Egg og spínat orkugjafi dagsins

Fallegur morgunverður með eggjum, spínati, tómötum og geitarosti sem gleður …
Fallegur morgunverður með eggjum, spínati, tómötum og geitarosti sem gleður matarhjartað. Unsplash/Ruyan Ayten

Morgunverðurinn er að mati margra mikilvægasta máltíð dagsins. Að útbúa orkumikinn og fallega morgunverð fyrir heimilisfólkið áður en farið er til vinnu og í skóla er ótrúlega gefandi og allir fara glaðir út í daginn. Þessi morgunverðardiskur er einstaklega fallegur, orkumikill og spínatið gefur styrk. Hér er boðið upp á spælt egg frá landsnámshænum, einstaklega holl og góð egg og gulan er svo falleg á litinn, spínat, kokkteiltómata af bestu gerð og til að bragðbæta réttinn eru nokkrir bitar af geitarosti steiktir með fyrir þá sem vilja.

Egg, spínat og geitarostur

 • 2 egg
 • 4-6 kirsuberjatómatar
 • spínat eftir smekk
 • geitarostur eftir smekk, skorinn í bita
 • salt og pipar eftir smekk
 • smjör eða ólífuolía til steikingar 

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 170°C.
 2. Smyrjið eldfast mót í miðlungs stærð með smjöri eða ólífuolíu og setjið til hliðar.
 3. Hitið pönnu og léttsteikið spínat á meðal hita og hafið magn eftir smekk.
 4. Steikið síðan geitarost, nokkra bita ef vill.
 5. Brjótið síðan eggin í formið, bætið við litlum kokkteiltómötum, spínati og geitarosti.
 6. Kryddið til með salt og pipar eftir smekk.
 7. Setjið í ofninn og bakið þar til eggin eru orðin elduð eins og þið viljið hafa þau.
 8. Berið fram og njótið.
mbl.is