Berglind gerði sushi í fyrsta skipti

Frumraun Berglindar Hreiðars í sushigerð tókst vel og hún sýnir …
Frumraun Berglindar Hreiðars í sushigerð tókst vel og hún sýnir fylgjendum sínum listina. Samsett mynd

Berglind Hreiðarsdóttir hjá Gotterí og gersemar er þekkt fyrir köku- og matarblogg sitt en hefur hingað til aldrei spreytt sig í sushigerð. Hún ákvað í vinda sér í sushigerð á dögunum sem tókst miklu betur en hún þorði að vona og nú segist hún ætla að prófa sig meira áfram á þessu sviði.

„Eftir að ég horfði á svipað myndband um daginn á Instagram gat ég ekki hætt að hugsa um það áður en ég væri búin að prófa. Þetta er í alvöru eins einfalt og myndbandið sýnir og almáttugur hvað þetta var gott. Held ég þurfi klárlega að fara að prófa mig betur áfram í sushigerð,“ segir Berglind og hlær.

Hér getið þið fylgst með Berglindi að gera sushi og prófað að leika það eftir. Hún segir það vera jafn einfalt og það lítur út fyrir að vera þegar horft er á myndbandið. Uppskriftin fylgir líka með.

Laxasushi með rjómaosti

12 bitar

 • Lítill laxabiti (c.a 3 cm á þykkt)
 • 1 stk. avókadó
 • 12 tsk. Philadelphia rjómaostur með sweet chili
 • 120 g Blue Dragon sushigrjón (+ ½ msk. hrísgrjónaedik og 330 ml vatn)
 • Blue Dragon Nori blað
 • Chilli majónes
 • Saxaður graslaukur
 • Sesamfræ

Aðferð:

 1. Sjóðið sushigrjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakka og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr á meðan annað er undirbúið.
 2. Undirbúið tóman eggjabakka með því að leggja plastfilmu ofan í botninn á honum öllum.
 3. Sneiðið laxinn í þunnar sneiðar og komið fyrir neðst í eggjabakkanum í öllum 12 hólfunum.
 4. Næst má skera avókadó niður í þunnar sneiðar og setja eina sneið ofan á hvern laxabita.
 5. Næst fer um ein teskeið af rjómaosti ofan á avókadóið og sléttið aðeins úr.
 6. Nú má fylla upp í hvert „eggjahólf“ með sushigrjónum og þjappa vel niður.
 7. Klippið nori blöð niður svo þau passi ofan á grjónin, þrýstið vel að, plastið yfir og kælið, eða hvolfið strax úr og raðið á bakka.
 8. Toppið laxinn síðan með chili majónesi, söxuðum graslauk og sesamfræjum.
Laxabitar með rjómaosti.
Laxabitar með rjómaosti. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert