Hjónabandssæla bakarans fullkomnar helgarkaffið. Þessi er syndsamlega góð og þegar sumir munu bragða á þessari munu rifjast ljúfar bernskuminningar, bragðið mun kalla fram minningar sem gleðja. Heiðurinn af þessari gleði á Kjartan Ásbjörnsson, bakarameistari og annar eigandi GK Bakarís á Selfossi.
„Ég stend í flutningum þessa dagana og elska þegar fólk kemur í heimsókn með engum fyrirvara þegar ég er uppi í stiga með pensilinn í hendinni. En það er óumflýjanlegur fylgifiskur þess að flytja, svo þá þykir mér gott að eiga eitthvað fljótlegt með kaffinu. Og þegar ég segi fljótlegt þá meina ég fljótlegt að græja og fljótlegt að bera á borð, því trikkið við sæluna er að það má frysta hana og eftir smá stund á afþýðingarprógramminu í ofninum er hún eins og ný,“ segir Kjartan með bros á vör.
Svona gerir Kjartan bakarameistari þegar hann baka hjónabandssælu.
Samsett mynd
Hjónabandssæla fyrir átta dannaða eða fjóra svanga
- 120 g hveiti
- 110 g ósaltað smjör
- 90 g sykur
- 70 g tröllhafrar
- Eitt miðlungsstórt lífrænt egg
- Einn hnífsoddur af matarsóda
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið í hrærivélina og hnoðið með krók.
- Þegar deigið er komið saman er það kúlað upp og vafið í plastfilmu og geymt í kæli í sólarhring, eða lengur.
- Þegar komið er að bakstrinum, þá hnoðið þið deiginu örsnöggt upp í hrærivélinni aftur og rúllið út með kökukefli.
- Stingið botninn er stunginn út og látið ná upp í u.þ.b mitt formið.
- Smyrjið sultunni örlátlega yfir botninn, ekki alveg upp að kanti, sjá uppskrift fyrir neðan.
- Ef það er afgangur af sultunni hentar hún einstaklega vel með lambalærinu.
- Restin af deiginu er svo notuð yfir með frjálsri aðferð.
- Sumir vilja mylja það yfir, en ég kýs að skera strimla á breidd við vinstri þumalinn á mér og leggja yfir.
- Bakið síðan kökuna í 180°C heitum ofni í 18 mínútur á blæstri.
Sulta bakarans
- Einn veglegur rabarbari úr garðinum, hauslaus með rót, skorinn í bita
- Sykur eftir auganu.
- Handfylli af ferskri myntu frá Ártanga í Grímsnesi.
Aðferð:
- Bakað í ofni við 140°C hita í eina og hálfa klukkustund og vinnið saman með töfrasprota.