Súkkulaðibitakökur og vegan epla-muffins að hætti landsliðsbakarans

Matthías Jóhannesson bakari segir að fátt veiti sér meiri hamingju …
Matthías Jóhannesson bakari segir að fátt veiti sér meiri hamingju en að gleðja aðra og ein leiðin til þess er að baka ljúffengt bakkelsi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matthías Jóhannesson er ástríðufullur bakari sem elskar að gleðja aðra með nýbökuðu bakkelsi og kræsingum. Hann er meðlimur í íslenska bakaralandsliðinu og starfar í bakaríinu Passion Reykjavík. Hann hefur verið í landsliðinu í rúmlega eitt ár en landslið íslenskra bakara gerði sér lítið fyrir og hreppti 2. sætið á Norðurlandameistaramóti bakara, Nordic Cup, núna í september og er það besti árangur sem náðst hefur frá upphafi.

Mamma og ömmur mínar kenndu mér fyrstu uppskriftirnar

Matthías útskrifaðist sem bakari í maí síðastliðnum og hefur unnið í bakaríi í tæplega fjögur ár. „Ástríða mín fyrir bakstri kviknaði mjög snemma. Bakstur hefur fylgt mér alveg frá því ég man eftir mér og fyrir það er ég mjög þakklátur. Ég er jú svo heppinn að hafa alltaf verið umkringdur glæsilegum bökurum, sem eru mamma og ömmur mínar. Þetta eru konurnar sem kenndu mér fyrstu uppskriftirnar og veittu mér fyrstu minningarnar af því að baka, ekki endilega alltaf eitthvað flókið, en alltaf gott.“

Fátt sem veitir meiri hamingju en að gleðja aðra

„Ég ákvað ekki að verða bakari til þess að eignast fullt af peningum eða verða besti bakari í heimi. Ástæðan er í raun frekar einföld, ég ákvað að verða bakari til þess að gleðja fólk. Það hefur verið markmiðið frá því að ég byrjaði fyrst að baka, að gleðja sem flesta með góðu bakkelsi, það er fátt sem veitir mér meiri hamingju en að fá að gleðja aðra.“ Matthías blómstrar í starfi sínu sem bakari og unir sér vel.

„Ég hef núna unnið í bakaríi í tæplega fjögur ár og mér finnst það frábært. Það er ekki alltaf auðvelt, þetta er oft mikil erfiðisvinna sem reynir bæði á líkamann og hugann, en það er hluti af því sem mér finnst gaman við þetta. Þetta er líka ekki bara vinnan mín, þetta er mitt helsta áhugamál og ástríða.“

Mikill heiður að keppa fyrir hönd þjóðarinnar

„Að vera í landsliði bakara er alls ekki eitthvað sem ég var búinn að sjá fyrir mér þegar ég byrjaði að læra að verða bakari. Það var mjög óvænt þegar mér var boðið að taka þátt en það var í fyrra þegar ég tók þátt í heimsmeistarakeppni ungbakara með Finni félaga mínum, sem var reynsla sem við lærðum helling af. Annars er það mikill heiður að fá að taka þátt í svona verkefnum fyrir hönd þjóðarinnar og fagsins. Næsta verkefni landsliðsins er að taka þátt í keppni á bakarasýningunni IBA í Þýskalandi í október,“ segir Matthías fullur tilhlökkunar.

Ómótstæðilegar súkkulaðibitakökurnar að sjá og Matthías segir að þær séu …
Ómótstæðilegar súkkulaðibitakökurnar að sjá og Matthías segir að þær séu bestar ylvolgar með glasi af ískaldri mjólk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ómótstæðilegar súkkulaðibitakökur með köldu mjólkurglasi

Matthías deilir hér tveimur uppskriftum fyrir helgarbaksturinn sem eiga eftir að slá í gegn, annars vegar að lúxus súkkulaðibitakökum og hins vegar vegan eplaköku-muffins. „Eitt af því fyrsta sem ég lærði að baka þegar ég var yngri voru súkkulaðismákökur. Í gegnum tíðina hef ég prófað alls konar smákökuuppskriftir, ég þróaði þessa hægt og rólega og hún er núna ein af mínum uppáhalds. Það er nokkurt flækjustig á þessari uppskrift en það borgar sig allt, þessar súkkulaðibitakökur eru algjörlega ómótstæðilegar volgar úr ofninum með köldu mjólkurglasi.“

Upplagt að baka þessar fyrir helgarbaksturinn.
Upplagt að baka þessar fyrir helgarbaksturinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matthías segir að markmið hans sem bakara sé að gleðja sem flesta með bakkelsi. „Þess vegna byrjaði ég að þróa vegan bakkelsi. Ég byrjaði að búa til vegan pop-up í Passion Reykjavík í fyrra og fékk gríðarlega góðar móttökur frá vegan-samfélaginu á Íslandi sem var mjög góð hvatning til að halda því áfram. Þessi uppskrift að vegan epla-muffins er fullkomin fyrir komandi haust og vetur, mjúk og ilmandi muffins með eplum og kanil.“

Vegan eplamuffsins-kökurnar hans Matthíasar hafa notið mikilla vinsælda enda fallegar …
Vegan eplamuffsins-kökurnar hans Matthíasar hafa notið mikilla vinsælda enda fallegar og gómsætar. Eggert Jóhannesson

Lúxus súkkulaðibitakökur með brúnuðu smjöri, karamellu og sjávarsalti

  • 230 g saltað smjör
  • 250 g hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 215 g púðursykur
  • 75 g sykur
  • 2 stór egg
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 200 g 56% súkkulaði
  • 120 g karamellukurl (sjá uppskrift)

Aðferð:

Bræðið smjör í potti yfir vægum hita og hrærið stöðugt í þar til það verður karamellubrúnt á lit, hellið í hitaþolna skál eða hrærivélarskál og látið kólna.

Á meðan smjörið kólnar blandið þið saman hveiti og matarsóda í skál, vigtið púðursykur og sykur, brjótið eggin og saxið súkkulaði og brjótið/saxið karamelluna.

Þegar smjörið hefur kólnað, skálin er volg viðkomu, hrærið þið sykrinum saman við þar til allt blandast vel.

Þar á eftir fara eggin og vanilludroparnir saman við og þetta er þeytt með spaða í hrærivél eða handþeytara þar til það er létt og ljóst.

Hrærið þurrefnunum varlega saman við og hrærið svo súkkulaðinu og karamellukurlinu saman við með sleif. Látið standa í 30 mínútur.

Mótið í matskeið kúlur og setjið á plötu og dreifið smá af sjávarsaltsflögum yfir hverja kúlu, ekki of mikið samt. Bakið við 190°C hita í 6-7 mínútur.

Karamellukurl

  • 65 g sykur
  • 65 g saltað smjör
  • 1 væn klípa salt

Aðferð:

  1. Setjið sykur, smjör og salt saman í pott og hitið yfir vægum hita. Hrærið stöðugt þar til smjörið bráðnar. Látið þetta svo malla þar til karamellan nær 135°-140°C.
  2. Hellið karamellunni á bökunarplötu með pappír og leyfið henni að kólna. Forðist að hræra mikið í karamellunni á meðan hún mallar því þá getur hún skilið sig.

Vegan eplaköku-muffins

  • 85 g olía
  • 165 g jurtamjólk, Matthías notar haframjólk
  • 1 msk. eplaedik
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 100 g púðursykur
  • 195 g hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1/3 tsk. salt
  • ½ tsk. kanill
  • 1 lítið grænt epli í litlum bitum
  • hafra-strausel (sjá uppskrift)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C og gerið muffins-formin klár.
  2. Blandið þurrefnunum vel saman í skál og setjið til hliðar.
  3. Blandið blautefnunum vel saman við þurrefnin. Blandið eplabitunum saman við og skiptið deiginu niður í muffins-formin.
  4. Þegar búið er að skipta deiginu niður í formin er strauselið mulið yfir og svo bakað í um það bil 20 mínútur eða þar til toppurinn er gullinbrúnn og ef prjón er stungið í kökuna kemur hann hreinn út.

Hafra-strausel

  • 40 g hafrar
  • 35 g smjörlíki (brætt)
  • 20 g hveiti
  • 30 g sykur

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum, bræðið smjörlíkið og hrærið allt saman þar til það verður að kögglum.
  2. Það getur verið gott að kæla strauselið fyrir notkun.
Augnakonfekt að sjá þessa dýrð.
Augnakonfekt að sjá þessa dýrð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: