Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona á K100 giftist ástinni sinni, Stefáni Jakobsson tónlistarmanni, alla jafna kallaður Stebbi Jak, síðustu helgi eins og frægt er orðið. Brúðkaupið fór fram í Mývatnssveit, þar sem Stefán er búsettur og Bergsveinn Arilíusson, Beggi í Sóldögg, gaf hjónin saman.
Veislan var hin glæsilegasta og mikið lagt upp úr matnum enda er matur mannsins megin. Kristín Sif og Stebbi lögðu mikinn metnað í matinn og vildu hafa kræsingarnar í þeirra anda. „Það skipti mjög miklu máli, bæði fyrir stemninguna sjálfa, að allir væru saddir og sælir. Það skipti okkur miklu máli að allir gætu fundið sér eitthvað við sitt hæfi,“ segir Kristín Sif.
Þegar kom að því að velja matinn fyrir veisluna ykkar hvað varð fyrir valinu?
„Það var svo einfalt að velja matinn, smáréttir frá Matarkompaníinu urðu fyrir valinu. Við höfum fengið Matarkompaníið til að sjá um matinn bæði fyrir góðan heimabröns og síðan afmælispartíið mitt í fyrra. Maturinn sló í gegn svo það kom ekkert annað til greina en að heyra í þeim og fá þau til að sjá um matinn í brúðkaupinu okkar. Við vorum bæði mjög sátt við hugmyndina um það að vera með smárétti enda úrvalið og gæðin alveg geggjuð hjá þeim.
Við bættum síðan við súpu, brauði og þeyttu smjöri og eftirréttirnir voru hluti af smáréttahlaðborðinu og bornir fram um leið og allt hitt. Við kusum að hafa smárétti til þess að stýra flæðinu í veislunni betur,“ segir Kristín Sif.
Fjölbreytnin var í fyrirrúmi á veisluborðinu. „Það var boðið upp á allskonar gott og úrvalið var meiriháttar. Það fundu allir eitthvað við sitt hæfi og þarfir. Allt frá flottum „pulled pork“ borgurum og í oumph tacos. Til að mynda var heimagrafið lamb með bláberjum og bláberja púrtvínssósu, kryddmaríneruð og þunnt skorin nautalund ásamt parmesanosti og truffluolíu, steiktir blómkálsvængir með sterkri og hvítlaukssósu, mini rækjutaco með sætri limesósu, sýrðum lauk, sirichasósu og salati, laxa ceviche með mangósalsa og fersku kóríander svo fátt eitt sé nefnt.“ Þegar koma að því að velja eftirrétt ákváðu Kristín Sif og Stebbi að vera flóru af smábitum og kræsingum þannig að allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi. „Það sem heillaði okkur mest var úrvalið og gæði eftirréttanna. Allir gátu fundið sér eitthvað við sitt hæfi eftir smekk og ástríðu. Eftirréttirnir voru á sama hlaðborði og aðrir réttir sem gerði það að verkum að gestirnir gátu raðað á sinn disk eftir hentugleika. Í boði var til að mynda brownies, makkarónur, skyrostakökur, hvítsúkkulaðimús ásamt tví súkkulaði hjúpuðum jarðarberjum með bökuðu hvítsúkkulaði og meira til.“
„Þetta var virkilega skemmtilegt verkefni að fá að koma alla leið í Mývatnssveit og fá að sjá um brúðkaupið. Við erum með landslið af flottu fólki og það var mikil spenna í kringum þetta brúðkaup, innandyra hérna hjá okkur. Við skemmtum okkur konunglega,“ segir Guðmundur Óli Sigurjónsson hjá Matarkompaníinu.
