Hættulega góðar hnetusmjörs trufflur

Ómótstæðilegar hnetusmjörs trufflur sem einfalt og fljótlegt er að gera …
Ómótstæðilegar hnetusmjörs trufflur sem einfalt og fljótlegt er að gera fyrir öll tilefni. Ljósmynd/Pexels/Towfique Barhuiya

Þessar gómsætu trufflur fá bragðlaukana til að dansa enda alveg syndasamlega góðar. Hins vegar eru þær hollar svo allir sælkerar geta leyft sér að gæða sér á þeim án þess að fá samviskubit yfir því.

Trufflur geta verið sérlega hentugar fyrir margra hluta sakir. Þær eru jú, hreint lostæti en ekki síður mjög einfaldar í framkvæmd og innihalda frá hráefni. Það verður varla betra. Trufflur sóma sér einstaklega vel á veisluborðum, sem eftirréttur, í nammiskálinni, sem tækifærisgjöf eða bara einar og sér með kaffibollanum. 

Hér gefur að líta einfalda og ljúffenga uppskrift að hnetusmjörs trufflum sem einungis innihalda fjögur holl og góð hráefni.

Heimagerðar hnetusmjörs trufflur

Hráefni:

  • 2 bollar mjúkt hnetusmjör
  • 1 bolli Surkrin- eða Agave-síróp
  • 1 bolli kókosmjöl
  • 2 bollar dökkt súkkulaði

Aðferð:

  • Setjið hnetusmjörið og sírópið í stóra skál og blandið vel saman. 
  • Sigtið kókosmjölið varlega ofan í skálin og hrærið ríkulega saman við. Passið að engir kekkir myndist í blöndunni.
  • Þegar deigið er orðið jafnt og þétt er setjið þið plastfilmu yfir skálina og geymið hana í ísskápnum í 20-30 mínútur svo það stífni svolítið.
  • Þegar deigið er orðið stíft mótið þið kúlur úr deiginu með höndunum og raðið þeim á bökunarpappír ofan á plötu, bakka eða box og setjið aftur inn í ísskáp. Leyfið kúlunum að standa þar í að minnsta kosti fimm klukkustundir.
  • Að því loknu bræðið þið súkkulaðið og dýfið hverri og einni kúlu ofan í. Gott er að setja kúlurnar aftur inn í kæli þar til súkkulaðitoppurinn hefur harðnað.
mbl.is