Ofnbökuð bleikja borin fram með aspas og steiktum kartöflum

Girnileg ofnbökuð bleikja í raspi með bökuðum aspas, steiktum kartöflum …
Girnileg ofnbökuð bleikja í raspi með bökuðum aspas, steiktum kartöflum og kaldri sósu. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Þetta er mánudagsfiskréttur af betri gerðinni en hér er komin ofnbökuð bleikja í sparifötunum eins og Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari vill kalla hana. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.

Þetta er alls ekki flókin uppskrift en lúxus brauðraspurinn og steiktu kartöflurnar fara vel saman og síðan er það köld sósa og bakaður aspas sem gerir réttinn hátíðlegri. Vert er að undirbúa kartöflurnar fyrst af öllu og koma þeim á pönnuna áður en þið snúið ykkur að fiskinum því það getur tekið lúmskt langan tíma að fá þær til að steikjast vel í gegn með þessum hætti. En þær eru svo góðar steiktar.

Ofnbökuð bleikja í raspi með bökuðum aspas, steiktum kartöflum og kaldri sósu

Ofnbökuð bleikja og aspas

Fyrir 5-6

 • 900 bleikjuflök (3 stk.)
 • 1 búnt ferskur aspas
 • 130 g brauðrasp
 • 60 g rifinn Goðdala Reykir ostur
 • 1 msk. saxað timian
 • 1 msk. söxuð steinselja
 • 2 stk. rifnir hvítlauksgeirar
 • 100 g brætt smjör
 • Olía, salt og pipar eftir smekk
 • Sítrónubátar eftir smekk

Aðferð:

 1. Penslið bæði bleikjuflökin og aspasinn með ólífuolíu, saltið, piprið og leggið á bökunarpappír í ofnskúffu (Berglind notaði tvær skúffur, aðra fyrir fisk og hina fyrir aspas).
 2. Hitið ofninn í 200°C og útbúið brauðraspinn á meðan.
 3. Blandið brauðrasp, rifnum osti, kryddum, hvítlauk og bræddu smjöri saman í skál með höndunum þar til brauðraspurinn hefur drukkið í sig smjörið.
 4. Skiptið blöndunni þá jafnt yfir bleikjuflökin og restinni yfir aspasinn.
 5. Spreyið með matarolíuspreyi og bakið í heitum ofninum í um 15-20 mínútur.

Kartöflur

 • 3 stk. stórar bökunarkartöflur
 • salt, pipar, hvítlauksduft, timian eftir smekk
 • Ólífuolía eftir smekk

Aðferð:

 1. Flysjið kartöflurnar og skerið í litla teninga (um 1 x 1 sm).
 2. Steikið þær upp úr vel af olíu á meðalheitri pönnu í um 30 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn.
 3. Gott að krydda þær til eftir smekk og snúa reglulega til að þær festist ekki við pönnuna, bætið við olíu ef þurfa þykir.

Köld sósa

 • 180 g 18% sýrður rjómi
 • Safi úr ½ límónu
 • 2 msk. saxaður kóríander
 • 1 stk. rifið hvítlauksrif

Aðferð:

 1. Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið vel saman.
 2. Berið fram með bleikjunni og aspasinum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert