Einföld fiskisúpa og nýbakað brauð með spínatpestói

Berglind Lilja Guðlaugsdóttir og sonur hennar Kristian Aron Martinsson njóta …
Berglind Lilja Guðlaugsdóttir og sonur hennar Kristian Aron Martinsson njóta þessa að matreiða saman og töfra hér fram fiskisúpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Lilja Guðlaugsdóttir, næringarfræðingur og aðjunkt í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, er mikill matgæðingur og hefur ástríðu fyrir því að elda hollan og góðan mat fyrir alla fjölskylduna.

Sérstaklega er henni hugleikið að huga að mat fyrir ung börn. Hún sviptir hér hulunni af sínum uppáhaldsrétti sem er fullkominn fyrir alla fjölskylduna.

„Ég er einnig doktorsnemi í heilsueflingu við Háskóla Íslands og í doktorsnámi mínu er ég ásamt teyminu mínu í bragðlaukaþjálfun að rannsaka matvendni og fæðuvenjur meðal leikskólabarna. Ég er reglulega með fræðslu og námskeið fyrir foreldrafélög, nýbakaða foreldra og fleiri um fæðuvenjur barna og matarlíf fjölskyldunnar,“ segir hún.

Berglind segir að matarvenjur hennar og fjölskyldunnar breytist ávallt eftir árstíðum. „Matarvenjurnar breytast mikið á haustin þar sem við förum meira úr útilegumatnum, grillinu og köldum sumarsalötum, yfir í heita pottrétti og súpur. Þegar það kólnar í veðri og myrkrið eykst þá finnst mér fátt notalegra en að borða heitan hafragraut á morgnana og heitar súpur á kvöldin enda er ég mjög mikil kuldaskræfa. Mér finnst haustið dásamlegur tími með öllu nýupptekna íslenska grænmetinu og nýtíndum berjum.“

Að matreiða saman frábær leið fyrir tengslamyndun

Uppáhaldshaustrétturinn hennar Berglindar er einföld fiskisúpa. „Súpan kitlar bragðlaukana á köldu haustkvöldi og ég ber hana fram með heimabökuðu brauði og spínatpestó. Ég er mikið fyrir að elda og mér líður best í eldhúsinu að prófa mig áfram. Ég fer sjaldan eftir uppskriftum og finnst skemmtilegast að nýta það hráefni sem ég á til í skápum og sjá hver útkoman verður. Það er einmitt þannig sem þessi fiskisúpa varð til.

Að matreiða kvöldmatinn er minn tími til þess að setja á góða tónlist og einbeita mér að því að útbúa góða máltíð en eftir að ég varð móðir hefur þessi tími breyst ansi mikið. Þessa dagana elda ég oftast kvöldmatinn með átta mánaða strákinn minn á öðrum handleggnum og tveggja ára strákinn minn í hjálparturninum sínum að aðstoða mig við matreiðsluna. Þessi tími dags er alltaf jafndásamlegur þótt hann sé krefjandi.

Það er frábær leið fyrir tengslamyndun foreldra og barna að matreiða saman og getur verið notaleg samverustund ásamt því að börnin læra mikilvæga leikni sem mun nýtast þeim út lífið. Yfirleitt er hægt að finna einhver verkefni fyrir börnin í eldhúsinu sem henta þeirra færni og aldri. Til dæmis að rífa salatblöð í salatið, mæla hráefni í brauðið, raða grænmetinu á bakka eða aðstoða við að hræra í súpunni,“ segir Berglind með bros á vör.

Borðhaldið skiptir Berglindi líka máli. „Að setjast svo öll fjölskyldan saman við eldhúsborðið og borða heita máltíð sem við öll hjálpuðumst að við að útbúa og ræða saman um daginn og veginn finnst mér vera dýrmætar stundir.“

Fiskisúpan fullkomin leið til að auka grænmetisneyslu

Það er fátt sem kallar meira á matarmikla súpu en haustið og kuldinn sem læðist yfir landið með veturinn fram undan. „Ég er alin upp í sjávarþorpi þar sem fiskur var á boðstólum nokkra daga í viku og aðgengi að honum auðvelt. Í dag finnst mér dásamlegt að geta rölt yfir í næstu fiskbúð og keypt ferskan fisk en þar geta allir fjölskyldumeðlimir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Samkvæmt landskönnun á mataræði Íslendinga sem framkvæmd var á árunum 2019-2021 kom í ljós að fiskneysla hefur farið minnkandi hjá landsmönnum og við erum ekki að borða nógu mikið af fiski, þá sérstaklega við unga fólkið. Fiskur er góð uppspretta próteina, joðs og fleiri mikilvægra næringarefna og hægt er að matreiða fisk á óteljandi vegu.

Fyrir mér er þessi fiskisúpa fullkomin leið til að auka grænmetisneyslu dagsins en hægt er að leika sér með ólíkar tegundir af grænmeti og skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt í hvert skipti. Þessi réttur býður upp á marga möguleika og er frábær leið til þess að bjóða börnunum okkar að velja með okkur það grænmeti sem við viljum setja í súpuna og hvetja þau til þess að aðstoða okkur við undirbúninginn en börn eru líklegri til að vilja borða þann mat sem þau hafa útbúið sjálf.“

Vinsælt að útbúa bangsa-brauðbollur

Berglindi finnst ómissandi að bjóða upp á nýbakað brauð með súpunni. „Brauðið er mjög einfalt og þarfnast lítils undirbúnings. Við breytum stundum til og mótum frekar bollur úr uppskriftinni. Hér á okkar heimili er mjög vinsælt að útbúa bangsa-brauðbollur þar sem bollurnar eru mótaðar í bangsa og fræ notuð sem augu og nef.

Auðvelt er að aðlaga réttinn þörfum hvers og eins en eldri strákurinn okkar er með mjólkurofnæmi svo allur rétturinn er mjólkurlaus. Við erum einnig með átta mánaða gamlan strák sem fær sömu hráefni nema löguð að hans færni til þess að matast. Þá eru fiskurinn og kartöflurnar stöppuð og grænmetið skorið í hæfilega bita. Svo þarf auðvitað að sjóða smá fiskbita handa heimiliskettinum sem er aldrei langt undan þegar það er fiskur í matinn.“

Haustrétturinn sem er í uppáhaldi hjá Berglindi er þessi einfalda …
Haustrétturinn sem er í uppáhaldi hjá Berglindi er þessi einfalda fiskisúpa borin fram með nýbökuðu brauði og spínatpestó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einföld fiskisúpa sem kitlar bragðlaukana

 • 900 g ýsa, þorskur eða annar fiskur að eigin vali
 • 1 paprika
 • 6-8 kartöflur
 • 200 g gulrætur
 • 1 rauðlaukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 1/2 teningur fiskkraftur
 • 1 lítil dós tómatpúrra
 • 2 tsk. paprikuduft
 • 2 tsk. chilli-duft
 • 2 msk. steinselja
 • 1 msk. basilíka
 • 250 ml hafrarjómi (einnig hægt að nota kókosmjólk eða matreiðslurjóma)
 • 3 msk. olía til steikingar
 • 2 l vatn
 • 1 sítróna (til að kreista yfir súpuna þegar hún er borin fram)

Aðferð:

 1. Skerið papriku, kartöflur, gulrætur, rauðlauk og hvítlauk smátt og steikið í pottinum í nokkrar mínútur eða þangað til grænmetið byrjar að mýkjast.
 2. Bætið vatni, tómatpúrru og öllu kryddi saman við.
 3. Látið súpuna sjóða í 20 mínútur.
 4. Skerið fiskinn í litla bita og bætið við súpuna og látið sjóða áfram í 10 mínútur.
 5. Bætið hafrarjómanum saman við og leyfið súpunni að sjóða í 5 mínútur í viðbót.
 6. Hér er mikilvægt að smakka súpuna til og bæta við salti ef vill.
 7. Berið fram með sítrónusneiðum.

Heimabakað brauð

 • 3 dl heilhveiti
 • 3 dl hveiti
 • 4 tsk. ger
 • 1/2 tsk. salt
 • 3 dl volgt vatn
 • 2 msk. olía
 • 1 egg til að pensla með
 • 2-3 msk. fræ að eigin vali ofan á brauðið (t.d. birkifræ, hörfræ eða graskersfræ).

Aðferð:

Blandið öllum þurrefnum saman í skál.

Bætið við olíu og volgu vatni.

Hrærið vel saman og hnoðið í höndunum.

Setjið brauðið í form og látið hefast í að minnsta kosti 10 mínútur en ákjósanlegast er að láta hefast í 30 mínútur.

Penslið brauðið með hrærðu eggi og stráið fræjum yfir.

Bakið brauðið við 200°C í miðjum ofni í 25-30 mínútur.

Spínatpestó

 • 4 lúkur spínat
 • 1 hvítlauksrif
 • 2 msk. ólífuolía
 • 2 msk. furuhnetur
 • 1 msk. fersk basilíka
 • Safi úr hálfri sítrónu

Aðferð:

 1. Allt hráefni sett í matvinnsluvél þangað til það blandast vel saman.
Dýrmætustu stundirnar oft við eldhúsborðið.
Dýrmætustu stundirnar oft við eldhúsborðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka