Bláberja „yfir nótt“ chiagrautur

Girnilegur bláberja chia fræ grautur með íslenskum aðalbláberjum og jógúrti …
Girnilegur bláberja chia fræ grautur með íslenskum aðalbláberjum og jógúrti sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Linda Ben

Hér höfum við góðan chiagraut sem er upplagt að útbúa daginn áður og borða í morgunmat sem kemur úr smiðju Lindu Ben uppskriftahöfunds sem vart þarf að kynna.

Grauturinn inniheldur haustjógúrtið frá Örnu sem margir bíða allt árið eftir að komi í búðir. Það kemur í takmörkuðu upplagi þar sem notast er við nýupptekin íslensk aðalbláber til að búa til jógúrtið. 

Vert er að taka fram að þó svo að hægt sé að útbúa þennan graut daginn áður þarf alls ekki að bíða svo lengi til að geta borðað hann.

Nóg er að leyfa chia fræjunum að draga í sig vatnið í 10 mínútur áður en bláberjajógúrtinu er bætt út í, og svo er hægt að borða grautinn beint.

Bláberja chiagrautur

  • 1 msk. chia fræ
  • 2 msk. hafrar
  • 1 dl vatn
  • 200 g íslensk haustjógúrt með íslenskum aðalbláberjum
  • ½ banani
  • 1 msk. möndlusmjör
  • 1 msk. saxaðar döðlur
  • 1 tsk. kókosmjöl 
  • bláber að eigin vali

Aðferð:

  1. Setjið chia fræ og hafra í skál ásamt vatni, hrærið og leyfið því að standa í 10 mínútur.
  2. Bætið bláberjajógúrtinu út á skálina og blandið saman. Hægt er að loka skálinni og láta grautinn bíða yfir nótt inn í ísskáp eða borða strax.
  3. Skerið bananann í sneiðar og bætið út á skálina ásamt möndlusmjöri, söxuðum döðlum, kókosmjöli og bláberjum.
  4. Berið fram og njótið.
mbl.is