„Verð skapvond og viðskotaill ef ég fæ ekki að borða“

Árelía Eydís Guðmundsdóttir ljóstr­ar upp mat­ar­venj­um sín­um að þessu sinni.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir ljóstr­ar upp mat­ar­venj­um sín­um að þessu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árelía Eydís Guðmundsdóttir ljóstr­ar upp mat­ar­venj­um sín­um fyr­ir les­end­um Mat­ar­vefs­ins að þessu sinniÞað sem gleður hjarta hennar mest er að fá góðan morgunmat og segir hún að það skipti sköpun þegar matur er annars vegar.

„Ég veit nú ekki alveg hvað eru skemmtilegar staðreyndir um matarvenjur mínar. Kannski bara það að ég verð ákaflega hamingjusöm ef ég fæ góðan morgunmat, sú hamingja varir vel fram á daginn þangað til að ég fæ næst að borða,“ segir Árelía með bros á vör. 

Árelía starfa núna sem borgarfulltrúi og er formaður Skóla- og frístundarsviðs Reykjavíkurborgar. Hún er einstæð móðir, á þrjú börn, tengdason og á tvær dásamlegar ömmustelpur eins og hún segir sjálf frá og köttinn Grjóna og býr Vesturbæ Reykjavíkur.

Með tvær bækur í smíðum

„Ég hef starfað við háskólakennslu á sviði leiðtoga- og vinnumarkaðsfræða í yfir tvo áratugi. Ég er rithöfundur sem nýti stundir sem gefast til að skrifa og kenna. Núna hef ég undanfarin ár verið með tvær bækur í smíðum sem hafa fengið of litla athygli frá mér. Annars vegar skáldsögu sem er þroskasaga konu sem þarf að horfast í augu við sjálfa sig eftir röð atvika sem knýr hana á til þess. Hins vegar bók um möguleika og tækifæri svokallaðs þriðja æviskeiðs. Ég er með netnámskeið um þetta efni þann 12. september. Það geri ég til að fá næringu sem rithöfundur og kennari. Ég nærist á að fjalla um hvernig við getum endurfæðst á þessu lífsskeiði.“

Farið flesta kúra sem hægt er að finna

Þegar matur er annars vegar hefur Árelía prófað margt og meira segja mergunakúra og var sjálf með einn slíkan í forðum. 

„Eins og flestar konur hef ég í gegnum tíðina farið í flesta kúra sem hægt er að finna. Sérstaklega þegar ég var ung kona. Ég meira að segja var með á tímabili „megrunarklúbb.“ Var sjúklega skemmtilegt. Þetta var á þeim tíma sem ég hefði kynnst megrunarklúbbi í Bretlandi þar sem ég bjó í nokkur ár. Þar sem ég hafði grennst töluvert. Þegar ég kom heim vildu vinkonur mínar og aðrir endilega að ég gerði slíkt sama fyrir þær. Margar náðu frábærum árangri hjá mér og ég held að ég hafi farið á nýjan stað í lífinu í kjölfarið sem var að hvetja fólk til að gera eitthvað nýtt. Auðvitað hafði ég ekki tíma til gera þetta nema stuttan tíma. Kynntist frábæru fólki í þessu brölti mínu,“ segir Árelía sposk á svip.

Árelía segist hafa farið gegnum flesta kúra sem hægt er …
Árelía segist hafa farið gegnum flesta kúra sem hægt er að finna og meira segja verið með einn slíka á sínum snærum í forðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar kemur að matarvenjum hennar er það fyrst og fremst morgunmaturinn sem keyrir hana í gang.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Núna er ég með æði fyrir þessum morgunverði: „Einni grófri brauðsneið með sinnepi, skinku og osti og steiktu eggi með. Nauðsynlegt er að fá sér gott og sterkt kaffi“. Þetta bætir og kætir lund mína. Gott er að skrifa í dagbók á eftir, horfa út um gluggann og þakka almættinu fyrir staðgóðan mat og gjöfult líf.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Oftast borða ég ekki milli mála nema þegar ég er þreytt. Sérstaklega getur sykurlöngun gert vart við sig á löngum fundum. Ég sest niður með góðan ásetningi um að borða alls ekki sætindi sem boðið er upp á. Eftir nokkrar klukkustundir fara sætindin að kalla á mig og góður ásetningur fer út um veður og vind.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Svo sannarlega. Verð mjög skapvond og viðskotaill ef ég fæ ekki að borða.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum? 

„Mjólk, ost, egg, ávexti og alltaf einhverjar krukkur aftast sem renna svo út á tíma.“ 

Hefð að fara á Austur-Indíafélagið

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Það er hefð fyrir því í minni fjölskyldu að þegar um útskrift er að ræða förum við á Austur-Indíafélagið. Þetta hefur orðið til þess að börnin hafa útskrifast reglulega. Er sjálfsagt ástæða þess að þau hafa haldið áfram að mennta sig,“ segir Árelía og hlær. 

„Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt í bland við gamalt. Annars er það Jómfrúin á aðventunni. Snaps hefur oft orðið fyrir valinu með vinkonum, skemmtileg stemning. Þegar ég var í vinnunni upp í Háskóla og vildi gera vel við mig fór ég í Norræna húsið. Í gegnum tíðina hef ég reglulega gert vel við mig með dásamlegri súkkulaði köku sem fæst í Garðinum á Klapparstíg.„

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á Bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja? 

Ég á frábæra vinkonu sem er með veitingahúsablæti. Ég bara spyr hana þegar ég fer eitthvað og hún er oftast með einhverjar geggjaðar tillögur. Án hennar fer ég bara á næsta veitingastað sem er nógu lítill og stundum sveittur. Ég er sannfærð um að þegar þú ert með fjölskyldurekna staði sé meiri ást í matnum.“

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Elska að prófa eitthvað nýtt. Núna er það klettasalat, döðlur, rjómaostur og góð skinka.“

Uppáhaldsrétturinn þinn? 

„Lambakjöt hjá mömmu. Fiskibollur eins og amma gerði og Guðný frænka mín kann að gera. Fiskur í raspi og mánudags soðning.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn? 

„Bæði helst.“ 

Matur uppspretta orku

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?

„Oftast skemmtilegra að elda. Núna er ég algjörlega hætt að fara í megrun eða átak eða eitthvað slíkt. Ég er hins vegar upptekin af því að njóta matarins, borða fjölbreytta fæðu og vera heilbrigð. Eftir því sem árunum fjölgar gerum við okkur betur grein fyrir að fæðan er grunnurinn af orkustjórnun. Mikilvægt er líka að halda því til haga að í hamingju rannsóknum kemur ítrekað fram að við erum hamingjusömust þegar við borðum. Matur er því bæði uppspretta orka, árangursríkrar samskipta og vellíðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert