3,2 tonn af sælgæti seldust á Nammidögum Krambúðarinnar

Ásdís Ragna Valdimarsdóttir markaðsstjóri Krambúðarinnar.
Ásdís Ragna Valdimarsdóttir markaðsstjóri Krambúðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar eru mikil nammiþjóð og hafa flestir sterkar skoðanir á nammi. Rúmlega sex þúsund atkvæði voru greidd í kosningu Krambúðarinnar sem haldin var í tengslum við Nammidaga í Krambúðinni, tíu daga nammihátíð þar sem boðið var upp á 50% afslátt á nammibar og 30% afslátt af öðru nammi í verslununum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Krambúðinni.

Svarið sem nammigrísir þjóðarinnar hafa beðið eftir

Kosið var í fjórum flokkum, þ.e. velja átti besta nammið til neyslu í fjórum algengum aðstæðum í íslenskri nammimenningu; Sakbitna sælan, Sumarbústaðurinn, Stefnumótið og Bragðarefurinn.

Fyrsti flokkurinn var „Sakbitna sælan“, en spurningin þar hljómaði svona: „Þú ert ein/einn/eitt heima, og ætlar að horfa á mynd. Fyrst ferðu í Krambúðina. Hvaða íslenska nammi kaupirðu?“ Efst á blaði hér voru Trítlar, með 29,1% atkvæða, en í næstu þremur sætum á eftir voru Froskabitar, Lindu buff og Rommý.

Annar flokkurinn var „Bústaðurinn“, en spurningin hljómaði svo: „Þú ert að fara í sumarbústað með stórfjölskyldunni, og ákveður að kaupa eina íslenska nammitegund á leiðinni upp eftir. Hvað kaupirðu?“ Hér voru Hraunbitar í efsta sæti með 32,5% atkvæða en þar á eftir komu Freyju Mix, Nóa Kropp og Kókosbollur.

Þriðji flokkurinn var „Stefnumótið“, en spurningin þar hljómaði svo: „Þú ert að bjóða manneskju í heimsókn á deit númer tvö. Hvaða íslenska nammi kaupirðu? Hér var Nóa bland í poka hlutskarpast með 29,7% en á eftir komu Súkkulaðirúsínur, Djúpur og Kúlusúkk.“

„Mestur munur var á milli efsta sætis og annarra í síðasta flokknum, „Bragðarefnum“, en þar átti fólk að velja besta íslenska nammið í Bragðarefinn. Þar bar Þristurinn höfuð og herðar yfir annað sælgæti með ein 64,6% greiddra atkvæða, en aðrar tegundir á blaði voru Tromp, Zoo dýr og Lakkrískurl,“ segir Ásdís Ragna Valdimarsdóttir markaðsstjóri Krambúðarinnar og bætir við að það megi því segja að þorri þjóðarinnar sé búinn að velja sér sitt uppáhaldsnammi.

Íslendingar eru mikil nammiþjóð.
Íslendingar eru mikil nammiþjóð. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar sólgnir í sælgætið á Nammidögum

„Þátttaka var ekki aðeins mikil í atkvæðagreiðslunni, heldur var einnig mikil sala á sælgæti í verslunum Krambúðanna meðan á Nammidögunum stóð. Seldust tæp 3,2 tonn af sælgæti á þessum tíu dögum, en venjulega selja búðirnar um fimm tonn á mánuði. Mest seldu sælgætistegundirnar á Nammidögum voru Eitt sett, Prince Polo og Hraunbitar,“ segir Ásdís Ragna jafnframt.

„Þetta hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegur tími og gaman að sjá hvað fólk var tilbúið að leika sér með okkur. Þessi mikla þátttaka í kosningunni og þær viðtökur sem nammibarirnir okkar hafa fengið sýna hvað Íslendingar elska að fá sér nammi og að mörg höfum við sterkar skoðanir á því hvað er gott og hvað ekki,“ segir Ásdís Ragna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert