Lagtertan ljúfa sem allir elska

Randalín er hin brúna lagterta sem allir Íslendingar elska.
Randalín er hin brúna lagterta sem allir Íslendingar elska. Ljósmynd/Ingunn Mjöll

Lagtertan ljúfa, sem er alla jafn kölluð Randalín, er ein vinsælasta tertan sem fylgir aðventunni þegar kemur að íslenskum kræsingum með kaffinu. Hér er uppskrift að lagtertunni sem Ingunn Mjöll Sigurðardóttir, sem heldur úti uppskriftasíðunni Íslandsmjöll , deildi með fylgjendum sínum á dögunum og ég er búin að prófa. Hún stendur svo sannarlega undir væntingum og vel það. Uppskriftin er 50 ára gömul og kemur frá Færeyjum og er fjögra laga, en Ingunn fékk uppskriftina hjá Erlu Hjálmarsdóttir. „Erla var svo góð að taka mig í kennslu heim til sín og kenna mér að baka þessa dásamlegu lagtertu,“ segir Ingunn. 

Girnilega brúna lagtertan hennar Ingunnar.
Girnilega brúna lagtertan hennar Ingunnar. Ljósmynd/Ingunn Mjöll

Brún Randalín

 • 1 kg hveiti
 • 2 bollar sykur (350 g)
 • 300 smjörlíki (látið linast)
 • 2 egg
 • 2 tsk. natron
 • 2 tsk. negull
 • 2 tsk. kanill
 • 2 bollar síróp

Aðferð:

 1. Hnoðið deigið svo það verði sprungulaust, slétt
 2. Látið það fylla vel út á plötuna og passið að mæla þær allar eins
 3. Vigtið hveiti og sykur og setjið í hrærivélaskálina, bætið svo út í natron, negul og kanil og hrærið vel saman. 
 4. Bætið svo út í eggjum, sírópi og smjörlíki og hnoðið vel. Gott er að hnoða deigið í tveimur hlutum.
 5. Mjög gott er að pakka deiginu í smjörpappír og setja í poka og kæla vel (minnst 4 tíma eða í sólarhring). Má sleppa.
 6. Skiptið deiginu í fjóra jafna hluta og fletjið hvern hluta út í stærðinni 29x36 sentimetra (eða sem hentar ykkar plötustærð).
 7. Gott er að baka hvern hluta sér í miðjum ofninum við 200 - 220°C í tíu til tólf mínútur.
 8. Látið kólna vel.

Smjörkrem

 • 250 g smjör
 • 250 g smjörlíki
 • 500 g flórsykur
 • 1 egg
 • Vanilludropar eftir smekk

Aðferð:

 1. Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið mjög vel saman.
 2. Gott er að bíða með að setja kremið á þangað til daginn eftir eða passa að kakan sé vel kæld áður en kremið er sett á. Gamalt og gott húsráð er að setja vel undið viskastykki yfir kökuna til að mýkja hana.
 3. Kökuplöturnar eru síðan lagðar saman með smjörkremi á milli.
 4. Best er að velja fallegustu plöturnar og hafa þær neðst og efst svo að kakan líti sem best út. 
 5. Þegar öll lögin eru komin saman skal pakka lagkökunni vel inn í eldhúsfilmu eða álpappír og láta bíða í 2-3 daga til að mýkjast. 
 6. Þá er hún skorin í 6-8 stykki og hverju stykki pakkað vel inn, umbúðirnar þurfa að vera loftþéttar svo kakan harðni ekki.
mbl.is