Bráðhollur „Snickers“ sparigrautur

Snickers-sparigrautur er geggjuð byrjun á deginum.
Snickers-sparigrautur er geggjuð byrjun á deginum. Skjáskot/Facebook

Chia-grautur er vinsæll morgunverður og hefur svo sannarlega fest sig í sessi hjá þeim sem kjósa að byrja daginn á staðgóðri og hollri máltíð. Ef þú ert aðdáandi hins hefðbunda chia-grautar og líkar vel við hnetubragð þá ættirðu að prófa þennan um leið og tækifæri gefst.  

Þessi gómsæti en bráðholli „snickers-grautur“ smakkast eins og fínasti eftirréttur. Hann er bæði dísætur og ljúffengur og ekki skemmir fyrir hvað hann lítur vel út þegar búið er að setja hann í fallegt glas og skreyta með hráefnum sem hæfa bragðinu. Plúsinn er líka sá að það er lítil sem engin fyrirhöfn að útbúa hann líkt og myndbandið hér að neðan sýnir.

Snickers sparigrautur með chia-fræjum

Hráefni

Grautur:

  • 45 g hafrar
  • 1 msk chia-fræ
  • Salt
  • 10-15 stk jarðhnetur
  • 120 ml möndlumjólk
  • 70 g grísk jógúrt
  • 1 msk hnetusmjör

Toppur:

  • 2 stk döðlur
  • 1 msk sjóðandi vatn
  • 1 msk hnetusmjör
  • 2-3 kubbar dökkt súkkulaði
  • 1 msk möndlumjólk
  • 2-3 jarðhnetur

Aðferð:

  1. Blandið höfrum og chia-fræjum saman í skál og stráið örlitlu salti yfir. 
  2. Saxið niður hneturnar í smáa bita og bætið ofan í skálina.
  3. Hellið möndlumjólkinni og jógúrtinni út í og loks hnetusmjörinu og hrærið öllu vel saman.
  4. Setjið í kæli í klukkustund.
  5. Steinahreinsið döðlurnar og skerið þær niður í smáa bita.
  6. Hellið vatninu yfir döðlurnar.
  7. Maukið döðlublönduna í blandara. 
  8. Bætið hnetusmjörinu við og látið þeytast þar til blandan fer að líkjast karamellu.
  9. Takið grautinn úr kæli og smyrjið karamellu toppnum yfir.
  10. Saxið súkkulaði kubbana niður og bræðið þá.
  11. Bætið möndlumjólkinni við súkkulaðið og hrærið saman.
  12. Smyrjið súkkulaðiblöndunni yfir karamelluna og toppið með því að strá hnetukurli yfir.
  13. Geymið í ísskáp yfir nótt og njótið til fulls morguninn eftir. 
mbl.is