Eldabuskan með tilbúnar máltíðir heim að dyrum

Guðmundur Óli Sigurjónsson og Elín Bjarnadóttir eru eigendur Eldabuskunnar.
Guðmundur Óli Sigurjónsson og Elín Bjarnadóttir eru eigendur Eldabuskunnar. Ljósmynd/Eldabuskan

Eldabuskan er nýtt fyrirtæki sem framleiðir fjölbreytt úrval tilbúinna rétta sem viðskiptavinirnir panta á netinu og fá síðan afhenta heim að dyrum. Um er að ræða matarpakka sem geta innihaldið frá tveimur upp í fimm foreldaðar máltíðir, þannig að fólk þarf einungis að hita réttina í ofni í um það bil 25 mínútur til töfra fram ljúffengan kvöldmat.

Nýir og spennandi réttir í hverri viku

Eigendur Eldabuskunnar eru þau Guðmundur Óli Sigurjónsson og Elín Bjarnadóttir og hjá fyrirtækinu starfa níu manns, allt saman metnaðarfullt fjölskyldufólk sem elskar að elda. „Við ætlum okkur að bjóða upp á fjölbreytni í matargerðinni og munum kappkosta að koma fólki sífellt á óvart með nýjum og spennandi réttum í hverri viku,“ segir Guðmundur Óli. 

Einfalda fjölskyldum lífið og auka samverustundir

„Tildrögin að stofnun fyrirtækisins voru einfaldlega þau að við vildum búa til meiri tíma með fjölskyldunni okkar en á sama tíma að tryggja góða næringu. Við könnumst öll við að eiga stundum erfitt með að ákveða hvað á að vera í kvöldmatinn og mörg okkar festast í því fari að elda það sama, aftur og aftur. Við sáum gat á markaðnum því þeir matarpakkar sem hafa staðið fólki til boða eiga það sammerkt að útheimta bæði tíma og fyrirhöfn í eldun,“ segir Guðmundur Óli eldabuska og bætir við: „Eldabuskan vill einfalda fjölskyldum lífið og í stað þess að fólk eyði dýrmætum tíma sínum í innkaup og eldamennsku er hægt að verja meiri tíma í samveru hvert með öðru og treysta þannig fjölskylduböndin.“

Nafnið gamalgróið

Eldabuskan hefur þegar tekið til starfa og eins og sjá má á heimasíðu fyrirtækisins eru nú í boði 9 réttir úr gæðahráefni og stefnt er að því að bæta við réttum í hverri viku á næstunni. Panta þarf matarpakkana á Eldabuskan.is með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara og búið er að opna fyrir dreifingu þeirra um land allt. „Við erum að bjóða upp á mjög spennandi nýjung sem hefur fengið afar góðar viðtökur því þetta er einföld og gómsæt lausn á kvöldmatnum fyrir fjölskyldufólk. Nafn fyrirtækisins er gamalgróið og gott starfsheiti manneskju sem fæst við matargerð og við titlum okkur öll eldabuskur,“ segir Guðmundur Óli að lokum.

mbl.is