Þetta er ekta fjölskyldumatur og góð tilbreyting, þar sem hakk og spaghettí fer í nýjan búning. Hér er það rjóminn sem setur punktinn yfir i-ið og breytir þessu í lúxus-hversdagsmáltíð. Þessi dásamlega uppskrift kemur úr smiðju Berglindar Hreiðars hjá Gotterí og gersemar.
„Rétturinn er góður með parmesanosti og hvítlauksbrauði en hér tók ég súrdeigs-snittubrauð, smurði með vel af íslensku smjöri, kryddaði með hvítlauksdufti og salti og setti rifinn pítsaost yfir allt saman og inn í ofn á 200° C í 5 mínútur,“ segir Berglind.
Rjómalagað spaghettí bolognese
Fyrir 5
- 450 g spaghettí
- 700 g nautahakk
- 1 stór gulrót
- 1 laukur
- 3 hvítlauksrif
- 4 msk. tómat paste
- 400 g hakkaðir tómatar (í dós)
- 100 ml pastavatn
- 2 msk. fljótandi nautakraftur
- 1 tsk. þurrkuð basilíka
- 1 msk. oreganó krydd
- 150 ml rjómi
- Salt og pipar eftir smekk
- Ólífuolía til steikingar
Meðlæti
- parmesanostur
- hvítlauksbrauð
Aðferð:
- Saxið laukinn smátt og rífið gulrót og hvítlauk niður með fínu rifjárni.
- Steikið hakk og lauk á pönnu, kryddið eftir smekk. Þegar það er að verða tilbúið má bæta gulrót og hvítlauk saman við og steikja við meðalhita aðeins lengur eða þar til það mýkist.
- Sjóðið á meðan spaghettí al dente í vel söltu vatni.
- Takið 100 ml af pastavatninu á meðan spaghettíið sýður, bætið á pönnuna með hakkinu ásamt tómat paste, hökkuðum tómötum, nautakrafti, basilíku og oreganó, leyfið að malla aðeins, í um það bil 10 til 15 mínútur.
- Í lokin bætið þið rjómanum saman við og smakkið til með kryddum, setjið síðan spaghettí saman við og blandið varlega saman við.
- Njótið með parmesan osti og hvítlauk.