Veltan á vefnum jókst um 600% í faraldrinum

Guðrún Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri og einn eiganda Kokku fagnar þessum tímamótum.
Guðrún Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri og einn eiganda Kokku fagnar þessum tímamótum. mbl.is/Eyþór Árnason

Vefverslun Kokku fagnar nú 20 ára afmæli og er í fullum blóma þessa dagana. Guðrún Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri og einn eiganda Kokku er stolt á þessum tímamótum.

„Það voru ekki margar íslenskar vefverslanir komnar í loftið fyrir 20 árum síðan, enda erum við að halda upp á þennan háa aldur með tilboðum bæði í dag og á morgun,“ segir Guðrún með bros á vör.

Netheimarnir gætu aukið sýnileika verslunarinnar

Guðrún segir smá aðdraganda hafa orðið á því að ákvörðun hafi verið tekin að opna vefverslun og systir hennar eigi þátt í því að vefverslunin fór í loftið.

„Kokka hafði verið starfrækt í um það bil 3 ár þegar Auður systir kom á fullu með inn í reksturinn. Hún hafði þá nýlokið námi í tölvunarfræði við HÍ og fannst auðvitað ómögulegt hversu lítið sýnileg Kokka var í netheiminum. Við vorum á þeim tíma bara með einfalda síðu með upplýsingum um staðsetningu og opnunartíma, en vorum alveg sammála um að vefverslun gæti aukið sýnileika verslunarinnar til muna þó ekki hafi verið mikið pantað á netinu á þessum tíma.“

Kokka hefur ávallt verið þekkt fyrir að vera með fallegar uppstillingar í búðargluggunum og fangaði athygli fólks sem þar hefur gengið fram hjá gegnum tíðina.

„Enda má segja að vefurinn hafi fyrst og fremst verið búðargluggi. Fólk var oft búið að skoða úrvalið á vefnum og ákveða hvað það ætlaði að fá, en kom samt og keypti á staðnum. Stundum var fólk búið að setja vörur í körfuna, tók svo skjáskot sem það prentaði út og rétti okkur yfir búðarborðið,“ segir Guðrún og hlær.

Aðspurð segir Guðrún að það hafi tekið sinn tíma að safna efni á vefinn, það hafi ekkert verið hlaupið að því.

„Fæstir af birgjunum okkar voru með myndabanka. Við fengum sendar útprentaðar ljósmyndir frá þýskum birgja sem voru með ljósbláum skýjuðum bakgrunni og handamódeli sem hélt á eldhúsáhöldunum. Það var ekki mikið af nothæfu efni í boði. Við enduðum á að kaupa okkur tjald og ljóskastara fyrir myndatökur. Þetta var heilmikil vinna því það er ótrúlega erfitt að ná góðum myndum af vörum úr málmi og gleri.

Þetta hefur sem betur fer breyst og núna er þetta mikið minna mál, þó fólk vanmeti oft vinnuna sem fer í að halda vefverslun við. Það þarf stöðugt að uppfæra og bæta við nýjum vörum sem koma á lager.“

Guðrún reiknar með að standa við búðarborðið um ókomin ár.
Guðrún reiknar með að standa við búðarborðið um ókomin ár. mbl.is/Eyþór Árnason

Hlutfall vefverslunar ennþá lágt

Hvað er það sem hefur helst komið þér á óvart í þessum rekstri?

„Hvað hlutfall vefverslunar er ennþá lágt. Það er alltaf talað um að framtíð verslunar sé á netinu, en það var ekki fyrr en í Covid sem hlutfallið fór yfir 10% af veltu. Vefverslun tók stórt stökk á þeim árum, enda fólk minna að þvælast í búðum. Hjá okkur jókst veltan á vefnum um 600%. Það var mikið fjör, pakkað á daginn og keyrt út á kvöldin.“

Hefur þú ávallt verið fagurkeri þegar kemur að eldhústækjum og tólum og því sem fylgir eldhúsi?

„Já, ég fékk mína fyrstu uppskriftabók í jólagjöf þegar ég var 8 ára gömul og hef enn mjög gaman að fallegum uppskriftabókum, á fleiri en ég kem fyrir. Svo finnst mér gaman að hafa fallegt í kringum mig. Þegar græjur i eldhúsið eru annars vegar finnst mér mikilvægast að þær virki vel, en það er margfalt betra ef þær eru líka fallegar. Djúpa koparpannan okkar er til dæmis í miklu uppáhaldi. Engin panna leiðir betur hita og svo er gaman að hafa hana hangandi upp á vegg.“

Á efri hæð Kokku sem staðsett er á Laugaveginum er …
Á efri hæð Kokku sem staðsett er á Laugaveginum er búið að opna kaffihús. mbl.is/Eyþór Árnason

Falleg og björt hæð með útsýni að Esjunni

Búið er að opna kaffihús í Kokku á efri hæðinni og ilmurinn er lokkandi þegar komið er í inn í verslunina. Aðspurð segir Guðrún að eftir að þau stækkuðuð og bættu við sig rými hafi vaknað sú hugmynd að opna kaffihús.

„Verslunin sem var við hliðina á okkur flutti og þá losnaði jarðhæðin út á horn og öll efri hæðin. Við vildum endilega stækka á jarðhæðinni en við urðum að taka allt eða ekkert. Ég fór upp og kíkti á húsnæðið þegar það var búið að tæma og sá strax möguleikana. Hæðin er björt og falleg með góðu útsýni, annars vegar yfir Laugaveginn og hins vegar í átt að Esjunni. Ég sá strax fyrir mér hvað gæti verið kósí að sitja við gluggann með kaffibolla.“

Hönnunin á kaffihúsinu er einstaklega velheppnuð og hlýleikinn er í …
Hönnunin á kaffihúsinu er einstaklega velheppnuð og hlýleikinn er í forgrunni. mbl.is/Eyþór Árnason

Guðrún segir að það vinni mjög vel saman að reka kaffihús samhliða versluninni. „Fólk kemur til okkar til að ræða matargerð og eldhúsáhöld og verður oft ansi svangt þegar það er búið að hlusta á manninn minn, hann Steina, lýsa fjálglega hvernig hann notar allar þessar græjur. Þá er tilvalið að bjóða upp á efri hæðina. Við erum bæði með hádegismat og svo er notalegt að setjast niður og fá sér kökubita með kaffinu seinnipartinn. Svo er lukkustund hjá okkur milli frá þrjú til fimm á daginn, þá er upplagt að fá sér freyðandi og sítrónutart.“

Allar kræsingarnar sem boðið er upp á kaffihúsinu eru bakaðar …
Allar kræsingarnar sem boðið er upp á kaffihúsinu eru bakaðar og eldaðar á staðnum. mbl.is/Eyþór Árnason

Allt eldað og bakað á staðnum

Hver er sérstaða kaffihússins?

„Ætli sérstaðan sé ekki fyrst og fremst fólgin í því að við eldum og bökum á staðnum. Ostaskonsurnar eru bakaðar á hverjum degi og einnig bollurnar sem fylgja með súpunni. Svo er misjafnt hvaða kökur eru á kökubarnum, en ostaskonsurnar og gulrótarkakan verða alltaf að vera í boði svo gestirnir verði ekki svekktir.“

Guðrún horfir björtum augum til framtíðarinnar og nýtur sinn í vinnunni. „Fólkið í kringum mig hefur grínast með að ég eigi aldrei eftir að geta hætt að vinna, mér þyki svo gaman í vinnunni. Við erum líka alltaf að fá nýjar hugmyndir sem okkur langar að hrinda í framkvæmd. Núna erum við að spá í hvort það gæti ekki verið gaman að halda námskeið á efri hæðinni, kannski getið þið komið og fræðst um súrkál í október,“ segir Guðrún sposk á svip.

„En ég reikna með að ég muni standa hér við búðarborðið um ókomin ár, að því gefnu að Íslendingar haldi áfram að heimsækja okkur. Því burtséð frá ferðamönnunum sem kaupa stöku servíettupakka og kaffisopa þá eru það fastagestirnir okkar sem eru mikilvægastir fyrir reksturinn og sálarlífið,“ segir Guðrún að lokum.

Ilmurinn af kaffinu lokkar gjarnan viðskiptavinina upp á aðra hæð.
Ilmurinn af kaffinu lokkar gjarnan viðskiptavinina upp á aðra hæð. mbl.is/Eyþór Árnason
Tedrykkja nýtur líka vinsælda.
Tedrykkja nýtur líka vinsælda. mbl.is/Eyþór Árnason
Kaffihúsið er kærkomin viðbót í flóruna hjá Kokku.
Kaffihúsið er kærkomin viðbót í flóruna hjá Kokku. mbl.is/Eyþór Árnason
Kósíhornið.
Kósíhornið. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert