Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni. Brynhildur er einnig þekkt sem leikari og leikstjóri en hún fór með hlutverk Edith Piaf, skrifaði og lék einleikinn Brák á Sögulofti Landnámsseturs og lék Njál í Njálu og Davíð Oddsson í Guð blessi Ísland. Hún leikstýrði Ríkharði III og Vanja frænda í Borgarleikhúsinu svo fátt sé nefnt enda einstaklega hæfileikarík og metnaðargjörn með eindæmum. Brynhildur tók við stöðu Borgarleikhússtjóra í febrúar árið 2020 og hefur blómstrað í því starfi og leikhúsið með henni.
Brynhildur er mikill lífskúnstner og kann svo sannarlega að njóta góðs matar og drykkjar og því er einstaklega gaman að fá hana til ljóstra hér upp sínum skemmtilegu matarvenjum og hefðum. „Ég elska að borða góðan mat og alltaf finnst mér gaman að sitja lengi að borðum í góðra vina hópi. Góð máltíð gerir manni svo gott,“ segir Brynhildur og brosir.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég borða alltaf morgunmat, er eiginlega alveg ómöguleg annars. Það gaula svo í mér garnirnar. Ég fæ mér espresso macchiato með haframjólk, úr bestu kaffivélinni, Rocket frá Kaffifélaginu. Hún er bjargvættur heimilisins. Mér finnst gott að fá mér linsoðið egg eða gríska jógúrt með hunangi. Flatkaka er líka klassík, þá með smjöri og kavíar. Bara svona túpukavíar.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Nei, eiginlega aldrei en það er bara vegna anna. Ef ég borða á milli mála maula ég medjul döðlur, kasjúhnetur, maískökur með kasjúhnetusmjöri.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, annars bara gaular. Það er líka gaman að borða og láta hugann reika eða spjalla við vinnufélaga í mötuneyti Borgarleikhússins, hjá Bjössa og Roberto.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ó, þessi ísskápur. Stundum er ekkert til nema bara endalausar krukkur af hinu og þessu. Ætli það sé ekki alltaf til ostur. Einhvers konar ostur. Þetta er mjög aumt.“
Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?
„Haloumi-ostur, maís og grillaður fiskur finnst mér góður.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?
„La Primavera, Hosiló, Sumac. Fer eftir hvaða stuði við erum í. Það er líka mjög gaman að fara á Jómfrúna.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Mér finnst rosalega gaman að fara út að borða og er til í alls konar. Mér finnst „hreinn“ matur alltaf bestur, frönsk brasserie henta mér vel. Er ekki fjúsjón kona, get ekkert djúpsteikt og finnst ís ekki góður. Nema bara Vesturbæjar gamli.“
Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?
„Tvímælalaust Molé negro í Mexíkó, ostrur og kampavín í New York, kálfalifur og kartöflumús í París, ostar í Bretagne og saltfiskrétturinn hans Baldurs Trausta, kollega míns og vinar í Hlíðunum.“
Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
„Allt sem er með of miklum rauðlauk, balsam sírópi eða trufflu einhverju finnst mér alveg agalegt.“
Uppáhaldskokkurinn þinn?
„Mamma mín.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ég elska gott kampavín.“
Ertu góður kokkur?
„Ah, ég verð að segja nei. Ég var mjög góður kokkur. Þegar ég var yngri. Svo festist ég í öðru. Kannski á ég afturkvæmt.“