Súpur eiga vel við í miðri viku, sérstaklega á haustin. Gamla góða blómkálssúpan er ein af þeim súpum sem ávallt njóta vinsælda og minna gjarnan á gamla tímann. Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir matarbloggari sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör deildi með fylgjendum sínum uppskrift af blómkálssúpu úr sinni smiðju sem við á matarvefnum getum vel mælt með. Súpan er góð, einföld og hráefniskostnaðurinn er lítill. Guðrúnu finnst best að mauka hluta af blómkálinu en á sama tíma finnst henni gott að hafa slatta af blómkálsbitum í til að hafa smá bit í henni.
Upplagt er að bera fram með súpunni nýbakaðar brauðbollur, til dæmis brauðbollurnar sem við birtum uppskrift að úr smiðju Hússtjórnarskólans á dögunum.
Blómkálssúpa
Fyrir 4-6
- 1 meðalstór blómkálshaus
- 50 g smjör
- 100 ml hveiti
- 1 l vatn
- 300 ml mjólk
- 250 ml rjómi
- 1 grænmetiskraftur
- 1 kjúklingakraftur
- 1-2 tsk. salt
- 1 tsk. pipar
Aðferð:
- Skerið blómkálið niður í litla bita og setjið í pott ásamt einum lítra af vatni.
- Leyfið suðunni að koma upp og sjóða í u.þ.b. 10 mínútur.
- Takið þá annan pott og stillið á miðlungshita.
- Setjið smjörið út í pottinn og leyfið að bráðna, bætið þá 100 ml af hveiti saman við og hrærið saman í hveitibollu.
- Slökkvið undir blómkálinu og byrjið að bæta vökva í smjörbolluna.
- Þetta á að vera 100 ml í einu (1 dl), hrærið vel saman og bætið alltaf smá og smá vatni við.
- Þegar þið hafið sett 500 ml af vatninu saman við er gott að bæta mjólkinni og rjómanum saman við ásamt kraftinum og salt og pipar.
- Þegar allt er komið í súpuna er gott að taka helming af blómkálinu, setja í súpuna og mauka með töfrasprota.
- Bætið þá hinum helmingnum af blómkálinu saman við og það sem eftir er af vatninu.
- Þá ætti súpan að vera klár.
- Berið fram í fallegum skálum og það er líka gaman að bera súpuna fram í súpukaröflu á gamla mátann og upplifa stemninguna.