Unaðslega góður humarréttur fyrir þig

Unaðslega góður humarréttur borinn fram með hvítlauksbrauði.
Unaðslega góður humarréttur borinn fram með hvítlauksbrauði. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Hér er á ferðinni einfaldur og góður lúxushumarréttur sem má auðveldlega aðlaga að sínum uppáhalds hráefnum. Heiðurinn af uppskriftinni á Hanna Thordarson matgæðingur með meiru sem heldur úti uppskriftasíðunni Hanna.is. Ef von er á vinkonum eða saumaklúbbnum í mat er þetta málið. Það skemmtilega við réttinn er að það má líka leika sér með hráefnin, bæta því við, sem þér þykir gott, og taka annað út. Sama má segja með sósuna, það er mismunandi hvaða sósa á mest upp á pallborðið með humri. Sumir eru hrifnari af hvítlaukssósu, sítrónu- og límónusósu, kokteilsósu svo fátt eitt sé nefnt svo best er að þú veljir þá sósu sem þér finnst passa best með. Kryddið, sem Hanna steikir humarinn upp úr, er ekki heilagt en gerir heilmikið fyrir réttinn. 

Réttinn má forvinna

Gott er að forvinna réttinn og auðvelda sér verkið. Réttinn má forvinna með því að sjóða búlgurnar og búa jalapenósósuna til daginn áður, verður betri ef hún fær að standa.  Einnig er gott að taka humarinn úr frysti kvöldið áður og láta hann þiðna í rólegheitum í ísskápnum. Síðan þegar rétturinn er gerður er lag að byrja á því að gera salatið og sósuna og enda síðan á því að steikja humarinn og útbúa hvítlauksbrauðið.

Unaðslegur humarréttur borinn fram með hvítlauksbrauði

Humar og hvítlauksbrauð

  • 500 g skelflettur humar
  • 50 g smjör
  • 1 tsk. kóríanderfræ
  • 1 tsk. ljós sinnepsfræ
  • 1 tsk. rósapipar
  • ½ tsk. hvítlaukssalt
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ – 1 snittubrauð (smjör og ½ tsk. hvítlaukssalt)

Aðferð:

  1. Látið smjörið bráðna á pönnunni. 
  2. Bætið við piparkornum og hvítlauk og látið mýkjast á lágum hita á pönnunni á meðan salatið er útbúið, þá mýkjast piparkornin og gefa gott bragð.
  3. Hækkið hitann rétt áður en salatið er borið fram og snöggsteikið humarinn og hellið síðan öllu yfir salatið.
  4. Skerið snittubrauðið í sneiðar og bætið smjöri á pönnu. 
  5. Steikið brauðið upp úr smjörinu á báðum hliðum og kryddið með hvítlaukssalti.  Raðið brauðinu í kringum salatið. 
  6. Það má alveg rista snittubrauðið á sömu pönnu og humarinn var steiktur á, það gefur bara enn þá betra bragð.

Salat

  • Salat, eins og klettasalat, íssalat og/eða rauðkál skorið í þunnar sneiðar
  • Biti af melónu, t.d. Galía eða kantalupa, skorin í smærri bita
  • 1 dl búlgur (soðið í 2 dl af vatni)
  • Biti af rauðri og/eða gulri papriku, skorin smátt
  • 4 – 5 litlir tómatar, skornir í bita
  • 5 – 6 jarðarber, skorin í tvennt
  • Hluti af granatepli
  • 1 avókadó, skorið í bita og nokkrum dropum af sítrónu/límónu kreist yfir
  • ½ dl pistasíuhnetur
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Sjóðið búlgur, gott er að láta vatn í pott og hita það að suðu og leggja síðan búlgurnar í og látið þær liggja þar í nokkrar mínútur (þannig að sterkjan fari úr). 
  2. Sigtið vatnið frá og setjið 2 dl af vatni í pottinn, hitið að suðu og látið búlgurnar ofan í, lækkið hitann og sjóðið í 7 mínútur.   Eflaust má sleppa því að láta þær liggja fyrst í heita vatninu.
  3. Setjið síðan allt hráefni á stórt fat.

Jalapenósósa

  • ½ dl jalapenó, smátt saxað
  • ¾ – 1 dl sýrður rjómi
  • ½ dl majónes
  • Saltflögur eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið jalapenó í blandara ásamt sýrða rjómanum. 
  2. Blandið síðan majónesi saman við.
  3. Gott að gera þessa daginn áður og geyma í kæli fyrir notkun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert