Nanna Ósk Jónsdóttir sælkeri með meiru sviptir hulunni af skemmtilegum matarvenjum sínum að þessu sinni sem má með sanni segja að einkennist af matarástríðu. Nanna er mikill orkubolti og er sjaldnast bara með einn bolta á lofti í einu. Hún er tveggja barna móðir, athafnakona, frumkvöðull, með stúdentspróf frá Verzló, viðskiptafræðingur með meistarapróf með diplóma í markaðssetningu og danskennari svo fátt eitt sé nefnt. Hún elskar að matreiða og prófa sig áfram í alls konar matargerð en er líka mikið fyrir þjóðlega íslenska rétti sem hafa fylgt þjóðinni gegnum tíðina.
„Ég held að vömbin á mér fái litla hvíld og yrði frá ef ég þyrfti að fasta. Ég vakna svöng og passa mig á því að fara ekki svöng í rúmið. Ég er sem sagt sísvöng og elska að elda góðan mat við sérstök tilefni og bjóða fólki í mat. Ég er mikið fyrir að prufa mig áfram og leika mér við bragðlaukana og er sjaldan með uppskriftir. Taílenskir og ítalskir réttir eru í sérstöku uppáhaldi, t.d. er einn ítalskur pastaréttur vinsæll hjá vinahópnum. Chilli-, hvítlauks-, tómat-, rjómalagað pasta með humar í skel frá Þorlákshöfn, ferskum tómötum, kóríander og parmesan,“ segir Nanna.
Nanna segist síðan sveigjast alveg í hina áttina og finnst íslenskur, þjóðlegur matur dásamlegur. „Finnst fátt betra en kaldur sviðakjammi með kaldri rófustöppu og kartöflumús. Ég borða allan hausinn enda alin upp við þessar hefðir og var mikið í sveit sem krakki. Þetta stundaði sveitastelpan reglulega eftir að hafa dansað alla nóttina, að koma við á BSÍ og fá sér eins og einn kjamma á leiðinni heim. Keypti oft tvo á leiðinni. Syni mínum fannst þetta heldur skondin sjón að sjá sviðakjamma poppa upp í ísskápnum um helgar. Við eigum auðvitað besta lambakjöt og fisk í heimi. Af þjóðlegum fiskréttum finnst mér saltaðar gellur og kinnar með nýjum kartöflum og góss af smjöri, algjört sælgæti. Hér mætast því andstæður, gamli tíminn og nýi, sem og um landsins höf. Bragðlaukarnir hjá mér eru út og suður eins og miklu matargati sæmir,“ segir Nanna og hlær.
„Ég ákvað að stokka spilin upp og einfalda aðeins lífið eftir covid. Ég hafði verið bæði í annasömum föstum vinnum og líka með eigin rekstur, nánar tiltekið leiguhúsnæði sem mér hafði verið bent á, gerði upp frá grunni en ekki var allt sem sýndist í því húsnæði. Þetta varð fullstór biti þegar covid-ið skall á með öllu sínu og allt varð stopp. Í miðjunni á öllum þessum farsa fékk 14 ára dóttirin bakslag í undirliggjandi barnagigt sem hún greindist með þegar hún var tveggja ára og ég sjálf greind með vanvirkan skjaldkirtil og breytingaskeiðið í botni. Ég var að bráðna eins og smjör og hugsaði með mér að ég þyrfti að setja heilsu mína og dótturinnar í fyrsta sæti. Þegar þú hefur einu sinni gengið í gegnum það að missa nánast barn og þú stendur frammi fyrir lækni sem segir þér að fyrsta barninu hafi ekki verið hugað líf um tíma, triggera öll alvarleg veikindi hjá börnunum þínum slík áföll. Þetta var því hárrétt ákvörðun að taka árið í að fókusera á þessa hluti. Án gríns var hjónabandið þó mesta álagið, það er auðvitað eitt stórt barn.“
„Hvað skiptir mestu máli í lífinu verður ósköp skýrt við svona aðstæður. Mitt innsæi sagði mér að setja velferð dótturinnar í fyrsta sæti og árangurinn leynir sér ekki. Báðar komum við sterkari út úr þessum tíma og í dag er eins og ekkert hafi amað að henni, þökk sé snillingunum í barnagigtarteymi Barnaspítala Hringsins og líftæknilyfjum. Unga daman komst inn í Verzló á nýsköpunar- og listabraut, fékk sérstaka viðurkenningu fyrir árangur í stærðfræði og er farin að sprella aftur. Þá er mömmuhjartað rólegt og ég get farið að huga að framanum og hvað sé í boði. Það er ég einmitt að gera núna og er einnig að bæta við mig diplomanámi í kennsluréttindum, tek núna ritlist og bókmenntir, málrækt og málfræðikennslu. Þá er ég ekkert að fara að hætta danskennslunni. Hún verður bara í annarri mynd og ég er með í skoðun hjá Hreyfingu að kenna nokkrum dívum þar,“ segir Nanna og er spennt fyrir komandi vetri.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég elska að fá mér hafragraut með ávöxtum, þeyting, engifer eða hreinan ávaxtasafa, vítamín og sterkan kaffibolla í morgunsárið. Ég legg mikið upp úr rútínu á morgnana því það setur svolítið daginn. Morgunstund gefur gull í mund og ég byrja iðulega á því að skella djass í græjurnar til að setja mood-ið og að við mæðgur vöknum. Fer allt eftir hversu mikinn tíma ég hef, áður en ég skottast með unglinginn í Verzló eða ég skelli mér í morguntíma klukkan 7.15 hjá Stínu Einars í Hreyfingu og í aðrar annir dagsins.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Já, það má segja að ég sé sísvöng og reyni að hafa það hollt eins og ávexti, hrökkbrauð og þvíumlíkt en ég er sólgin í harðfisk með nóg af smjöri og get borðað hann allan sólarhringinn. Þess á milli missi ég mig í vínberja- og ostaáti.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Ég væri ekki lifandi ef ég borðaði ekki matarmikinn hádegismat og í uppáhaldi er alls konar fiskur. Bleikja, silungur og lax eru í sérstöku uppáhaldi. Ef ég hef ekki borðað yfir daginn er best að láta mig í friði, fer beint í skapið því blóðsykurinn hjá mér er viðkvæmur, svo mikið matargat er ég. Hreyfi mig mikið og þarf því væntanlega meiri orku að brenna.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Fyrir utan allt það daglega passa ég mig alltaf að eiga chilli, hvítlauk, límónu, kóríander, basil og tómata. Með ólíkindum hvað er hægt að matreiða með þessum grunnefnum.“
Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?
„Lax og nautalund.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Barcelona er í sérstöku uppáhaldi og þar er staður sem ég hafði reyndar farið á áður fyrir nokkrum árum og fannst algjörlega ómissandi að koma við þar aftur með vinkonuhópi í golfferð og leyfa þeim að upplifa staðinn. Veitingastaðurinn hefur verið verðlaunaður sem einn af þeim bestu í heiminum og átti nýlega 20 ára afmæli. Hann er opinber aðili kampavínsins Dom Pérignon. Veitingastaðurinn er við ströndina og er upplifunarveitingastaður og heitir Carpe Diem Lounge Club í Barcelona. Á meðan beðið er eftir matnum eru leikarar og dansarar með uppákomur og tónlist og stemning í loftinu. Þar að auki er hægt að fá nudd á axlirnar á meðan beðið er eftir ljúffengum réttum. Fyrir þá sem vilja breytist hluti staðarins í dansstað með uppákomum og hægt er að slaka á í hvítum rúmum og fá sér desert.“
Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?
„Ég á ógleymanlegar matarupplifanir á lífsins ferðalögum í gegnum tíðina og legg mikið upp úr þeim augnablikum sem eru að mínu mati stór hluti af ferðalaginu. Að upplifa matarmenningu hverrar þjóðar er málið og er sérstakt áhugamál hjá mér. Það sem stendur helst upp úr hjá mér nýlega er matarupplifun á Krít en þar er mikil náttúrufegurð og matarmenning. Fyrsta kvöldið eftir að við fjölskyldan lentum snæddum við og horfðum á ógleymanlegt sólarlag á klettaströnd í Kalamaki, með sjóinn niðandi við fæturna. Þá voru ljúffengir ítalskir réttir bornir á borð með tilheyrandi vínsétteringum. Lokakvöldverðurinn stóð líka upp úr á þessu ferðalagi en veitingastaðurinn hét því skemmtilega nafni Nannas og er við bátahöfnina í gamla bænum Chania á Krít. Þar borðuðum við risarækjupasta, risotto og sushi á svölunum á annarri hæð með stórfenglegu sólarlagi í baksýn, blaktandi sjóinn, vita og sportbáta í augsýn. Þar sem við sátum var staðurinn myndskreyttur með hefðarkonum í loftinu fyrir ofan borðið þar sem þær virtu þessa gesti fyrir sér. Nannas hafa væntanlega verið þær og væri nú ekki leiðinlegt að útfæra veitingastað hér heima eftir þessu konsepti. Maturinn, umhverfið og þjónustan var óaðfinnanleg.
Mér finnst virkilega gaman að spá í sögu veitingastaða og fjölskyldunum sem stofna þá. Sumir staðir úti í heimi ganga kynslóða á milli og mér finnst viska og verðmæti í því. Heilu fjársjóðirnir í leyndum mataruppskriftum fylgja gjarnan sögu hverrar fjölskyldu með matarást og hlýju. Vandvirknin og natnin í sérhverju smáatriði. Það hefur ávallt hrifið mig að forvitnast um sögu fyrirtækja og eru veitingastaðir í sérlegu uppáhaldi. Það er mikil list og yfirlega að reka góða veitingastaði og því ber ég mikla virðingu fyrir.“
Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
„Súrir pungar og hákarl.“
Uppáhaldskokkurinn þinn?
„Jamie Oliver og Nigella Lawson, algjörir ástríðukokkar og dásemd. Það er sannarlega hámáhorf hjá mér með þessu fólki og ég hef gaman af flestum matreiðsluþáttum, í hvaða mynd sem þeir eru. Gæti vel hugsað mér að elda einhvern ítalskan rétt á ströndinni með öllum græjum.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Dagsdaglega alls konar nýpressaðir safar með engifer og þeytingar. Á kvöldin um helgar hvað varðar vínmenningu er það ískalt Sauvignon Blanc frá Nýja-Sjálandi, helst
Cloudy Bay, í rauðvínum er það sérinnflutt Cabernet Sauvignon sem mér hefur þótt slá í gegn og þurr freyðivín við alls konar tilefni. Ég er mikill sælkeri og neita mér um fátt en hreyfi mig því meira.“
Ertu góður kokkur?
„Já, ég held ég sé bara fínasti kokkur, eða það segja a.m.k. fjölskylda, vinir og heimilisfólk. Mér finnst skemmtilegast að elda við sérstök tilefni og leyfi orðrómnum bara að berast með matarástinni. Að lokum langar mig að þakka fyrir mig og mikið er gaman að vera hluti af þessum lifandi heimi á matarvef mbl.is.“