Stökkt og gott djúpsteikt blómkál

Stökkt og bragðgott blómkál borið fram með chilli majó.
Stökkt og bragðgott blómkál borið fram með chilli majó. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Á mörgum veitingastöðum er hægt að fá djúpsteikt blómkál sem bragðast alveg dásamlega vel og ljúft er að njóta með góðri sósu. Það er miklu einfaldara að djúpsteikja blómkál heldur en marga grunar og það komst Berglind Hreiðars, matar- og lífsstílsbloggari hjá Gotterí og gersemar, að á dögunum þegar hún prófaði sig áfram í djúpsteikningunni. Þessi uppskrift kemur úr hennar smiðju og blómkálið er ótrúlega gott, stökkt og bragðgott. Berglind bar blómkálið fram með chilli majó sem passar mjög vel með þessum rétti. 

Djúpsteikt blómkál

 • 1 stk. blómkálshaus (meðalstór)
 • 180 g hveiti
 • 30 g kartöflumjöl
 • 300 ml vatn
 • 4 msk. Caj P grillolía með hvítlauk
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. salt
 • Um 600 ml matarolía til steikingar (canola eða grænmetis)

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hluta blómkálið niður í munnstóra bita.
 2. Pískið síðan öllu öðru (nema steikingarolíunni) saman í skál og veltið blómkálsbitunum vel upp úr blöndunni.
 3. Hitið olíuna í djúpum potti þar til hún nær um 180°C hita og steikið blómkálsbitana í nokkrum skömmtum.
 4.  Setjið eins marga í pottinn og þið getið hverju sinni en best er að nota töng og setja einn í einu (svo þeir festist ekki saman) og hafa smá rými í pottinum til að þeir steikist fallega.
 5. Snúið reglulega og steikið hvern skammt í um 3-4 mínútur eða þar til bitarnir eru gullinbrúnir.
 6. Leggið bitana á pappír til að fitan leki af þeim og þeir haldist stökkir og njótið síðan með chilli majó (sjá uppskrift hér að neðan).

Chilli majó

 • 120 g majónes
 • 2 rifin hvítlauksrif
 • 1 msk. sítrónusafi
 • 1 msk. ólífuolía
 • 1 msk. sriracha sósa
 • ½ tsk. paprikuduft
 • ½ tsk. salt

Aðferð:

 1. Pískið öllum hráefnum saman og geymið í kæli fram að notkun.
mbl.is