Súkkulaðibitakökur frá himnaríki eða nei frá Berglindi

Þessar eru svo góðar að þær gæti komið frá himnaríki …
Þessar eru svo góðar að þær gæti komið frá himnaríki að mati Berglindar. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Köku- og matarbloggarinn Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar elskar súkkulaðibitakökur og nýtur þess að þróa uppskriftir af þeim sem standast hennar kröfur. Hún samþykkir ekki hvaða súkkulaðibitakökur sem er.

„Það er samt fátt sem veldur mér meiri vonbrigðum en þurrar slíkar svo ég hef gert ýmsar tilraunir í gegnum tíðina. Í Seattle er bakarí/ísbúð sem heitir Hello Robin og almáttugur, smákökurnar þar eru þær allra bestu,“ segir Berglind.

Í þessari uppskrift reynir hún að leika sömu listina og fá bestu útkomuna og segir að vel hafi tekist til. „Ég prófaði að brúna smjörið og nota öll trixin í bókinni og ég ætla að leyfa mér að segja að þetta eru þær bestu súkkulaðibitakökur sem ég hef bakað.“

Nú er að bara að prófa og athuga hvort þið eruð sammála Berglindi.

Súkkulaðibitakökur

Um 22-24 stykki

  • 280 g hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. kartöflumjöl
  • 1 tsk. salt
  • 170 g smjör (brætt og brúnað)
  • 150 g púðursykur
  • 100 g sykur
  • 1 egg + 1 eggjarauða
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 200 g súkkulaðidropar

Aðferð:

  1. Hrærið saman hveiti, matarsóda, kartöflumjöli og salti og leggið til hliðar.
  2. Bræðið smjörið og hrærið stanslaust við meðalhita þar til það byrjar að brúnast, leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
  3. Blandið næst báðum tegundum af sykri saman við brædda smjörið og pískið þá eggi + eggjarauðu  saman við ásamt vanilludropum.
  4. Blandið þurrefnunum nú saman við og blandið saman, að lokum má síðan vefja súkkulaðidropunum saman við deigið.
  5. Setjið deigið í plast og kælið í að minnsta kosti 2 klukkustundir, líka í lagi að kæla yfir nótt.
  6. Takið deigið síðan úr ísskápnum um 20 mínútum áður en þið ætlið að baka úr því.
  7. Hitið ofninn í 170°C og vigtið um 40 g fyrir hverja köku og rúllið í kúlu. Raðið þeim á bökunarplötu með gott bil á milli og bakið í 12-15 mínútur.
  8. Kælið þær á kæligrind áður en þeirra er notið.
  9. Berið fram með ískaldri mjólk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert