Mataræðið sem gefur húðinni ljóma

Laufey Birkisdóttir aðhyllist miðjarðarhafsmataræði og segir að það hafi afar …
Laufey Birkisdóttir aðhyllist miðjarðarhafsmataræði og segir að það hafi afar góð áhrif á húðina. mbl.is/Karitas

Laufey Birkisdóttir hefur ávallt hugsað vel um líkama og sál. Eitt sem hún hugar sérstaklega að er mataræðið og hvaða áhrif það hefur á húðina.

Hún aðhyllist miðjarðarhafsmataræði og segir það vera afar gott fyrir húðina. Þá fái líkaminn réttu næringarefnin til þess að húðin ljómi.

Laufey er snyrti- og förðunarfræðingur og nuddari en hún lærði á Englandi og í Frakklandi. Hún rekur snyrtistofuna Leilu CACI á Seltjarnarnesi og blómstrar þar í sínu starfi.

„Ég hef ávallt aðhyllst heildræna meðferð, það er að segja að innra og ytra heilbrigði haldist í hendur. Hvernig þú hugsar um þig og ekki síður til þín er það sem skiptir máli. Einnig finnst mér mataræði skipta miklu máli og hefur miðjarðarhafsmataræði verið það sem hentar mér best,“ segir Laufey.

Húðin stærsta líffæri líkamans

Aðspurð segir Laufey að rétt mataræði geti gert ótrúlega margt fyrir húðina og mun meira en margan grunar.

„Húðin er stærsta líffæri líkamans og gegnir mikilvægu hlutverki. Verndar líkamann gegn bakteríum, vírusum og skaðlegum geislum. Hjálpar til við að viðhalda líkamshita með svitamyndun og blóðflæði. Skynjar snertingu, hita, kulda og sársauka. Einnig heldur hún raka í líkamanum og kemur í veg fyrir of mikið vatnstap. Framleiðir D-vítamín þegar húðin verður fyrir sólarljósi. Þessi hlutverk eru nauðsynleg fyrir heilsu og jafnvægi líkamans,“ segir Laufey.

Þegar Laufey er spurð hvað sé gott að gera til að fá ljómandi húð fyrir stóra daginn eins og brúðkaup, stórafmæli og önnur tækifæri segir hún að mikilvægt sé að huga því sem innbyrt er.

„Til að ná fram heilbrigðri, ljómandi húð er mikilvægt að huga að því sem þú setur inn í líkamann. Nærandi fæða, sem eykur kollagen, raka og teygjanleika húðarinnar, er lykillinn að góðu útliti. Einnig eru ákveðnar matartegundir sem mikilvægt er að forðast til að bæta húðina, til að mynda koma í veg fyrir bólur, bólgur og þrota,“ bætir Laufey við.

„Síðan skiptir líka máli að velja góða drykki þegar við viljum láta húðina ljóma. Regluleg neysla þessara drykkja getur bætt húðina og stuðlað að fallegu útliti á stóra deginum,“ bætir Laufey við.

Miðjarðarhafsmataræðið og húðheilsa

Laufey segir að miðjarðarhafsmataræðið sé einnig frábært fyrir húðheilsu, þar sem það byggist á heilbrigðri fitu og andoxunarefnum.

„Það skiptir miklu máli að borða ríkulega af grænmeti, ávöxtum, baunum, heilkorni og velja heilbrigða fitu. Einnig er vert að nota ólífuolíu, borða hnetur og fræ til að fá góða fitu. Fiskur og sjávarfang er afar góður kostur fyrir húðheilsuna. Fiskur eins og lax og sardínur er fullur af ómega-3 fitusýrum. Loks er vert að takmarka rautt kjöt og velja frekar fisk, fuglakjöt og plöntuprótein. Til að mynda eru baunir og linsubaunir kjörnar fyrir prótein og önnur mikilvæg næringarefni. Með því að fylgja þessu mataræði og forðast óholla fæðu er hægt að ná fram heilbrigðri húð sem glóir á mikilvægum degi.“

Lykillinn að góðu útliti

  • Andoxunarefni: Fæða eins og ber, grænmeti og sítrusávextir er rík af andoxunarefnum sem auka kollagenframleiðslu og verndar húðina gegn skaðlegum áhrifum sindurefna.
  • Holl fita: Avókadó, feitur fiskur og hnetur veita líkamanum nauðsynlegar fitusýrur sem halda húðinni mjúkri og rakri.
  • Raki: Matvæli eins og agúrka, vatnsmelónur og kókosvatn stuðla að góðum raka húðarinnar og halda henni ferskri.
  • Kollagen: Beinsoð, sítrusávextir og paprika eru frábær fyrir aukna kollagenframleiðslu, sem stuðlar að þéttari og stinnari húð.
  • Bólgueyðandi fæði: Grænt te, engifer og túrmerik dregur úr bólgum í húðinni og styður við jafnt og ljómandi yfirbragð.
  • Sink: Baunir eru ríkar af sinki sem hjálpar til við gróanda húðarinnar og varnar bólum. 

Það má í raun segja að töfraformúla fyrir ljómandi húð felist í jafnvægi næringar, raka og andoxunarefna. Með þessum einföldu matar- og drykkjuvenjum er hægt að ná ljómandi og heilbrigðri húð.

Laufey mælir með að drekka:

  • Vatn vökvar og heldur húðinni glansandi.
  • Grænt te er ríkt af andoxunarefnum sem vernda húðina gegn skaða.
  • Kókosvatn vökvar líkamann og veitir raka.
  • Safi úr ferskum ávöxtum, ríkur af vítamínum og andoxunarefnum sem næra húðina.
  • C-vítamíndrykkir hjálpa við framleiðslu kollagens fyrir sterkari húð.
  • Aloa vera örvar kollagen og jafnar húðlit.
  • Rauðrófusafi gefur gljáa, endurnærir og hreinsar.
Góðir drykkir skipta máli fyrir húðina og fátt er betra …
Góðir drykkir skipta máli fyrir húðina og fátt er betra en vatn og ferskar sítrónur. Ljósmynd/Karítas

Ákveðnar matartegundir geta ert meira

Aðspurð segir Laufey að ákveðnar matartegundir geti ert húðina meira en aðrar, sérstaklega hjá fólki sem er með viðkvæma húð.

„Eins og ég nefndi áðan þá getur sykur aukið bólur og hraðað öldrun húðarinnar. Hjá sumum getur mjólk valdið bólum og bólgum. Í unnum matvörum er innihald rotvarnarefna gjarnan hátt, í þeim er líka fita og sykur sem geta valdið bólum og ertingu. Síðan er of mikið salt ekki gott fyrir húðina, það getur valdið bjúg og þurrkað húðina upp. Steiktur matur inniheldur oft transfitur sem geta aukið bólgur og ert húðina. Það er því best að forðast þessar matartegundir ef viðkomandi er viðkvæmur fyrir húðvandamálum,“ segir Laufey og bætir við að gott sé skoða vel allar innihaldslýsingar á matvælum til að fylgjast með næringargildinu.

Þetta ber að varast

  • Sykur: Getur örvað bólur og hraðað öldrun húðarinnar.
  • Unnar matvörur: Innihalda mikið af óhollri fitu og sykri sem getur valdið bólum og húðertingu. Mjólkurvörur geta valdið bólum hjá sumum einstaklingum.
  • Unnar kjötvörur: Mikið salt og rotvarnarefni í þessum vörum geta þurrkað húðina.
  • Salt: Of mikið salt getur þurrkað húðina og valdið bjúg.

„Síðan má ekki gleyma að það er mjög mikilvægt að gæta að meltingar- og þarmaflórunni og borða fæðu með góðgerlum. Þannig má líka stuðla að heilbrigðri húð. Til gamans má geta þess að gamla góða kjötsúpan hennar mömmu er mjög góð fyrir húðina vegna þess að hún inniheldur kollagen úr beinsoði sem eykur teygjanleika húðarinnar, prótein sem styður endurnýjun húðfrumna og grænmeti sem er ríkt af vítamínum og andoxunarefnum sem vernda húðina og bæta ljóma hennar,“ bætir Laufey og brosir sínu geislandi brosi.

Þegar Laufey er að dunda sér í eldhúsinu við matargerðina gerir hún það af ást og umhyggju. Það er eitt af því sem hún hefur að leiðarljósi, að hafa stundina góða.

„Gott er að hafa í huga þegar þú ert að elda mat að gera það með þakklæti og kærleika. Þá verður matarupplifunin líka enn betri,“ segir Laufey að lokum og gefur hér lesendum uppskriftina að sínum uppáhaldssalatrétti, heilsusalati Laufeyjar.

Hver og einn getur sett salatið saman með sínu nefi.
Hver og einn getur sett salatið saman með sínu nefi. mbl.is/Karítas

Heilsusalat Laufeyjar

Fyrir 4-6

  • 2 dósir túnfiskur í olíu (hellið olíunni af og setjið í sér skál og hrærið áður en hann er settur saman við salatið)
  • 1 pk. frosnar rækjur, afþíða, setja klút yfir og kreista vökvann úr
  • 4 harðsoðin egg, skorin í báta ef vill
  • ½ gúrka, skorin eftir smekk
  • 12 kirsuberjatómatar
  • 1 stk. paprika, skerið eftir smekk
  • 1 pk ferskt salat að eigin vali
  • 3 gulrætur, saxaðar
  • 1 stk. stór rauðlaukur, smátt skorinn
  • ½ krukka salatostur
  • Mozzarellaostur eftir smekk
  • 3 msk. ólífuolía
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 1 msk. ferskt rósmarín, saxað
  • ½ tsk. salt
  • 1 msk. rifinn parmesanostur
  • 1 msk. rifinn sítrónubörkur
  • 1 msk. kapers

Aðferð:

  1. Veljið fallega og veglega skál til að setja salatið í. Setjið hráefnið í skálina eftir því sem ykkur langar til en allra best er að setja harðsoðnu eggin síðast og skera þau í báta.
  2. Rífið síðan í lokin parmesanostinn og sítrónubörkinn yfir.
  3. Berið fallega fram.

 

Laufey er fagurkeri fram ífingurgóma og leggur mikið upp úr …
Laufey er fagurkeri fram ífingurgóma og leggur mikið upp úr að leggja fallega á borð. mbl.is/Karítas
Girnilegt salat hjá Laufeyju.
Girnilegt salat hjá Laufeyju. mbl.is/Karítas
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka