Guðdómleg bökuð ostakaka með heimagerðri saltkaramellu

Guðdómleg bökuð ostakaka með heimagerðri saltkaramellu sem á eftir að …
Guðdómleg bökuð ostakaka með heimagerðri saltkaramellu sem á eftir að slá í gegn í næsta boði. Ljósmynd/Valla Gröndal

Hvað er betra er nýbökuð ostakaka í góðum félagsskap í haustblíðunni þessa dagana? Hér erum við komin með guðdómlega bakað ostaköku með heimagerðri saltkaramellu sem kemur úr smiðju Valgerðar Grétu Gröndal, alla jafna kölluð Valla, matarbloggara með meiru. Hún heldur úti síðunni Valla Gröndal.

Það er ekki algengt að sjá bakaðar ostakökur á íslenskum veisluborðum og Völlu grunar að ástæða þess sá sú að það er tímafrekara að útbúa þær. Við á matarvefnum getum vel mælt með þessari og hvetjum ykkur til að nostra við þessa og njóta. 

Ostakaka með heimagerðri saltkaramellu

Kexbotn

 • 240 g Nairn‘s hafrakex með saltkaramellu
 • 45 g púðursykur
 • 100 g brætt smjör 

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 175°C blástur.
 2. Myljið kexið smátt í matvinnsluvél eða setjið það í rennilásapoka og lemjið hann með kökukefli. Bræðið smjörið, setjið kexið í skál ásamt púðursykrinum og hellið smjörinu saman við og hrærið þar til blandan fer að minna á blautan sand.
 3. Setjið bökunarpappír í botninn á 18 cm smelluform.
 4. Þjappið kexblöndunni í botninn og aðeins upp á hliðarnar.
 5. Setjið inn í ofn og bakið í 10-12 mín.
 6. Takið út og kælið. Á meðan útbúið þið ostafyllinguna.

Fylling

 • 400 g rjómaostur, t.d. Philadelphia
 • 120 g sykur
 • 1 tsk. maizena mjöl
 • salt á hnífsoddi
 • 1 ½ tsk. vanilludropar
 • 140 g 36% sýrður rjómi
 • 3 stór egg

Aðferð:

 1. Það er afar mikilvægt að hráefnin í fyllinguna séu við stofuhita, gott er að taka þau úr kæli að minnsta kosti klukkutíma áður en þið hefjist handa.
 2. Setjið rjómaostinn í skál ásamt sykri og maizena mjöli og hrærið saman á rólegum hraða. Það þarf ekki að þeyta þetta saman.
 3. Setjið því næst salt, vanilludropa og sýrðan rjóma og hrærið áfram á rólegum hraða.
 4. Bætið einu eggi út í einu og hrærið vel á milli áður en þið bætið við næsta. Þegar blandan er klár hellið þið henni í formið og skellið því aðeins á borðið til að losa loftbólur.
 5. Lækkið hitann á ofninum í 150°C.
 6. Klæðið formið að utan með álpappír, helst þykkum eða tvöföldu lagi ef hann er þunnur. Við bökum ostakökuna í vatnsbaði og álpappírinn kemur í veg fyrir að vatn laumi sér inn í formið. Setjið formið í eldfast mót og hellið vatni í formið þannig að það nái 2-3 cm upp á formið.
 7. Bakið ostakökuna í vatnsbaðinu í 1 klukkustund og 20 mínútur.
 8. Hún á að brúnast aðeins að ofan en hún hreyfist aðeins til í forminu að tímanum liðnum en það er alveg eðlilegt.
 9. Slökkvið á ofninum, opnið hurðina á honum og setjið sleif á milli.
 10. Leyfið kökunni að kólna í ofninum í 2 klukkutíma.
 11. Færið hana þá á kökugrind og kælið alveg.
 12. Setjið hana þá á disk og setjið í kæli yfir nótt.
 13. Útbúið saltkaramelluna og hafið hana klára þegar bera á kökuna fram.
 14. Færið kökuna á kökudisk og smyrjið góðu lagi af saltkaramellunni ofan á.
 15. Valla skreytti hana með muldu hafrakexi en þið getið alveg sleppt því eða notað annað skraut ef vill.

Saltkaramella

 • 200 g sykur
 • 2 msk. vatn
 • 125 ml rjómi
 • 45 g smjör
 • 1 tsk. sjávarsalt

Aðferð:

 1. Setjið sykur og vatn í þykkbotna pott og bræðið sykurinn við miðlungs hita. Varist að hræra í sykrinum, hann hleypur þá í kekki.
 2. Best er að leyfa sykrinum alveg að bráðna í friði.
 3. Þegar sykurinn er bráðinn og kominn fallega brúnn litur á hann hellið þið rjómanum saman við og hrærið þá rösklega þar til rjóminn samlagast sykrinum.
 4. Bætið þá smjörinu og saltinu saman við og hrærið þar til karamellan er samlöguð.
 5. Setjið í hreina krukku og geymið í kæli. 
mbl.is