gnocchi-koddar þennan rétt samt upp á annað stig. Helena heldur úti uppskriftasíðunni Eldhúsperlur þar sem hún deilir með fylgjendum sínum uppskriftum úr sinni smiðju.

Gratínerað gnocchi með hakki og ostasósu

Fyrir 4

  • 500 g nautahakk
  • 1 stk. laukur
  • 2 stk. hvítlauksrif
  • 2 msk. tómatpaste
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 dl vatn
  • 1 stk. nautateningur eða 1 tsk. nautakraftur
  • 1 tsk. oreganó
  • salt og pipar eftir smekk
  • 500 g ferskt gnocchi

Ostasósa

  • 200 g kotasæla
  • 200 g rjómaostur með graslauk og lauk frá MS
  • 1 poki 4 osta blanda frá Gott í matinn
  • smá pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 220°C með blæstri.
  2. Steikið hakkið á pönnu þar til það er brúnað. Bætið smátt söxuðum lauk á pönnuna ásamt hvítlauk. Kryddið með salti og pipar og steikið aðeins áfram.
  3. Bætið tómatpaste á pönnuna ásamt hökkuðum tómötum. Skolið dósina að innan með 1 dl af vatni og bætið á pönnuna.
  4. Kryddið með nautakrafti og oregano og saltið og piprið eftir smekk.
  5. Leyfið að malla í 15 mínútur við vægan eða meðal hita þannig að sósan þykkni aðeins.
  6. Hrærið saman kotasælu, rjómaosti og hálfum poka af 4 osta blöndu. Kryddið með smá pipar og setjið til hliðar.
  7. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakka og bætið því svo út á pönnuna og blandið saman við hakksósuna.
  8. Setjið vænar skeiðar af ostasósunni svo ofan á hakkið og pastað og toppið loks með því sem eftir er af rifna ostinum.
  9. Bakið í ofni í 5-10 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.
  10. Það getur verið gott að hita grillið í ofninum síðustu mínúturnar til að fá meira stökkan ost.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert