Þessi syndsamlega ljúffenga skúffukaka bráðnar í munni. Þetta er skúffukakan, betri en nokkur önnur. Helena Gunnarsdóttir matarbloggari sem heldur úti uppskriftasíðunni Eldhúsperlur fullkomnaði þessa ljúffengu skúffuköku á dögunum. „Ég held að hér sé komin líklega sú besta skúffukaka sem ég hef smakkað hingað til,“ segir Helena og bætir við að kaffijógúrtið geri hana dúnmjúka og ýti enn frekar undir djúpt súkkulaðibragðið. Kremið er eins og silki og bráðnar í munni. Þessa verður þú að prófa.
Skúffukakan
- 5 dl hveiti
- 4 dl sykur
- 2 dl kakó
- ½ tsk. salt
- 2 tsk. matarsódi
- 1 dl olía
- 2 dósir Óskajógúrt með kaffibragði
- 2 egg
- 2 tsk. vanilluextrakt
- 150 g smjör, brætt
- 2 dl heitt vatn
Aðferð:
- Hitið ofn í 170°C hita með blæstri.
- Hrærið öllum þurrefnum saman í skál.
- Pískið saman olíu, eggjum, jógúrti og vanillu og hellið út í deigið.
- Bætið að lokum heitu vatni og bræddu smjöri saman við og blandið vel saman.
- Hellið í skúffukökuform og bakið í um það bil 30 mínútur eða þar til þetta er bakað í gegn.
Krem
- 200 g smjör við stofuhita
- 3 dl flórsykur
- 1 tsk. vanilluextrakt
- 4 msk. rjómi
- 200 g dökkt súkkulaði
Aðferð:
- Þeytið smjörið, flórsykurinn og vanillu mjög vel saman þar til þetta er létt og ljóst.
- Bætið rjómanum saman við og þeytið áfram.
- Bræðið súkkulaðið og hellið því volgu (alls ekki alveg kældu) saman við kremið og þeytið vel áfram.
- Smyrjið kreminu yfir kælda kökuna.
- Berið fram og njótið með því sem ykkur finnst best, til dæmis ískaldri mjólk.