Súper nachos eins og Hrefna Sætran gerir

Súper nachos er fullkominn réttur fyrir fjölskylduna að njóta saman.
Súper nachos er fullkominn réttur fyrir fjölskylduna að njóta saman. Samsett mynd/Björn Árnason

Hrefna Rósa Sætran matreiðslumeistari, veitingahúseigandi og stjörnukokkur með meiru gaf út matreiðslubók síðasta vetur sem hugsuð er fyrir börn og ber heitið Í eldhúsinu með Hrefnu Sætran. Bókin hefur notið mikilla vinsælda og margar góðar uppskriftir er þar að finna sem gaman er fyrir fjölskyldur að spreyta sig saman að gera.

„Hugmyndin að bókinni kviknaði þegar ég var orðin leið á símhringingum frá börnunum mínum sem kvörtuðu yfir svengd og að það væri ekkert til að borða. Þegar ég kom heim og sá fullan ísskáp af hráefnum áttaði ég mig á því að þörf væri á kunnáttu um mat og matreiðslu. Bókinni er ætlað að kveikja áhuga á mat og eldamennsku hjá krökkum og sýna þeim hvað það er auðvelt að töfra fram allskonar snilld í eldhúsinu,“ segir Hrefna og brosir.

Bókin er skiptist í kaflana á morgnana, í skólann, eftir skóla, á æfingu, á kvöldin og um helgar. Í bókinni má einnig finna fjölmarga punkta um næringu, hráefni og fleira sem tengist mat og matargerð svo fátt sé nefnt.

Að elda getur verið frábær gæðastund

„Ég heyrði í fréttunum að fólk væri alltaf minna og minna að elda heima hjá sér og mér fannst það mjög sorglegt. Svo sorglegt að ég ákvað að skrifa matreiðslubók. Matreiðslubók fyrir krakka því þau eru framtíðin. Það að elda er svo miklu meira en bara að búa til mat til að borða. Að elda getur verið frábær gæðastund með fjölskyldu og vinum, eða algjör hugleiðsla ef maður er einn. Svo getur líka verið mjög skapandi að elda. Það er hægt að breyta um hráefni í uppskriftum og gera þær að ykkar eigin. Eða bara alveg fylgja uppskriftunum,“ segir Hrefna.

„Ég hef pælt mikið í mat alla mína ævi. Bragði, áferð, lykt, útliti og samsetningu auk þess sem ég hef lesið fullt af greinum og bókum um mat og látið plata mig í að prófa allskonar misskemmtilegt. Einu sinni prófaði ég að borða bara græn epli í viku því það átti að vera svo svakalega hollt. Þið getið ímyndað ykkur hvað ég var svöng og orkulítil þá vikuna. Það er hollast að borða fjölbreytt og reyna að passa að það sé jafnvægi í hverri máltíð. Prótein og kolvetni og ekki of mikil fita. Lykillinn er fjölbreytni. Maður lærir á þetta með tímanum og það er um að gera að byrja að spá í þessu. Fólk er líka með allskonar ofnæmi og óþol sem það lærir inn á og ég skrifaði við uppskriftirnar hvar er hægt að breyta og bæta,“ segir Hrefna að lokum.

Nýtur mikilla vinsælda á hennar heimili

Hrefna deilir hér með lesendum Matarvefsins eina uppskrift sem steinliggur. Þetta er súper nachos sem nýtur mikilla vinsælda á hennar heimili og hægt er að útbúa hvaða dag sem er.  

Súper nachos, guacamole og gott salat er uppskrift af góðum kvöldmat sem allir geta verið ánægðir með. Fyrir ævintýragjarnari bragðlauka væri hægt að bæta á þetta maískorni, jalapeno, tómötum, fínt skornum vorlauk, baunum, sem væri líka hægt að skipta út fyrir nautahakki), rauðlauk og ólífum.

Það tekur ekki langan tíma að útbúa þennan rétt, það tekur um það bil 15 mínútur að undirbúa hráefnið fyrir eldunina og aðeins 15 mínútur að elda réttinn.

Girnilegt nachos sem allir geta gert að sínu.
Girnilegt nachos sem allir geta gert að sínu. Ljósmynd/Björn Árnason

Súper nachos 

Fyrir 4

  • 2 pokar af uppáhaldsnachosinu þínu
  • 1 pk. rifinn mozzarellaostur
  • 1 krukka salsasósa
  • 1 pk. nautahakk ( 500 g)
  • 1 pk. taco kryddblanda
  • Olía til steikingar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C.
  2. Hitið pönnu á miðlungshita og setjið smá olíu á hana.
  3. Setjið nautahakkið á pönnuna og steikið það þangað til það er allt orðið grátt á litinn. Bætið þá tacokryddinu út í og steikið aðeins áfram.
  4. Setjið bökunarpappír á ofnskúffu.
  5. Stráið einu lagi af nachos í skúffuna, svo nautahakki yfir og rifna ostinum þar ofan á. Setjið svo annað lag af nachos, nautahakki og osti.
  6. Bakið réttinn í 10 mínútur og setjið salsasósu ofan á þegar hann kemur út úr ofninum.
  7. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert