Hugi og Wiktor stóðu uppi sem sigurvegarar í ár

Hugi Rafn Stefánsson landsliðskokkur vann keppnina um Eftirrétt ársins 2024 …
Hugi Rafn Stefánsson landsliðskokkur vann keppnina um Eftirrétt ársins 2024 og Wiktor Pálsson keppnina um Konfektmola ársins 2024. Samsett mynd

Hugi Rafn Stefánsson landsliðskokkur vann keppnina Eftirréttur ársins 2024 og Wiktor Pálsson keppnina um Konfektmola ársins 2024.

Garri stóð fyrir keppnunum Eftirréttur ársins og Konfektmoli ársins á fimmtudaginn síðastliðinn, þann 31. október, á sýningunni Stóreldhús 2024. Þar sýndi framúrskarandi fagfólk einstaka nákvæmni, sköpunargáfu og djúpa þekkingu á hráefnum og tækni. Leitast var eftir að framkalla fullkomið bragð og áferð með hverjum bita, ásamt því að skapa sjónræna list.

Fjölbreytni í bragði og áferð

Eftirréttirnir voru fjölbreyttir og léku fagmenn sér við listina að blanda saman ólíkum bragðtegundum til að ná fullkomnu bragði til að gleðja bragðlaukana. Banana-púrran kom skemmtilega vel fram hjá keppendum, en hugmyndin af hráefninu kom frá Sindra Guðbrandi Sigurðssyni dómara í Eftirréttur ársins og Bocuse d‘Or keppanda. Sindri fór á námskeið á vegum Cacao Barry fyrr á árinu þar sem Ramon Morata gerði eftirrétt úr banana-púrru sem heillaði hann upp úr skónum. Sindri sagði eftir keppnina að honum þótti einstaklega gaman að sjá hvað er hægt gera fjölbreytta eftirrétti úr banana-púrrunni frá Capfruit.

„Mikil fjölbreytni var í bragði og áferð, bæði ferskir og þyngri eftirréttir þar sem bananinn hefur þann eiginleika að virka fyrir bæði,“ sagði Sindri eftir keppnina.

Eins og fram hefur komið sigraði Hugi Rafn Stefánsson keppnina um Eftirrétt ársins. Símon Kristjánsson Sullca hlaut annað sætið og Filip Jan Jozefik landaði þriðja sætinu. Nemaverðlaun Garra fékk Mikael Máni Oddsson. Sigurvegarinn hlaut í verðlaun námskeið hjá Chocolate Academy Cacao Barry.

Eftirréttur ársins 2024.
Eftirréttur ársins 2024. Ljósmynd/Hugi Rafn Stefánsson

Að sögn dómnefndar stóðu allir keppendur sig með stakri prýði. Dómnefndin var skipuð úrvals liði en það voru þau Sindri Guðbrandur Sigurðsson Bocuse d‘Or keppandi, Snædís Xyza Mae Ocampo þjálfari kokkalandsliðsins og Kent Madsen matreiðslumaður og tækniráðgjafi hjá Cacao Barry.

Einstaklega fallegir þetta árið

Það voru föngulegir konfektmolarnir sem keppendurnir töfruðu fram. Það var samdóma álit dómnefndar að þeir hafi verið einstaklega fallegir þetta árið.

„Að búa til konfektmola krefst sérstakrar nákvæmni til að ná réttri áferð, jafnvægi og útliti,“ sagði Ólöf Ólafsdóttir, fyrrverandi landsliðskokkur og konditori, annar dómaranna í keppninni. En Ólöf og Hafliði Ragnarsson bakarameistari, súkkulaðigerðarmaður og konditori skipuðu dómnefndina í ár. Þau töluðu um að tæknileg útfærsla konfektmolanna þetta árið hafi verið framúrskarandi.

„Það sem sigurmolinn hafði fram yfir hina var að tæknin var mikil ásamt því að hann var algjör bragðsprengja sem skoraði hátt hjá okkur Hafliða,“ sagði Ólöf að lokum.

Eins og áður hefur komið fram þá sigraði Wiktor Pálsson keppnina um Konfektmola ársins 2024, Wiktor hefur áður tekið þátt í keppninni um Eftirrétt ársins, en hann hefur náð þriðja sætinu árið 2018 og öðru sætinu árið 2019. Annað sætið í keppninni í ár hlaut Íris Nhí Einarsdóttir og Ísabella Karlsdóttir það þriðja og hún fékk einnig nemaverðlaun Garra. Sigurvegarinn um Konfektmola ársins hlaut í verðlaun námskeið hjá Chocolate Academy Cacao Barry líkt og sigurvegarinn um Eftirrétt ársins.

Konfektmoli ársins 2024.
Konfektmoli ársins 2024. Ljósmynd/Aðsend

Krefst stöðugrar þróunar og skapandi nálgunar

Eftirréttur ársins hefur verið haldin síðan 2010 og Konfektmoli ársins frá árinu 2017, keppnirnar hafa fest sig í sessi sem vettvangur þar sem nýjungar og sköpunargleði í eftirréttum og konfekti er í hávegum höfð.

„Að skapa minnisstæða matarupplifun krefst stöðugrar þróunar og skapandi nálgunar þar sem þeir sem skara fram úr leita sífellt nýrra leiða til að gleðja bragðlaukana. Við hjá Garra erum afar stolt af keppnunum og þátttakendum sem skapa skemmtilega sögu. Þessar keppnir eru ekki aðeins mikilvægir viðburðir fyrir fagfólk heldur stuðla þær einnig að framgangi og nýsköpun í íslenskri matargerð, þar sem þátttakendur sýna mikinn metnað og mikla færni,“ segir Hulda Sigríður Stefánsdóttir markaðsstjóri hjá Garra.

 

Hópurinn sem tók þátt í ár í keppnunum Eftirréttur ársins …
Hópurinn sem tók þátt í ár í keppnunum Eftirréttur ársins og Konfektmoli ársins 2024. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert