Þjóðleg pönnukökukaka í tilefni dagsins

Þessi pönnukökukaka er algjört sælgæti að njóta.
Þessi pönnukökukaka er algjört sælgæti að njóta. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Íslenskar pönnukökur eru sívinsælar og sérstaklega á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Við bökum reglulega slíkar og sitt sýnist hverjum með fyllingar, sumir vilja sykur, aðrir rjóma, enn aðrir súkkulaði og allt þar á milli líkt og Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar veit vel. Hún tók saman sitt uppáhald á pönnukökur, jarðarber og súkkulaði og blandaði saman við rjómafyllingu og útbjó pönnuköku-köku. Í tilefni dagsins er vert að birta þessa dásamlegu uppskrift og myndband sem Berglind deildi með fylgjendum sínum á Instagram-síðu sinni. Gleðilegan 17. júní.

Þjóðleg pönnukökukaka

Pönnukökur

 • 400 g hveiti
 • 40 g sykur
 • 1 tsk. lyftiduft
 • ½ tsk. matarsódi
 • ½ tsk. salt
 • 900 ml nýmjólk
 • 100 g brætt smjör
 • 4 egg (pískuð)
 • 4 tsk. vanilludropar

Aðferð:

 1. Hrærið  hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti saman í skál.
 2. Blandið um ¾ af mjólkinni saman við og hrærið þar til kekkjalaust.
 3. Bætið þá bræddu smjöri, eggjum og vanilludropum út í og hrærið áfram vel, skafið niður á milli.
 4. Að lokum má svo setja restina af mjólkinni saman við og hræra vel.
 5. Steikið síðan þunnar kökur á pönnukökupönnu og leyfið aðeins að kólna niður áður en þið raðið kökunni saman.

Fylling í pönnukökuköku

 • 750 ml rjómi
 • 3 tsk. flórsykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 200 g jarðarber
 • 200 g Nutella
 • Jarðarber til skrauts

Aðferð:

 1. Þeytið rjómann ásamt flórsykri og vanillusykri þar til hann er stífþeyttur.
 2. Stappið jarðarberin gróft og blandið saman við rjómann.
 3. Hitið Nutella aðeins í skál svo auðveldara verði að dreifa því yfir með skeið.
 4. Setjið eina pönnuköku í botninn á um 20 cm smelluformi.
 5. Næst setjið þið 4 pönnukökur á kantinn á forminu svo þær nái yfir kökuna á botninum, innan á allan kantinn og hangi fram af að utanverðu (c.a jafn mikið báðu megin).
 6. Smyrjið næst þunnu lagi (um ½ cm) af rjóma á botninn, dreifið smá Nutella yfir og setjið næstu pönnuköku ofan á.
 7. Endurtakið þar til síðasta pönnukakan er orðin jafn há forminu sem þið notið.
 8. Náið þá í kökudisk og leggið ofan á formið á hvolfi, snúið við með því að halda fast við kökuformið og losið síðan smelluna og fjarlægið formið utan af kökunni.
 9. Toppið með smá rjóma, Nutella og ferskum jarðarberjum.
 10. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert