Það þarf ekki alltaf að taka langan tíma að elda góðan og nærandi kvöldmat. Tælensk matargerð er innblásturinn af þessari kjúklinganúðlusúpu en hún er með kókos- og karrýbragði. Súpan mun einnig slá í gegn hjá börnunum enda sérlega litríkur og fallegur matur.
Það sem auðveldar hlutina er að kaupa hálfan tilbúinn kjúkling og rífa hann niður í súpuna í lokin.
Karrý- og kókossúpa með kjúklingi
- Tvö hvítlauksrif
- Ferskt engifer (biti á stærð við þumal)
- Karrýkrydd
- 1 msk. rautt karrýpaste (athugið þetta er svolítið sterkt)
- 2 teningar kjúklingakraftur
- 2 dósir af kókosmjólk
- Sæt kartafla
- Rauðlaukur
- Ferskt kóríander
- Rautt ferskt chilli (ef vill)
- Þykkar hrísgrjónanúðlur
- Hálfur tilbúinn kjúklingur (rifinn niður)
- 2 límónur
Aðferð
- Skerið niður engifer og hvítlauk smátt og steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur.
- Bætið þá við um það bil einni matskeið af karrýkryddinu og rauða karrýpaste-inu.
- Leyfið að malla í nokkrar mínútur.
- Hellið um það bil tveimur lítrum af vatni ofan í pottinn og myljið teningana út í. Náið upp suðu.
- Hellið kókosmjólkinni út í.
- Skrælið niður sæta kartöflu og skerið í hæfilega bita. Setjið ofan í súpuna. Smakkið súpuna til með salti þegar kartöflubitarnir eru soðnir eftir um það bil tuttugu mínútur.
- Takið til annan pott og sjóðið vatn fyrir núðlurnar. Sjóða skal núðlurnar í um það bil þrjár mínútur.
- Rífið niður kjúkling.
- Takið til súpuskálarnar, setjið núðlur í botninn og kjúklingabita yfir. Hellið súpu yfir ásamt sætum kartöflum.
- Yfir súpuna er gott að setja ferskan kóríander, þunnskorinn rauðlauk og rautt chilli. Kreistið yfir ferska límónu og njótið vel.
Það má að sjálfsögðu nota núðlur að eigin vali og annað grænmeti í þessa súpu. Það er einnig gott að sjóða smátt skorið brokkolí og sveppi í súpunni. Það má einnig minnka magnið af rauða karrýpaste-inu þar sem það er svolítið sterkt.