Guðdómlega góð naan-brauð bökuð í úti-pítsaofni

Sigríður Björk Bragadóttir kann listina þegar baka skal naan-brauð í …
Sigríður Björk Bragadóttir kann listina þegar baka skal naan-brauð í útipítsaofni. Samsett mynd

Nú er það helgarbaksturinn ljúfi sem er fastur liður á föstudögum. Að þessu sinni er það uppskrift að naan-brauðum sem kemur úr smiðju Sigríðar Bjarkar Bragadóttur matreiðslumeistara og sælkera hjá Salt Eldhúsi en hún er snillingur í brauðbakstri. Hún er líka búin að finna réttu leiðinni þegar baka á naan-brauð. En naan-brauð er frábært að baka í úti-pítsaofnunum sem nú eru að tröllríða markaðinum.

„Eftir nokkrar tilraunir, brennd brauð og hrá innan í tókst okkur að ná frábærum árangri og gera gómsæt brauð. Ýmislegt þarf að hafa í huga t.d. að hafa brauðin þunn, of þykk brauð geta orðið hrá innan í þegar þau eru orðin bökuð utan á. Gott er að gera bara eitt í einu og passið að hafa vel af hveiti á spaðanum svo brauðið festist ekki við og ekki láta brauðin bíða á spaðanum. Ekki setja of mikið af smjöri, bara þunnt lag, þá er auðveldara að baka það,“ segir Sigríður sem er komin með góða reynslu á því að baka naan-brauð í pítsaofninum sínum góða.

Girnilegt naan-brauðið.
Girnilegt naan-brauðið. Ljósmynd/Sigríður Björk Bragadóttir

Naan-brauð í gas-pítsaofni

4 brauð

 • 350 g hveiti
 • 2 tsk. þurrger
 • ½ tsk. lyftiduft
 • 2 tsk. sykur
 • 1 tsk. salt
 • 125 ml vatn
 • 150 g hrein jógúrt
 • 80 g smjör, brætt
 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • hnefafylli steinselja eða 2 tsk. nigellufræ

Aðferð:

 1. Setjið hveiti, þurrger, lyftiduft, sykur og salt í hrærivélaskál og blandið saman.
 2. Hitið vatn og jógúrt saman þar til ylvolgt (36°C).
 3. Hellið vökva út í þurrefnin og hnoðið mjög vel saman með deigkróknum.
 4. Setjið klút yfir og látið bíða á hlýjum stað í 30-60 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast í stærð.
 5. Bræðið smjör í potti, saxið hvítlaukinn og setjið út í ásamt steinselju eða nigellufræjum og hafið tilbúið með pensli.
 6. Hitið pítsaofninn með steininum í um það bil 380°C hita.
 7. Skiptið deiginu í 4 hluta og fletjið hvern út jafnóðum og setjið á deigspaðann með vel af hveiti undir svo auðvelt verði að losa það á steininn í ofninn.
 8. Penslið brauðið með smjörinu og setjið hvítlauksbitana með á brauðið.
 9. Lækkið svolítið hitann á ofninum með því að minnka örlítið gasstreymið.
 10. Bakið brauðið eitt í einu og verið vakandi fyrir því að snúa því hluta úr hring allan tímann svo það bakist jafnt.
 11. Berið fram með því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert