Heimsins bestu snúðar

Heimsins bestu snúðarnir hennar Hönnu Þóru keramiker eru ótrúlega girnilegir.
Heimsins bestu snúðarnir hennar Hönnu Þóru keramiker eru ótrúlega girnilegir. Ljósmynd/Hanna

Þessi girnilega uppskrift að heimsins bestu snúðum kemur úr smiðju Hönnu Þóru keramiker og hefur verið í fjölskyldu hennar í áratugi. Snúðarnir fanga augun um leið og ilmurinn er svo lokkandi að það er nánast vonlaust að standast freistinguna að smakka. Það var raunin þegar við á matarvefnum prófuðum þessa uppskrift. 

Þessir snúðar hafa fylgt mér frá því ég man eftir mér. Uppskriftin kemur úr bók sem mamma hafði með sér þegar við fluttum heim frá Svíþjóð fyrir tæplega 50 árum. Snúðarnir hafa verið í nánast öllum barnaafmælum í fjölskyldunni og núna þegar dóttir mín heldur barnaafmæli bakar hún heimsins bestu snúða, þeir klárast nánast alltaf en ef nokkrir eru eftir má henda þeim í frystinn og gæða sér á seinna. Þeir geymast mjög vel þar,“ segir Hanna. Hanna heldur úti heimasíðunni Hanna.is  þar sem hægt er að finna girnilegar uppskriftir úr hennar smiðju.

Nú er ekkert í fyrirstöðu og upplagt er að prófa þessa dásamlegu snúða og fá ilminn af þeim inn í eldhúsið.

Heimsins bestu snúðar

Deig

 • 50 g pressuger eða 1 bréf (12 g) þurrger
 • ½ l mjólk
 • 100-150 g smjör
 • ½ tsk. salt
 • 1½ – 2½ dl sykur
 • 2 tsk. kardimommur
 • 1 egg
 •  l hveiti (u.þ.b. 12 – 13 dl)
 • Nokkrar heilar kardimommur (kjarninn), muldar í mortéli (má sleppa)
 • 1 egg til penslunnar

Skraut (má sleppa)

 • Möndluflögur, hnetumulningur og/eða grófur sykur

Fylling á hvorn helming

 • 50 g smjör (samtals 100 g)
 • 1 dl sykur (samtals 2 dl)
 • 1 msk. kanill (samtals 2 msk.) 

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hita mjólk og smjör í 37°C (best að bræða smjörið fyrst og hella mjólkinni út í).
 2. Setjið ger, kardimommur, sykur og salt í skál og blandað vel saman.
 3. Hellið 37°C heitri mjólkurblöndunni í skálina.  Athugið alls ekki hærra en 37°C – frekar aðeins lægra.
 4. Setjið nokkra dl af hveiti í skálina og hrærið með sleikju.
 5. Bætið síðan egginu við, gott að hafa það við stofuhita, og hrærið.
 6. Bætið við afgangi af hveiti og hnoðið þar til deigið verður þannig að hægt sé að koma við það án þess að það klístrist við mann, passa samt að hafa það ekki of þurrt.
 7. Látið hefast í 1 klukkustund með rakan klút yfir skálinni, á stað sem ekki er trekkur.
 8. Skiptið deiginu er skipt í tvennt, fletjið út í um það bil 25×50 cm.
 9. Dreifið mjúku eða bræddu smjörinu yfir deigið.
 10. Blandið saman kanil og sykri og stráið yfir.
 11. Búin til rúlla úr deiginu og henni skipt í tvennt
 12. Skiptið síðan hverjum helmingi í þrjá hluta og síðan hverjum þriðjungi í tvo. Það eiga að koma 24 snúðar úr hverri rúllu. Gott er að gera fyrst far með hnífnum, þegar verið er að skipta niður, og skera svo alveg niður þegar búið er að áætla stærð snúðanna – þá eru minni líkur á að fyllingin leki.
 13. Gera það sama við hinn helminginn => samtals koma 48 snúðar úr uppskriftinni. Athugið, það má hafa snúðana færri og stærri en þá þurfa þeir aðeins lengri bökunartíma.
 14. Raðið snúðunum á smjörpappír á bakstursplötu og látið hefast aftur í 1 klukkustund með klút yfir.
 15. Penslið að lokum snúðana með pískuðu eggi, má píska örlítilli mjólk með. Hægt að setja grófan sykur á snúðana, möndluflögur eða hnetur sem skraut og til bragðbætis
 16. Bakið við 250°C (yfir- og undirhiti) í u.þ.b. 5 – 7 mínútur.
 17. Berið fram og njótið.
mbl.is