Þessi pasta- og kjúklingaréttur er guðdómlega góður og yljar líkama og sál. Hvítlauks- og parmesansósan gefur kjúklingnum svo gott bragð og spretturnar gleðja bæði bragðlaukana og augun. Það er svo gaman að bera fram fallega rétti og spretturnar fullkomna rétt eins og þennan. Uppskriftin kemur úr smiðju Vöxu.
Spretturnar passa svo vel með kjúklingnum og gera sósuna bragðbetri.
Ljósmynd/Vaxa
Tagliatelle með hvítlauks-og parmesansósu, kjúklingi og sprettum
Fyrir 6-8
- 4 msk. smjör
- 4 stk. hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínt saxaðir
- 2 tsk. þurrkað oreganó eða ítölsk kryddblanda
- 4 msk. hveiti
- 500 ml. kjúklinga- eða grænmetissoð, gert úr soðteningum
- 160 ml rjómi
- 250 g rifinn parmesan
- 1 – 2 msk. fersk steinselja frá VAXA, fínt söxuð
- Salt eftir smekk
- Svartur pipar eftir smekk
- 30 g sólblóma- og radísusprettur frá VAXA, má vera meira
- 6-8 stk. kjúklingabringur
- 1 pk. ferskt tagliatelle
Aðferð:
- Bræðið smjörið í meðalstórum potti og steikið hvítlaukinn í smjörinu ásamt þurrkryddinu á meðalhita.
- Setjið hveitið út í og blandið því vel saman við smjörið.
- Stillið á lágan hita og hellið um það bil 100 ml í einu af soðinu, út í pottinn, og hrærið vel á milli svo það myndist ekki kekkir.
- Látið sósuna malla á meðalhita í 2-4 mínútur, eða þar til hún þykknar vel.
- Bætið svo rjómanum út í og hrærið vel saman við sósuna.
- Setjið parmesanostinn út í og hrærið vel þangað til að osturinn bráðnar.
- Bætið síðan steinseljunni út í og smakkið til með salti og svörtum pipar.
- Kryddið kjúklingabringurnar eftir eigin smekk og steikið á pönnu áður en þær fara í ofninn eða setjið þær beint inn í 210°C heitan ofn og eldið þær í 18-23 mínútur, eftir stærð.
- Sjóðið pastað í potti með vatni samkvæmt leiðbeiningunum á pakkningunni.
- Blandið ostasósunni og soðnu pastanu saman og komið því fyrir á fati eða disk.
- Sneiðið kjúklingabringurnar og leggið þær fallega ofan á pastað og dreifið sprettum yfir fyrir kryddað bragð og fallegt útlit.
- Njótið vel.