Þessi baka er syndsamlega góð og bananabragðið gerir allt betra. Það er ofureinfalt að útbúa þessa dásemd sem ber heitið „Banoffee Pie“, sérstaklega þegar maður notar tilbúið Dulce De Leche. Banani og kaffi gefa bökunni nafnið eða „banana and coffee“ sem verður „banoffee“.
Heiðurinn af uppskriftin á Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar og hún kolféll fyrir þessari böku.
„Mér fannst einstaklega gott að nota instant kaffiduft í rjómann en ef þið viljið sleppa kaffibragðinu þá má það að sjálfsögðu,“ segir Berglind og bætir við að þetta sé kakan sem vert er að mæta með í vinnuna og gleðja vinnufélagana með.
„Banoffee“-baka
- 220 g hafrakex frá Frón
- 50 g pekanhnetur
- 100 g smjör
- 1 krukka Dulce De Leche (um 370 g)
- 3 meðalstórir bananar
- 400 ml rjómi
- 2 msk. sykur
- 1 msk. instant kaffiduft (má sleppa)
Til skrauts:
- Dökkt súkkulaði eftir smekk
Aðferð:
- Rifið dökkt súkkulaði (til skrauts).
- Byrjið á því að útbúa botninn með því að mala saman hafrakex og pekanhnetur þar til áferðin minnir á sand.
- Klæðið botninn á um 20 cm smelluformi með bökunarpappír og spreyið matarolíuspreyi yfir og upp kantana að innan.
- Bræðið smjörið og hellið yfir kexmylsuna, blandið vel saman, hellið í kökuformið og þjappið í botninn og aðeins upp kantinn. Frystið í um 15 mínútur.
- Hellið Dulce De Leche næst yfir botninn.
- Skerið bananana í sneiðar og raðið yfir karamelluna.
- Þeytið næst saman rjóma, sykur og instant kaffiduft þar til topparnir halda sér.
- Smyrjið yfir bananana og toppið með smá rifnu dökku súkkulaði.
- Kælið í að minnsta kosti tvær klukkustundir áður en þið losið úr forminu og skerið í sneiðar.
- Berið fram og njótið með þeim sem ykkur langar að eiga syndsamlega góða stund með.