Svíar fóru með sigur á hólmi á heimsmeistaramóti ungra bakara sem var haldið hér á landi dagana 3.-5. júní og lauk í gær með verðlaunaafhendingu. Í öðru sæti voru Spánverjar og í þriðja sæti Frakkar. Alls tóku sjö lönd þátt, Ísland, Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð, Spánn, Ungverjaland og Kína. Keppnin var hin glæsilegasta í alla staði og var þema keppninnar „List minnar þjóðar“.
Tvær stúlkur, Stefanía Malen Guðmundsdóttir og Hekla Guðrún Þrastardóttir skipuðu íslenska liðið og stóðu sig með miklu sóma fyrir land og þjóð. Íslenska liðið fékk sérverðlaun frá yfirdómara keppninnar, Bernd Kutscher sem er mikill heiður. Þær fengu verðlaun fyrir jákvæðni, útgeislun, ástríðu, góða vöru, hugmyndaflæði, skipulagningu og góða samvinnu. Kína fékk verðlaun fyrir besta sýningarstykkið.
„Dómnefnd var skipuð sjö fulltrúum, einn frá hverju landi og þeirra verk var ekki öfundsvert enda stóðu öll liðin sig framúrskarandi vel. Dómnefndin gaf stig fyrir bragð, útlit, frumleika, nákvæmni og fleiri þætti,“ segir Sigurður Már Guðjónsson formaður LABAK.
„Keppnin tókst frábærlega vel í alla staði og keppendur stóðu sig með stakri prýði. Að lokinni verðlaunaafhendingu var keppendum, aðstandendum þeirra og dómnefnd boðið til hátíðarkvöldverðar og tengslin efld enn frekar,“ segir Sigurður að lokum.
Keppnin hefur verið haldin af International Union of Bakers & Confectioners (UIBC) síðan 1972 en það er alþjóðlegt samband fyrir bæði bakara og kökugerðarmenn um allan heim. Þetta var glæsilegur viðburður sem Landssamband bakarameistara, LABAK) sá um og var haldið á Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. Þetta er ekki bara í fyrsta skipti sem þetta heimsmeistaramót er haldið hér á landi heldur einnig fyrsta skiptið Norðurlöndunum.
Þvílík myndaveisla að skoða kræsingarnar og sýningarstykkin sem liðin göldruðu fram fyrir dómnefndina og hreint augnakonfekt að njóta.