Dalvíkingur kemur Spánverjum á bragðið

Dalvíkingurinn Helgi B. Helgason framleiðir kryddblöndur á Spáni.
Dalvíkingurinn Helgi B. Helgason framleiðir kryddblöndur á Spáni. Samsett mynd/Akureyri.net

Matreiðslumaðurinn Helgi B. Helgason framleiðir kryddblöndur á Spáni en hann starfaði lengi við fagið á Íslandi en í dag býr hann á Spáni. Þetta kemur fram í viðtali við Helga á vefmiðlinum Akureyri.net. Helgi segir að það sé mikið starf fram undan hjá sér við markaðssetningu á vörunum en draumurinn hans er að koma kryddunum í sölu á Íslandi og víðar um heiminn.

Bragðlaus graflax kom honum á bragðið

Eins og fram kemur í viðtalinu flutti Helgi til Spánar með fjölskylduna sína árið 1999. Á Spáni starfaði hann fyrir Subway International til ársins 2019. En undanfarin fimm ár hefur hann verið að þróa sínar eigin kryddblöndur og eru þær nýkomnar á markað.

„Þessi kryddhugmynd kviknaði vorið 2019 í kjölfar tilkynningar um endurskipulagningu hjá Subway en þá vissi ég að ég yrði að finna mér eitthvað annað að gera. Ég var úti að borða á 59 ára afmælisdegi mínum á belgískum veitingastað og hafði pantað mér graflax í forrétt sem var alveg bragðlaus,“ segir Helgi í viðtalinu. Hann áttaði sig á því á þessum tímapunkti að hann væri með söluvöru í höndunum. Kryddblanda frá honum hefði auðveldað getað bjargað graflaxinum og gert hann að betri máltíð.

Fæddur og uppalinn á Dalvík

Helgi er fæddur og uppalinn á Dalvík og hefur verið að nota sínar eigin kryddblöndur í 40 ár. Það er þó fyrst núna sem hann er að koma þeim á markað og undir nafninu „PREMIUM Seasoning Blends by Artos“. Einkenni varanna hans Helga er hollusta og gæði en kryddblöndurnar sjá til þess að sem best bragðgæði náist út úr hvaða hráefni sem er í höndum venjulegra heimiliskokka.

Starfsferilinn hóf Helgi sem matreiðslumaður á Múlakaffi þar sem hann var í læri hjá Stefáni Ólafssyni. Eftir útskrift árið 1980 lá leiðin á veitingastaðinn Cockpit-Inn í Lúxemborg sem Valgeir Sigurðsson rak en þar réð matreiðslumeistarinn Sigurvin Gunnarsson ríkjum í eldhúsinu. Helgi segir að þetta hafi verið mjög skemmtilegur og vinsæll veitingastaður með flugvélatengdum innréttingum og þar hafi verið alls konar myndir úr íslenskri flugsögu á veggjunum og líka skipamyndir. Hann segir að þarna hafi hann byrjað að nota sínar eigin kryddblöndur og þær hafi síðan þróast með honum í gegnum tíðina. Eftir rúmlega ársdvöl í Lúxemborg flutti Helgi aftur heim, stofnaði fjölskyldu og opnaði veitingastaðinn Crown Chicken á Akureyri ásamt fleirum. Þar var hann í fimm ár en réð sig svo til Samherja. Ætlunin hafi verið  vera bara hjá Samherja í eitt ár til að ná sér í pening en þetta eina ár hafi orðið að tíu. Helgi var fastráðinn á togaranum Hjalteyri en fór einnig nokkra túra á Akureyrinni, Þorsteinn og var svo fastráðinn á Víði þegar Hjalteyrin var seld til Skotlands. Um aldamótin flutti svo fjölskyldan alfarið til Spánar en Helgi er í dag fráskilinn og búsettur skammt frá Benidorm ásamt yngsta syninum Sindra Má. Lesa má viðtalið í heild sinni hér.

Kryddin sem Helgi er að koma með inn á markaðinn …
Kryddin sem Helgi er að koma með inn á markaðinn gera heitið: „PREMIUM Seasoning Blends by Artos.“ Samsett mynd/Akureyri.net
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert