Hér eru á ferðinni litlar sítrónuostakökur með jarðarberjakremkexi, lemon curd og ferskum jarðarberjum sem koma úr smiðju Valgerðar Grétu Gröndal, alla jafna kölluð Valla. Valla heldur úti uppskriftasíðunni sem ber einfaldlega heitið Valla Gröndal. Þvílíkt lostæti sem þessar ostakökur eru og svo fallegar á borði. Ofan á kexbotninn er sítrónuostakökufylling sem er létt og mjúk og þar ofan á fer heimagert lemon curd og söxuð fersk jarðarber. Það er auðvitað hægt að kaupa lemon curd út í búð og nota það en heimagert er miklu betra. Valla deildi uppskriftinni að sínu uppáhalds og hún fylgir er með ef þið viljið gera lemon curd sjálf. Fersku jarðarberin setja svo punktinn yfir i-ið á réttinum og gera það að verkum að þetta verður ekki of sætt.
Það er vel hægt að gera þessar með góðum fyrirvara og bera svo fram þegar sólin skín.
Fersku jarðarberin eru gott mótvægi við sæta bragðið.
Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal
Litlar sítrónuostakökur með jarðarberjakremkexi, lemon curd og ferskum jarðarberjum
Kexbotn
- 160-170 g Kremkex með jarðarberjafyllingu frá Frón
- 35 g brætt smjör
Aðferð:
- Setjið kexið í matvinnsluvél og vinnið þar til það verður að mylsnu.
- Bræðið smjörið og hellið yfir kexið og hrærið saman, áferðin minnir á blautan sand.
- Setjið kexmylsnuna í 6 lítil glös.
Sítrónuostakökufylling
- 250 g rjómaostur
- 60 g flórsykur
- 250 ml rjómi
- 25 g flórsykur
- 1 sítróna, safi og börkur
- 1 tsk. vanilludropar
- 100 g lemon curd, uppskrift hér fyrir neðan
- 300 g fersk jarðarber
Aðferð og samsetning:
- Takið rjómaostinn úr kæli og látið standa á borði í smá stund. 15 mínútur nægja alveg.
- Setjið ostinn í skál ásamt 60 g af flórsykri og þeytið saman.
- Setjið rjómann í aðra skál ásamt vanilludropum og stífþeytið.
- Raspið sítrónubörkinn og kreistið sítrónusafann úr sítrónunni.
- Setjið börkinn og safann út í rjómann og þeytið áfram í nokkrar sekúndur.
- Blandið rjómanum varlega saman við ostablönduna með sleikju.
- Saxið jarðarberin smátt og hafið lemon curd-ið tilbúið hjá ykkur.
- Takið fram 6 lítil glös og setjið kexmylsnuna í botninn, Valla notaði um það bil 1 msk.
- Setjið ostakökublöndu ofan á kexið, því næst lemon curd og á eftir söxuð jarðarber.
- Ofan á jarðarberjalagið kemur meira af ostakökublöndunni, þá lemon curd. Smávegis af kexmylsnunni og toppað með söxuðum jarðarberjum.
Heimagert lemon curd
- 3 sítrónur, safi + raspaður börkur
- 1 og ½ bolli sykur
- 200 g smjör
- 4 stór lífræn egg
- ½ bolli sítrónusafi (af sítrónunum)
- 1/4 tsk. salt
Aðferð:
- Skolið sítrónurnar vel og þerrið. Raspið af þeim börkinn en passið að raspa bara gula hlutann, alls ekki fara niður í þetta hvíta, það er beiskt og ekki gott að hafa með.
- Setjið sykurinn og börkinn í matvinnsluvél og blandið saman í smástund.
- Bætið út í matvinnsluvélina smjörinu, salti og sítrónusafanum og blandið.
- Bætið svo einu eggi úti í einu í blandarann.
- Setjið blönduna í stálskál eða pott og hrærið stöðugt í yfir vatnsbaði. Hrærið stöðugt í þangað til blandan fer að þykkna. Þetta tekur svona 15 mínútur á rólegum hita.
- Ekki freistast til þess að setja pottinn beint á helluna til þess að flýta fyrir, það er dæmt til þess að enda illa og þið endið með sítrónu-ommilettu.
- Sítrónusmjörið er svo tilbúið þegar það festist á sleif.
- Setjið í hreina krukku og kælið. Smjörið þykknar og stífnar þegar það kólnar.