Sindri stefnir á verðlaunapall í Bocuse d´Or

Sindri stefnir á verðlaunapall og segir það ávallt hafa verið …
Sindri stefnir á verðlaunapall og segir það ávallt hafa verið drauminn að fá að keppa fyrir Íslands hönd á Bocuse d´or. mbl.is/Arnþór

Nú styttist óðum í hina annálaðu keppni Bocuse d´Or Europe sem er draumakeppni flestra kokka að fá að taka þátt í. Næsti fulltrúi sem keppir fyrir Íslands hönd er Sindri Guðbrandur Sigurðsson kokkur. Keppni verður haldin Þrándheimi dagana 19. – 20. mars 2024.

Sindri sigraði í keppninni um titilinn Kokkur Ársins 2023 og var meðlimur í Kokkalandsliði Íslands frá árinu 2018 til 2022. 

Alltaf verið draumurinn

Aðspurður segir Sindri þetta hafa verið alltaf verið draumurinn. „Þetta hefur verið langtíma markmið og draumur hjá mér að taka þátt fyrir Íslands hönd  í Bocuse d´or. Þetta er stærsta einstaklings keppni í heimi og get ég ekki beðið eftir að byrja,“ segir Sindri. „Skemmtilegt dæmi er að ég á gamla uppskriftabók og árið 2016 skrifaði ég í hana Bocuse d´Or 2025, hugurinn hefur ávallt stefnt þangað.“

Hvert er markmið þitt með þátttökunni?

„Ég set alltaf markmiðið hátt og stefni að því að vera á verðlaunapalli, ég mun gefa mig allan í þetta verkefnið.“ 

Agi, ástríða og sjálfstraust

Hvað þarf kokkur að hafa til að bera til að komast í keppni sem þessa?

„Það er sambland af mörgu, fyrst og fremst að vera góður kokkur og hafa keppnisreynslu. Svo er það agi, ástríða og sjálfstraust sem kemur manni lengst að mínu mati,“ segir Sindri fullur tilhlökkunar.

Aðstoðarmaður Sindra verður Hinrik Örn Halldórsson og þjálfari hans verður Sigurjón Bragi Geirsson keppandi Íslands 2023.  Dómari Íslands verður Þráinn Freyr Vigfússon keppandi Íslands 2011. Allir eru þetta miklir reynsluboltar sem hafa mikla ástríðu fyrir faginu sínu. Það verður spennandi að fylgjast Sindra á komandi mánuðum og ekki síst í keppninni sjálfri.

mbl.is