„Ég er týpan sem lifir fyrir góðan mat“

Eva Sigrún Guðjónsdóttir er mikill matgæðingur.
Eva Sigrún Guðjónsdóttir er mikill matgæðingur. Ljósmynd/Aðsend

Eva Sigrún Guðjónsdóttir er áhugakokkur og annar þáttastjórnandi hlaðvarpsins Bragðheima. Bragðheimar fjalla um allt sem tengist mat hvort sem það tengist matargerð, matarmenningu og meira að segja kryfja þáttastjórnendur stundum fréttamál í matarheiminum. 

Sólveig Einarsdóttir stjórnar hlaðvarpinu ásamt Evu Sigrúnu. „Við Solla kynnumst í fæðingarorlofi á líðandi ári. Ég eignaðist tvíbura haustið 2023 og Solla eignaðist Siggu sína einungis 10 dögum áður en tvíbökurnar komu í heiminn. Við vorum fljótar að átta okkur á því að við deildum áhuga á matargerð og í raun sömu gildum og húmor,“ segir Eva Sigrún um hvernig leiðir þeirra Sólveigar lágu saman. 

„Ég hafði gengið með þessa hugmynd um matarhlaðvarp í þó nokkurn tíma og fyrir tilstuðlan ansi hvetjandi sameiginlegrar vinkonu okkar Sollu var okkur slengt saman í stúdíó og létum við barasta vaða. Við reynum að nálgast innihald þáttanna með opnum hug og viljum meina að þeir henti þverskurði af samfélaginu. Við erum nefnilega hlaðvarp fyrir sjoppuna, sælkerann og meðaljóninn. Við reynum að slá á létta strengi og viljum fræða en skemmta hlustendum í leiðinni.“

Matur kemur öllum við

Aðspurð segir Eva Sigrún hægt að tala endalaust um mat. „Þetta er það viðfangsefni sem er fyrir framan okkur allan daginn. Hvað á að hafa í matinn í kvöld? Hvert á ég að taka hana út að borða? Hvað á ég að kaupa í þessum sérvöruverslunum? hvers vegna haga Íslendingar sér með þessum hætti í matarboðum? Og svo fram eftir götunum. Við Solla höfum nú þegar lagt drög að seríu tvö og það er í raun erfitt að velja á milli viðfangsefnis og viðmælenda, það er af nógu að taka.“

Er einhver gestur sem stóð upp úr í vetur?

„Það er ofboðslega erfitt að gera upp á milli viðmælenda en ætli við höfum ekki hlegið mest með dr. football og í vinkonuþáttunum með Nadine Guðrúnu Yaghi og Rakel Sif og Lóu Björk. Eins var mikið fútt og grín í leikstjóranum Karen Björgu, hún hefur líka haft hvað mest áhrif á hlustendur þegar hún deildi læknisfræðilegri uppgötvun sem gjörbreytti matarhegðun hennar. Karen var nefnilega stútfull af skít og fór í allsvakalega hreinsun sem hafði svo jákvæð áhrif á dagsdaglegt líf, í kjölfarið þurfti hún að sneiða hjá ákveðnum tegundum af mat og breytti svolítið um stefnu í eldamennsku. Við höfum fengið fyrirspurnir, þakkir og reynslusögur frá fólki sem var með sömu einkenni og Karen og þurftu á sömu hreinsun að halda. Þannig það má segja að Bragðheimar sé að hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu þessa lands, ákveðin heilbrigðisstofnun í eðli sínu.“

Bragðheimar er hlaðvarp sem þær Sólveig Einarsdóttir og Eva Sigrún …
Bragðheimar er hlaðvarp sem þær Sólveig Einarsdóttir og Eva Sigrún Guðjónsdóttir stjórna. Ljósmynd/Aðsend

Lifir fyrir góðan mat

Ertu týpan sem er ótrúlega góð í eldhúsinu eða ertu týpan sem finnst bara gott að borða?

„Ég er týpan sem lifir fyrir góðan mat og svo finnst mér svakalega gaman að elda góðan mat. Ég bý svo vel að maðurinn minn deilir sama áhugamáli og saman höfum við eldað svo mikið gott en auðvitað hefur okkur líka mistekist, við erum enn í mótun! Og það er líka ein af nálgunum hlaðvarpsins, við Solla erum miklir áhugakokkar og ansi skoðanaglaðar en líka í lærdómsfasanum og viðurkennum það fúslega að við eigum margt eftir ólært í eldhúsinu. Á þessari vegferð höfum við nú þegar lært mikið af viðmælendum okkar og ögrað okkur enn frekar í eldhúsinu. Við setjum okkur ekki á alltof háan hest þó einhverjir vilji meina að við höfum sterkar skoðanir á hlutunum.“

Eva Sigrún segir að þær Sólveig hafi lært mikið af …
Eva Sigrún segir að þær Sólveig hafi lært mikið af viðmælendum sínum í eldhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Sumac er í uppáhaldi

Áttu uppáhaldsveitingastað?

„Uppáhaldsveitingastaðurinn minn er Sumac. Mér finnst hann hafa allt sem góður veitingastaður þarf að hafa; bragðgóðan mat, stemmingu, flotta hönnun og góða þjónustu. Svo er ég ofboðslega hrifin af OTO og spennt að smakka Amber & Astra. Mér finnst í raun ótrúlegt hvað það eru margir góðir veitingastaðir hér á landi en á sama tíma mætti alveg fækka þeim slæmu, nóg til af þeim líka.“

Hvaða skyndibiti er í uppáhaldi?

„Ég er alveg veik fyrir Napoli Pizzu á Tryggvagötu og svo græt ég að Dragon Dim Sum hafi lokað, það var minn uppáhaldsskyndibiti í heimsendingarleiknum.“

Fékk versta matinn á Kúbu

Hvar hefur þú fengið versta matinn?

„Það var hreinlega á Kúbu, matarmenningin þar er ansi einhæf að sökum strangra innflutningsreglna.“

Hvar færðu besta matinn erlendis?

„Mér fannst ofboðsleg upplifun að dæna í Tókýó. Ég var svo heppin að fá að eyða 10 dögum í Japan árið 2017 og snérist ferðin að mestu um að smakka sem flesta veitingastaði. Því sveittari sem Ramen staðurinn var, því betri. Svo er París alltaf frábær, en þar skiptir máli að velja réttu hverfin.“

Hvað ætlar þú að borða í sumarfríinu? 

„Við erum búin að vera dugleg á grillinu – erum aðallega að vinna með fisk- og kjötmeti. Höfum verið að para það með góðu salati sem inniheldur yfirleitt ferskar ferskjur og góða dressingu. Síðan væri æðislegt að ná að borða á Amber & Astra. Þess á milli ætla ég bara líka að fá mér Fin Crisp, Hleðslu og banana,“ segir Eva Sigrún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert