Gómsætt bananabrauð sem yljar þér

Gómsætt bananabrauð sem yljar líkama og sál.
Gómsætt bananabrauð sem yljar líkama og sál. Unsplash/Whitney Wright

Eitt af því sem ég á nánast alltaf til í skál á eyjunni minni eru bananar og þegar þeir klárast ekki og liggja undir skemmdum finnst mér gott að nýta þá og baka bananabrauð. Þessa uppskrift að bananabrauði fékk ég hjá góðri vinkonu minni, Völdu, og mér finnst þessi uppskrift að bananabrauði langbest. Bananabrauð má vera gómsætt og dásamlegt er borða brauðið nýbakað og ylvolgt með íslensku smjöri. Eitt það besta sem ég borða ef mér finnst ég vera að fá kvef eru bananar og bananabrauð. Bananar styrkja ofnæmiskerfið og vítamínríkir, allra meina bót.

Bananabrauð

  • 2 stórir þroskaðir bananar
  • 50 g af smjöri
  • 2 egg
  • 2 dl af sykri
  • 3 dl hveiti
  • ½ dl af mjólk
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 1 tsk. kanil

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°.
  2. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. 
  3. Þeytið egg og sykur þar til létt og ljóst. 
  4. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil út í deigið og blandið vel saman. 
  5. Bætið smjöri og stöppuðum bönunum út í deigið.
  6. Takið til form, ílangt eins og fyrir sandköku og smyrjið.
  7. Setjið deigið í formið og inn í ofn og bakið 50 mínútur án blásturs.
  8. Berið fram ylvolgt með smjöri.
mbl.is