Ómótstæðileg ostamús með rjóma

Ómótstæðilega girnileg ostamúsin hennar Thelmu með engiferkeim sem minnir á …
Ómótstæðilega girnileg ostamúsin hennar Thelmu með engiferkeim sem minnir á jólin. Ljósmynd/Thelma Þorbergsdóttir

Krydduð ostamús er ómótstæðilegur eftirréttur að vetri til og í kringum hátíðirnar sem tekur um 15 mínútur að framreiða og kemur úr smiðju Thelmu Þorbergsdóttur uppskriftahöfundar sem heldur úti vefsíðunni Freistingar Thelmu. Hátíðlegur keimur af ostamúsinni með engiferkökum í botninum og mjúkum rjómanum kitlar bragðlaukana og minnir á jólin. Þrátt fyrir kryddkeiminn er ostamúsin einstaklega létt og góð og allir sælkerar eiga eftir að dá þessa mús.

Ostamús með rjóma

Fyrir 6

  • 8 stk. engiferkökur
  • 30 g smjör
  • 500 ml rjómi frá Gott í matinn
  • 250 g rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn
  • 70 g sykur
  • 2 msk. síróp
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 tsk. kanill
  • 1⁄4 tsk. múskat
  • 1⁄4 tsk. engifer
  • 3⁄25 tsk. negull
  • 3⁄25 tsk. kardimommur

Ofan á

  • Rjómi frá Gott í matinn, eftir smekk
  • Flórsykur (2 msk.)
  • Kanilstöng
  • Rósmarín, ein grein í hvert glas/skál
  • Muldar engiferkökur eftir smekk 

Aðferð:

  1. Myljið kökurnar gróflega, bræðið smjör, blandið því saman við og hrærið öllu saman.
  2. Setjið 2 msk. af engiferkökum í botninn á hverju glasi fyrir sig. Skammturinn dugar í sex glös.
  3. Þeytið rjóma þar til hann er orðinn stífur og stendur. Takið helminginn til hliðar til þess að setja á toppinn.
  4. Þeytið rjómaostinn ásamt sírópi, vanilludropum og öllu kryddi.
  5. Blandið helmingnum af þeytta rjómanum saman við og hrærið saman með sleif.
  6. Setjið blönduna í sprautupoka og sprautið yfir engiferkökurnar.
  7. Blandið flórsykri saman við það sem eftir er af rjómanum og hrærið varlega saman.
  8. Setjið rjómann í sprautupoka og sprautið honum fallega ofan á ostamúsina.
  9. Skreytið með kanilstöng, rósmarín og muldum engiferkökum.
  10. Geymið glösin í kæli þar til ostamúsin er borin fram.
mbl.is