Kleinuarfurinn hennar Ingu Lindar

Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona með kleinuarfinn sinn.
Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona með kleinuarfinn sinn. Samsett mynd

Hver elskar ekki að fá heita nýsteikta kleinur með kaffinu? Kleinur eru langbestar heimagerðar og það er ákveðin áferð og bragð sem gleður bragðlaukana þegar bitið er í heimabakaða kleinu. Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona er mikill matgæðingur og heldur í margar góðar og þjóðlegar matarhefðir sem njóta vinsælda á hennar heimili. Má þar nefna steiktu kleinurnar sem rjúka út.

Steikir kleinur til að endurupplifa þessa tilfinningu

Of fáir núlifandi Íslendingar hafa kynnst því hvernig það er að bíta í aðeins of heita, nýsteikta kleinu. Sjálf tilheyri ég þeim fámenna en lánsama hópi sem lenti í þessu öðru hverju í æsku og í stað þess að láta duga að ylja mér við minningarnar, steiki ég kleinur öðru hverju svo ég megi endurupplifa þessa dásamlegu tilfinningu í alvörunni. Þar að auki þykir mér gaman að dunda við þetta og man enn hvað mér fannst mikil upphefð fólgin í því að fá að vera mömmu til aðstoðar í þessum bakstri. Mitt hlutverk var oftast að snúa upp á deigið þegar búið var að skera það í þar til gerða tígla með gati í miðjunni,“ segir Inga Lind.

Inga Lind með nýsteiktar kleinur sem hún gerir eftir uppskrift …
Inga Lind með nýsteiktar kleinur sem hún gerir eftir uppskrift mömmu sinnar og ömmu. Ljósmynd/Inga Lind

Uppskriftin sem ég nota er að sjálfsögðu sú sem mamma notaði alltaf og auðvitað var það sama uppskriftin og mamma hennar fór alla tíð eftir. Varla þarf að taka fram að uppskriftina kunnu þessar fyrirmyndar húsmæður utan að en mamma hripaði hana þó niður á blað fyrir mig fyrir nokkrum árum svo hún félli örugglega ekki í gleymskunnar dá. 

Kleinujárnið frá ömmu

Inga Lind er ekki bara með upprunalegu uppskriftina heldur líka rétta tækið til að tígla kleinuna með gati í miðjuna. „Kleinujárnið kemur frá ömmu. Það er eldgamalt en hefur aldeilis staðist tímans tönn.“

Inga Lind er ekki bara með upprunalegu uppskriftina heldur líka …
Inga Lind er ekki bara með upprunalegu uppskriftina heldur líka rétta tækið til að tígla kleinuna með gati í miðjuna. Ljósmynd/Inga Lind

Aðspurð segir Inga Lind að fyrirhöfnin  mun minni en flestir halda enda séu kleinur eitt elsta íslenska kaffibrauðið. Hráefnið er ódýrt og eina græjan sem við þurfum er pottur með feiti í. Ég nota Palmín, þrjú stykki í meðalstóran pott.

Inga Lind ljóstrar hér upp fjölskylduleyndarmálinu, kleinuuppskriftinni, sem hefur fylgt kvenleggnum í tugi ára. „Hér er uppskriftin fyrir þá sem ná ekki að stauta sig í gegnum skriftina hennar mömmu,“ segir Inga Lind og brosir.

Kleinurnar hennar ömmu

  • 500 g hveiti
  • 125 g sykur
  • 50 g smjörlíki
  • 1 egg
  • 5 tsk. lyftiduft, sléttfullar
  • 1 tsk. hjartarsalt
  • ¼ l mjólk
  • vanillu- og kardimommudropar (ca. 1 tsk. af hvoru)

Aðferð:

  1. Bland saman þurrefnunum og mylj smjörlíkið út í.
  2. Bætið út í mjólk og eggi.
  3. Gerið þetta í höndunum í góðri skál.
  4. Hnoð (samt ekki of mikið) og fletjið út í um það bil 4-5 mm þykka köku.
  5. ðan eru búnar til kleinur, uppásnúnar og það er gert svona:
  6. Útflatta deigið er skorið í ræmur, síðan í búta á ská og svo skorið gat í miðjuna á hverjum bút. Við viljum ekki hafa bútana stóra. Það er svo klunnalegt. Öðru horninu er svo stungið í gegnum gatið og togað varlega í þannig að það snúist upp á kleinuna.
  7. Steikið síðan kleinurnar í snarpheitri jurtafeiti, bara nokkrar í einu svo það verði ekki of þröngt um þær í pottinum.
  8. Athugið! Feitin er mátulega heit þegar kleinurnar skjótast upp á yfirborðið strax eftir að þær detta ofan í pottinn.
  9. Hafið þær þarna í 2-3 mínútur, ekki lengur, það er gott að snúa þeim einu sinni.
  10. Síðan eru þær teknar upp með gataspaða.
  11. Þeim finnst gott að láta renna af sér á pappír.
  12. Njótið þeirra þegar þær eru nýsteiktar með þeim sem ykkur þykir bestur.
mbl.is
Loka