Kristjánsbakarí á Akureyri til sölu

Fasteigin Hríslundur 3 sem hýsir rekstur og verslun Kristjánsbakarís hefur …
Fasteigin Hríslundur 3 sem hýsir rekstur og verslun Kristjánsbakarís hefur verið auglýst til sölu. Samsett mynd

Fasteignin Hrísalundur 3 hefur verið auglýst til sölu, en það er rúmlega 1.900 fermetra iðnaðar- og verslunarhúsnæði sem hýsir rekstur og verslun Kristjánsbakarís. Þetta kemur fram á vefmiðlinum Akureyri.net í vikunni. Fram kemur í auglýsingunni að möguleiki sé á að kaupa reksturinn og tæki til reksturs iðnaðarbakarís.

Bakaríið og verslanir þess ganga í daglegu tali undir heitinu Kristjánsbakarí, en Brauðgerð Kr. Jónssonar var stofnuð á Akureyri 12. júní 1912 af Kristjáni Jónssyni. Gæðabakstur ehf. í Reykjavík keypti Kristjánsbakarí árið 2015, en þá var það eitt af elstu fjölskyldufyrirtækjum landsins með um 103 ára sögu í samfelldri eigu þriggja ættliða, að því er fram kom í frétt á mbl.is þegar kaupin áttu sér stað.

Kristjánsbakarí og Gæðabakstur sameinuðustu árið 2016

Bræðurnir Birgir og Kjartan Snorrasynir, sonarsynir stofnandans, héldu áfram rekstri brauðgerðarinnar í óbreyttri mynd fyrst eftir að Gæðabakstur kom inn í reksturinn. Kristjánsbakarí og Gæðabakstur sameinuðust undir einum hatti 2016.

Segja áskoranir í rekstrinum

Aðspurður segir Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, áhuga hafa komið fram og þeir hafi fengið fyrirspurnir um reksturinn, en ýmislegt komi til greina. Afkoma rekstrareiningarinnar á Akureyri hefur ekki verið eins og best verður á kosið, en Vilhjálmur segir aðalatriðið að vinna að því af yfirvegun að bæta reksturinn. Hann leggur áherslu á að fyrirtækið hafi ekki ákveðið að hætta rekstri á Akureyri því þar sé úrvalsgott starfsfólk, yfir 30 störf, og mikilvægt að halda þeim störfum. Því séu menn rólegir og vinni að því að koma rekstrinum í betra form og vilji gera allt til að halda þessum störfum á Akureyri samkvæmt fréttinni á vefmiðlinum Akureyri.net.

Meðal þess sem gæti orðið ofan á er að fá inn nýjan meðeiganda til að hafa umsjón með rekstrinum á Akureyri því Vilhjálmur segir ákveðnar áskoranir fólgnar í rekstrinum, til dæmis að fjarstýra rekstrinum að sunnan. Í því sambandi má einnig nefna að fyrirtækið er að missa öflugan liðsmann, Ingólf Gíslason, sem hefur verið rekstrarstjóri á Akureyri. Að sögn Vilhjálms er Gæðabakstur mjög sterkt félag í heild, en reksturinn á Akureyri er um 20% af heildarveltu félagsins.

mbl.is