Kristín Sif og Stebbi létu ekki duga að vera með hlaðborðið með þessum dýrindis kræsingum og toppuðu sig með sælgæti og poppi. „Við vorum með poppvél sem var algjör hittari og ómótstæðilegan nammibar frá Nóa Sírius, sem var fullur af sælgæti og gotteríið kláraðist allt upp til agna. Seinna um kvöldið var boðið upp á grillaðar samlokur með skinku og osti og pringles með. Það kom á mjög góðum tíma þar sem fólk var komið í djamm gírinn og vildi eitthvað heiðarlegt og gott til að geta haldið áfram að dansa fram á nótt.“
Þegar kom að því að velja drykki var hugsunin fyrst og fremst að para drykkina við matinn. „Við fengum góðar leiðbeiningar við val á vínunum í veislunni, við buðum upp á Prosecco rose í fordrykk og einnig óáfengan kost en það var Kylie Minouge non alcohol sparkling rose. Okkur fannst smart að hafa áfenga- og óáfenga drykkinn svipuðum í lit og útliti svo allir væru með. Vínin sem við buðum upp á eru mjög fín veisluvín og henta vel fyrir fjöldann sem var í veislunni en við vorum með Faustino VII rautt og hvítt.
„Við vorum líka með tvist á Moscow mule sem við nefndum Mývatnssveitar mule. Eins og hefðbundinn mule en í staðinn fyrir angostura bitter þá skiptum við því út fyrir krækiberjalíkjör frá 64°Reykjavik distillery. Þetta gerði mule-inn bæði haustlegan og í takt við sveitastemninguna sem ríkti í veislunni hjá okkur. Gaman er líka að segja frá því að Álfur sérbruggaði lagerbjór fyrir okkur og síðan var kaffi frá Kaffitár í boði fyrir veislugesti allan tímann.“
Aðspurð segir Kristín að þemað hjá þeim hafi í raun ekki verið eitthvað eitt heldur sambland af þeirra persónuleika og auðvitað hvar við vorum staðsett með veisluna okkar. Okkar draumur var að gestirnir okkar upplifðu afslappaða en skemmtilega partí stemningu. Við blönduðum svo saman sveita-, hnefaleika- og tónlistarþema í skreytingunum og drykkjum, meira að segja í dansinn okkar,“ segir Kristín Sif og hlær.
„Við fengum æðislega góða hjálp frá Láru og hennar fólki hjá Skreytingaþjónustunni sem voru með okkur frá byrjun að preppa og ákveða hvað hentaði út frá þeirri sýn sem við Stebbi höfðum. Við fengum löbera á borðin sem eru eins og strá frá Partýbúðinni, einnig servíettur, rör og myndakassa. Puha design sá um ofursvalar borðamerkingar en við vorum með plötur frá árunum sem við erum fædd til að merkja borðin og svo voru sætamerkingar vínyl plötur með nafni hvers gests fyrir sig. Guðný og Róbert hjá Puha gerðu líka æðislega flott plakat með nöfnunum okkar og allskonar skemmtilegum upplýsingum um árið sem við fæddumst en við stilltum þessu upp hjá gestabókinni sem var óhefðbundinn líka. Það var alveg sama hvaða hugmyndir við komum með þá var svarið frá Láru hjá Skreytingaþjónustunni og Guðný og Róbert hjá Puha, þau bara græjuðu þetta.“
Flora & co gerði magnaða skreytingu fyrir myndakassann. Bakgrunnurinn voru gamlar pallettur sem við máluðum rustik brúnar og skelltum fallegri blómaskreytingu á þann bakgrunn og það kom mjög vel út. Flora & co græjaði líka stórar og flottar bóndarósir sem Lára og Hafdís frá Skreytingaþjónustunni komu fyrir á fallegum stöðum hér og þar í veislunni. Lára og Hafdís flugu frá Reykjavík og komu í sveitina til að skreyta salinn og hann var hreinlega geggjaður þegar þær voru búnar með sitt. Við notuðum lyng, birki og ýmiskonar fallegt úr náttúrunni í Mývatnssveit. Salurinn var einstaklega fallegur þegar þær voru búnar. Við mælum svo sannarlega með Skreytingaþjónustunni.“
Á meðan brúðhjónin fórum í myndatöku eftir að hafa verið gefin saman mættu gestir í veislusalinn þar sem smáréttahlaðborðið ásamt drykkjum var klárt. Veislustjórar buðu gesti velkomna og buðu gestum að fá sér að borða. „Að myndatöku lokinni mættum við hjónin í salinn og sameinuðumst veislugestum. Fólk var á einu máli um að það væri alger negla að þurfa ekki að bíða eftir að brúðhjónin mæta til að geta fengið sér að borða.“