Ísland bjargaði lífi mínu

Maria Jimenez Pacifico er manneskja bak við Mijita sem framleiðir …
Maria Jimenez Pacifico er manneskja bak við Mijita sem framleiðir kólumbískan handgerðan mat. Ljósmynd/Kári Sverrris

Frumkvöðlafyrirtækið Mijita ehf. fékk styrk frá Uppsprettunni árið 2022 og nú eru vörur Mijita mættar í verslanir Hagkaups. Manneskjan bak við fyrirtækið og vörurnar er Maria Jimenez Pacifico en hún er bæði stofnandi og framkvæmdastjóri Mijita. Hér er um að ræða fyrstu kólumbísku matvælaframleiðsluna á Íslandi og má með sanni segja á Maria sé frumkvöðull á sínu.

Flutti til Íslands 14 ára

Maria fæddist í Kólumbíu og flutti til Íslands einungis 14 ára gömul þar sem stjúppabbi hennar er Íslendingur. „Það sem mér er svo minnisstætt og þykir svo vænt um þegar ég flutti hingað til lands, er það að um leið og ég labbaði út úr flugvélinni eignaðist ég strax íslenska fjölskyldu sem beið eftir mér og bróður mínum og tók okkur með opnum örmum,“ segir Maria og bætir við að fyrir það verði hún ávallt þakklát. 

Maria er einnig útskrifuð leikkona og kvikmyndagerðarkona og hefur unnið síðustu tvo áratugi á alþjóðavettvangi bæði sem fyrirsæta og aktivisti fyrir fjölbreytileika í samfélaginu.

„Ég var brautryðjandi sem „plus size“ fyrirsæta í Kólumbíu þar sem ég opnaði markaðinn fyrir jákvæða líkamsvirðingu,“ segir Maria og hefur ávallt verið ófeimin við að koma til dyranna eins og hún er klædd.

Ætlaði að svipta mig lífi 8 ára gömul

Segðu okkur aðeins frá tilurð þess að þú stofnaðir fyrirtækið/matarvagninn Mijita.

„Mijita er gjöf mín til Íslands fyrir allt það frábæra sem þetta fallega land og samfélag hafa gefið mér. Það má segja að Ísland hafi bjargað lífinu mínu þegar ég flutti hingað, þar sem ég ætlaði að svipta mig lífi 8 ára gömul vegna mjög alvarlegs eineltis sem ég lenti í skólanum í Kólumbíu,“ segir Maria sem fann tilgang að halda lífinu áfram eftir að hún kom til Íslands.

„Eftir að hafa búið í Amsterdam í nokkur ár og í gegnum Covid árin, hafði ég lengi verið að hugsa um að geta kynnt Íslendingum fyrir kólumbískri menningu og matargerð. Ég stofnaði því Mijita veturinn 2021 til að byggja menningarbrú milli Íslands og Suður-Ameríku, þar sem að mér fannst vanta meiri fjölbreytni í íslensku matarflóruna. Ég vissi þá strax að mig langaði að kynna Íslendingum fyrir dæmigerðum kólumbískum mat. Má þar nefna Arepa, sem er vegan og glútenfrí maískaka sem frumbyggjar Kólumbíu byrjuðu að elda og er borðuð í flest mál í Suður-Ameríku. Fyrsta markmið og skref Mijita var að framleiða hér á Íslandi hágæða handgerðan kólumbískan mat. Tilgangurinn var líka lágmarka kolefnisspor okkar. Það var því lán að við Eva Michelsen hjá Eldstæðinu hittumst og fundum samleið í deilieldhúsinu hennar fyrir frumkvöðla, en án hennar hefði ferlið orðið töluvert lengra og erfiðara. Þegar við byrjuðum að kynna arepurnar vorum við að bjóða upp á kólumbískt meðlæti og það vakti svo mikla lukku að við vorum fljót að fatta að þarna var komið kjörið tækifæri í að geta kynnt Íslendingum fyrir kólumbískri matarupplifun, ekki bara einstaka vöru.“

Mijita þýðir „litla dóttir mín“

Hvaðan kemur nafnið á fyrirtækinu þínu, á nafnið sér sögu?

Mijita þýðir á spænsku „litla dóttir mín“ og það var síðasta setningin sem kólumbíski pabbi minn sagði við mig áður en hann lést á sjúkrahúsi. Fyrirtækið hefur skýrt hlutverk og ábyrgð gagnvart umhverfinu og þeim samfélögum sem við störfum í. Þess vegna leggjum við mikla og ofur áherslu á að vera sem mest sjálfbær í öllum framleiðsluþáttum okkar og í okkar rekstri. Við viljum veita fólki hamingju með mat og viljum gera það á sjálfbæran hátt til að stuðla að því að það skapist meiri meðvitund um umhverfið og fjölbreytta menningar- og matarheima. Mijita styður mikilvæg málefni gegnum starf sitt og er hluti af veltunni eyrnamerktur góðum málstað. Við höfum sett á laggirnar grunnskólaverkefni  í heimabæ mínum í Kólumbíu með það að markmiði að kenna börnunum að vernda umhverfið með því að flokka rusl, að endurvinna plast og nota efni sem hægt er að endurvinna. Við erum líka að þróa þróunarverkefni í litlu fljótandi veiðiþorpi í Kambódíu þar sem íbúarnir búa bókstaflega á stöðuvatni sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum af hlýnun jarðar og breytingum á þurr- og regntímabilum.

Matarbíllinn frumsýndur á þjóðhátíðardegi Íslendinga

Hvað er langt síðan að þú byrjaðir með matarvagninn?

„Sumarið 2022 ákvað ég að taka þátt í nokkrum viðburðum á vegum Götubitahátíðarinnar í Reykjavík, þar sem við vorum að elda og selja matinn okkar út úr litlutimburhúsi. Viðtökurnar voru magnaðar og í lok sumarsins kom ekki annað til greina en að finna góðan og áberandi bíl til að geta eldað kólumbískan mat hvar sem við hvert tækifæri. Veturinn 2022 fann ég draumabílinn sem ég lét gera upp og merkja vel, og var þá matarbíll Mijita frumsýndur á þjóðhátíðardegi Íslands, 17. júní, sem skipti miklu máli fyrir mig,“ segir Maria stolt.

Hvaðan kemur innblásturinn við gerð matarins?

„Innblásturinn eru minningarnar mínar, Mijita er bragðtúlkun fyrir mínar æskuminningar. Ég man að þegar ég var lítil stelpa í Kólumbíu, amma og mamma mín handgerðu alltaf Arepas, maískökur,  í morgunmat, sem ég elskaði mikið. Síðan flutti ég til Íslands og gat ekki fundið né borðað Arepa og það bjó til mikla matarnostalgíu hjá mér í mörg ár, þar sem ég er mjög „epicurean“ og elska að borða góðan mat. Ég hef meira segja farið í sérstaka ferð til Kólumbíu aðeins til að geta borðað minn þjóðarmat. Í síðustu ferð minni til Kólumbíu árið 2017 var ég í Bogota og sá hvernig þessar klassísku Arepur, sem í mörg ár voru einungis handgerðar af kólumbískum ömmu voru fáanlegar í súpermörkuðum. Ég varð rosa hissa þar sem það fer gríðarlega mikil vinna í að búa til Arepur með höndunum. Ég gleymdi þessu ekki og var farin að óska þess að ég gæti labbað í matvöruverslun hér heima og fundið Arepur. Svo ég ákvað að ganga sjálf í málið,“ segir Maria og það gerði það svo sannarlega.

Glútenfrí kólumbísk matarlína

Hvers konar matur er í boðið hjá Mijita?

„Mijita býður upp á glútenfría kólumbíska matarlínu, allur maturinn er handgerður og byggður á dæmigerðum fjölskylduuppskriftum frá frumbyggjum Kólumbíu og sérstaklega uppskriftum sem amma mín eldaði upp úr þegar ég var krakki. Það sem einkennir Mijita er Arepa, sem er kólumbísk maísflatbaka og því glútenfrí, laktósafrí, sykurlaus, án aukaefna og mjög næringarrík. Við bjóðum upp á 3 tegundir að Arepuna og allar eru þær handgerðar og eru ferskar glútenfríar og næringarríkar:

  • AREPA BLANCA: Klassísk, hvít arepa án fræja, en þetta eru maískökurnar sem fólk í Kólumbíu borðar oft á dag.
  • AREPA PLATEÑA: Maísbaka með hörfræjum og hempfræjum. Nafnið kemur frá Plato Magdalena, sem er þorpið í Kólumbíu þar sem ég ólst upp.
  • AREPA COSTEÑA: Maísbaka með kínóa og chiafræjum . Nafnið vitnar í karabísku ströndina, Costa Caribe, sem er héraðið þar sem ég bjó. 
Þrjár tegundir eru til af maískökum en þær eru borðaðar …
Þrjár tegundir eru til af maískökum en þær eru borðaðar mörgum sinnum á dag í Suður-Ameríku. Þetta eru hinar klassísku án allra fræja, glútenlausar og laktósafríar. Ljósmynd/Kári Sverrris
Einnig er maísbaka með hörfræjum og hempfræjum og maísbaka með …
Einnig er maísbaka með hörfræjum og hempfræjum og maísbaka með kínóa og chiafræjum. Ljósmynd/Kári Sverris

„Arepa er borðuð með meðlætinu okkar, sem er annars vegar EL CERDITO“, 14 klukkustunda hægeldað svínakjöt, að kólumbískum sið, ógleymanlega bragðmikill réttur sem amma mín eldaði alltaf. Auðvitað glútenfrí og laktósafrí. Hins vegar „LA VEGETARIANA“, sem er vegan grillað suðrænt grænmetissalat. Þetta salat hlaut fyrstu verðlaun sem Besti vegan Götubiti Íslands síðastliðið sumar,“ segir Maria.

Arepa með suðrænu salati að kólumbískum sið.
Arepa með suðrænu salati að kólumbískum sið. Ljósmynd/Kári Sverris
Arepa með suðrænu grilluðu grænmeti og þessi biti hlaut fyrstu …
Arepa með suðrænu grilluðu grænmeti og þessi biti hlaut fyrstu verðlaun sem Besti vegan Götubiti Íslands síðastliðið sumar. Ljósmynd/Kári Sverris

„Úr matarbílnum okkar seljum við líka „EMPANADAS, “sem eru glútenfríir steiktir hálfmánar fylltir með bragðmiklu latínó hakki en þeir hafa notið mikilla vinsældar og við hlökkum til að geta komið þá í matvöruverslanir.  Í einni setningu er hægt að segja að Mijita bjóði upp á bragðmiklan og heilbrigðan Suður-Amerískan frumbyggjamat.“ 

Lifandi, fersk og bragðmikil

Hvernig er að tengja saman tvo ólíka matarmenningarheima eins og Kólumbíu og Ísland?

„Matarmenningin á Íslandi er byggð á því góða hráefni sem er hér er að finna. Með því að koma með mat frá Kólumbíu erum við að fara aðra leið til að sameina bragð og hráefni með stórkostlegri útkomu. Kólumbísk matargerð er mjög lifandi, fersk og bragðmikil, matarupplifunin sem á að veita gleði og hamingju. Ég vil koma þessari hamingju á borð íslenska neytandans sem vill borða nýjan, hollan og skemmtilegan mat. Íslenski neytandinn er mjög opinn og tilbúinn að prófa nýja hluti í eldhúsinu svo við erum afskaplega ánægð að sjá hversu fljótir viðskiptavinir okkar eru að byrja að elska kólumbískan mat.“ 

Hvernig myndir þú lýsa matarmenningunni í þínu heimalandi?

„Hún er mjög fjölbreytt og rík, maturinn og hráefnin breytast eftir héröðum. Í Kólumbíu er líflegur landbúnaður og því er hægt að finna mikið magn af fersku grænmeti, ávöxtum, rótargrænmeti svo fátt sé nefnt. Fjölbreytt loftslag, góð skilyrði og umhverfi  hjálpar og styður við allskonar landbúnað og því er ræktunin svona blómleg. Allur matur er áberandi bragðmikill og í matargerð er fólk ófeimið við að nota þær kryddjurtir sem hægt er að finna. Síðan má ekki gleyma að besta kaffið í heimi er ræktað og framleitt í Kólumbíu.“ 

El Cerdito og empanadas fljúga út

Hvaða réttur er vinsælastur hjá ykkur?

„Það er allt vinsælt sem við seljum úr matarbílnum okkar og það er undantekning ef maturinn okkar selst ekki upp, en við eldum og afgreiðum á hverjum degi sem vagninn okkar er í umferð nokkur hundruð kíló af mat, og það klárast yfirleitt á nokkrum klukkustundum sem segir okkur skýrt að Íslendingar elska kólumbískan mat. Vinsælustu réttirnir sem seljast ávallt fyrst upp eru El Cerdito, arepa með hægelduðu svínakjöti, og empanadas, þessir tvær réttur fljúga gjörsamlega út,“ segir Maria og hlær.

Hvernig myndir þú lýsa matarstílnum þínum, hvernig hann hefur þróast?

„Ég hef ávallt eldað kólumbískan mat og leitast eftir að rifja upp bernsku minningarnar gegnum bragðlaukana. En ég er einnig óhrædd að prófa nýja hluti svo matarstíllinn minn er í dag mjög exótískur, fjölbreyttur og einstakur. Ég ferðast víða um heiminn og nýt þess virkilega að upplifa menningarheimi gegnum matinn, reyni alltaf að borða alla týpísku þjóðarrétti í hverju landi og fer oft í matreiðslutíma þar sem ég get lært hvernig önnur samfélög útvega, útbúa og elda hráefni sem að fást ekki á Íslandi. Ég reyni svo að túlka þær aðferðir og brögð  yfir í matinn sem ég elda og borða daglega þegar ég er á Íslandi.“

Ævinleg þakklát fyrir stuðninginn

Hvað kom til að þú fórst í vöruþróun og í samstarf við Haga/Hagkaup?

„Þegar ég ákvað að ég ætlaði að framleiða Arepa fyrir íslenskan markað frétti ég af Uppsprettunni, nýsköpunarsjóð Haga sem styður við sprotafyrirtæki sem eru að framleiða nýjar spennandi vörur og á sjálfbæran hátt. Ég sótti því fljótt um og eftir nokkrar vikur fengum við úthlutaðan stuðning til að þróa vörur okkar áfram. Faglegt, reynslumikið og vinalegt starfsfólk Haga og Hagkaups hafa stutt og hjálpað okkur gríðarlega mikið og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Þau voru strax opin fyrir þetta matarmenningarævintýri sem er orðið að veruleika.“

Hvaða vörur er hægt að fá í Hagkaups verslunum frá ykkur?

„Eins og er þá fæst Arepas  BLANCA, PLATEÑA og COSTEÑA. Svo er meðlætið fræga úr okkar matarbíl, El Cerdito 14 klukkustunda hægeldað svínakjöt, og La Vegetariana, grillað suðrænt grænmetissalat.“

Sérðu fyrir þér stækka  og auka vöruúrvalið enn frekar í framtíðinni?

„Fyrirtækið hefur stækkað og styrkst stöðugt síðustu tvö árin en við höfum nú þegar mikil plön til að framkvæma á næstu mánuðum. Framtíðarsýn okkar er stórhuga og við sjáum ótakmarkaða möguleika í því að gefa nýjum opnum viðskiptavinum mat sem gefur hamingju gegnum einstaka mataraupplifun,“ segir Maria að lokum og horfir björtum augum til framtíðarinnar.

 

 

 

 

Maria er lífsglöð og ævintýragjörn og vill bjóða Íslendingum upp …
Maria er lífsglöð og ævintýragjörn og vill bjóða Íslendingum upp á matarmenningu sem gerir þá glaða og hamingjusama. Ljósmynd/Kári Sverris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert