Kaffitímarnir í ömmu og afa koti eru alltaf jafn notalegir. Þar er yfirleitt nóg af öllu uppi á borðum og ekki óalgengt að heimabakað bakkelsi sé á boðstólum. Sumir hafa mikla matarást á ömmur sínar og fylgja þeim gjarnan gamlar og góðar uppskriftir sem börn, barnabörn og jafnvel barnabarnabörn tileinka sér að nota langt fram eftir fullorðinsárum.
Hér er að neðan er að finna einfalda uppskrift af ömmubollum úr spelti sem alltaf hitta í mark! Bollurnar eru mjög fljótlegar í framleiðslu og ekki skemmir fyrir hversu fá hráefni þær innihalda.
Ömmubollur af bestu gerð sem allir elska
Hráefni:
- 2 1/2 dl fínt spelt
- 2 1/2 dl gróft spelt
- 2 1/2 dl hrein AB-mjólk
- 1 tsk hjartarsalt
- 2 1/2 msk sýróp
Aðferð:
- Fína og grófa speltinu blandað saman og AB-mjólkinni, hjartarsaltinu og sýrópinu bætt við. Öllum hráefnunum er svo hrært saman hvort sem það er gert í hrærivél eða höndunum, þitt er valið.
- Þegar deigið er tilbúið er því skipt upp í 6-8 hluta og bollur mótaðar úr hverjum og einum þeirra.
- Bollunum raðað á ofnplötu með bökunarpappír undir. Gott er að hafa gott og jafnt bil á milli bollanna.
- Bollurnar settar inn í ofn og bakaðar á blæstri við 225° í 8-10 mínútur eða þar til liturinn verður gullinn og fallegur.
- Bollurnar eru bornar fram á meðan þær eru volgar og eru bestar með smjöri og osti en afa þykir dass af appelsínumarmelaði ómissandi með.
Heimabakaðar brauðbollur hitta alltaf í mark í kaffitímanum.
Ljósmynd/Unsplash/Patricia Tsernoshova