Þess vegna áttu að borða fisk

Fiskur, sjávarfang og lýsi er mikilvægur hluti af hollu og …
Fiskur, sjávarfang og lýsi er mikilvægur hluti af hollu og fjölbreyttu mataræði sem getur stuðla að góðri heilsu alla ævi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fiskur, sjávarfang og lýsi er mikilvægur hluti af hollu og fjölbreyttu mataræði sem getur stuðlað að góðri heilsu alla ævi því þar færðu næringarefni sem eru mikilvæg fyrir líkamsstarfsemina.

Samkvæmt ráðleggingum frá landlæknisembættinu er æskilegt að borða minnst 300 g af sjávarfangi á viku eða að minnsta kosti tvisvar til þrisvar í viku. Þar af er mælt með neyslu á feitum fiski vikulega. Þegar rætt er um feitan fisk er aðallega átt við lax, lúðu og síld.  Einnig eru makríll og sardínur flokkuð sem feitur fiskur. Ávallt hefur verið lögð áhersla á að taka lýsi en lýsið er ríkt af D-vítamíni og omega-3 fitusýrum. Segja má að lýsið sé eina fæðubótarefnið sem gerir fólki á öllum aldri gagn og ekki síst er neysla lýsis mikilvæg fyrir íþróttafólk. 

Fiskur er herramannsmatur og gaman er að útbúa fallega og …
Fiskur er herramannsmatur og gaman er að útbúa fallega og bragðgóða fiskrétti sem gleðja bæði auga og munn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fiskur og sjávarfang rík af próteinum

Þau næringarefni sem við fáum úr fiski eru mörg en þau sem mikilvægust má telja eru joð og omega-3. Sjávarfang er einnig ríkt af próteinum og seleni sem eru mikilvæg næringarefni fyrir börn og ungt fólk og þá er sjávarfang fullkomin uppspretta auðmeltanlegra próteina, til að mynda fyrir íþróttafólk. 

Omega-3 hefur margvísleg áhrif á líkamsstarfsemina. Til að mynda við að byggja upp frumuhimnur sem gerðar eru úr fitusýrum en fitusýrurnar hafa jákvæð áhrif á starfsemi frumuhimnanna, ekki síst í samskiptum við aðrar frumur, þar á meðal í heilanum. Ef nóg er af omega-3 nýtir líkaminn það meðal annars til að mynda boðefni sem hafa jákvæð áhrif á líðan. Þetta gæti verið mikilvægt í tengslum við meðferð við þunglyndi en oft mælast omega-3 gildi lág hjá þunglyndissjúklingum. Á sama tíma er omega-3 mikilvægt í framleiðslu á efnasamböndum sem stjórna blóðþrýstingi og blóðstorknun. Bólgu- og ónæmissvörun líkamans er einnig háð magni omega-3 fitusýra á þann hátt að omega-3 dregur úr bólgumyndun og hefur þannig góð áhrif á ofnæmissjúklinga, öfugt við áhrifin sem omega-6 fitusýrur hafa. Því er ekki æskilegt að taka inn omega-6 fitusýrur þar sem nóg er af þeim í fæði nútímamannsins, til að mynda í jurtaolíum og sumum unnum matvælum.

Hefur áhrif á meðgöngu

Hollusta fisksins og sjávarfangs almennt er ótvíræð. Hafa rannsóknir meðal annars leitt í ljós að þeir sem borða fisk tvisvar til þrisvar í viku eiga síður á hættu að fá hjartaáfall en þeir sem borða fisk sjaldnar. Eðlilegur fósturþroski; þá aðallega heili og taugakerfi er háð því að nægjanlegt magn omega-3 fitusýra, DHA og EPA, sé til staðar á fósturskeiðinu og það er því á ábyrgð móðurinnar að neyta sjávarfangs í nægjanlegu magni alla meðgönguna. Önnur mikilvæg vítamín og steinefni sem finna má í feitum fiski og eru mikilvæg á fósturskeiðinu eru A-, D- og B12-vítamín, auk joðs og selens.

Gott fyrir hjartað

Omega-3 fitusýrur eru einnig mikilvægar fyrir þá eldri og kemur það aðallega inn á hjartaheilsu, með því að bæta blóðfitugildi, lækka blóðþrýsting, bæta blóðflæði og draga úr hjartsláttaróreglu. Magn omega-3 kemur einnig við sögu í tengslum við andlega líðan og jafnvel alzheimerssjúkdóminn en mælingar á sjúklingum með þann sjúkdóm hafa sýnt fram á lækkuð gildi í heilavef.

Fiskur, sjávarfang og lýsi er því mikilvægur hluti af hollu og fjölbreyttu mataræði sem miðar að góðri heilsu frá fósturskeiði til framtíðar.

mbl.is